138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg staðfest að það var talið óumflýjanlegt að nefndin hefði ríkar heimildir til þess að upplýsa mál og leita sannleikans. Já, það er alveg rétt. Það er líka alveg ljóst að þeirri nefnd var aldrei ætlað neitt ákæruhlutverk, enda ekki hægt samkvæmt lögum, heldur annars vegar að búa það mál í hendur Alþingis með skýrslu sinni — það vissu allir hvaða kaleikur beið síðan Alþingis eða gátu átt von á því — og hins vegar að vísa þeim málum sem aðra leið áttu að fara eftir atvikum til sérstaks saksóknara. Þannig að ég tel að það hafi á allan hátt verið staðið algerlega eðlilega að því að setja rannsóknarnefnd Alþingis erindisbréf eða starfsreglur að þessu leyti og það sé enginn ágalli á málsmeðferðinni hvað varðar síðan það erfiða hlutskipti sem við höfum með höndum núna og gat aldrei endað annars staðar en hér.