138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé við hæfi að ég feti í fótspor þeirra sem á undan hafa talað og byrji á því að þakka nefndinni fyrir gríðarlega mikil og vel unnin störf og mikla fórnfýsi í störfum sínum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér í þinginu að það hefur verið mikið álag á nefndarmönnum og þeir hafa þurft að verja ákaflega miklum tíma í þessa yfirgripsmiklu vinnu. Það er ástæða til að ítreka þakkir til þeirra fyrir það.

Margt í skýrslunni og raunar flest finnst mér vera mjög gott. Ég hef náð að lesa megnið af henni og þar eru ýmsar ábendingar sem ég held að muni gagnast okkur mikið við úrvinnslu mála í þinginu á komandi missirum og reyndar árum. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem ég vil sérstaklega nefna sem jákvæða hluti í þessari yfirferð. Síðan vil ég bæta við örlítilli gagnrýni, eða kannski er gagnrýni ekki rétta orðið heldur vangaveltur, um hvort sumir hlutir mættu hugsanlega vera öðruvísi eða hvort hugsanlega mætti bæta við. Enda hefur tilhneigingin verið sú í umræðu eftir hrunið að allt sem varðar hrunið og aðdraganda þess hefur verið talið yfir gagnrýni hafið. Við þurfum því að reyna að forðast að festast aftur í þeim förum, að ekki megi gagnrýna tiltekna hluti. Ég tek þó aftur fram að það er ekkert sérstaklega mikið gagnrýnivert í skýrslunni, ég ætla bara að velta vöngum yfir því hvort sums staðar megi bæta við.

Ég verð líka að biðja nefndina afsökunar á því að það mun líklega skorta formfestu í ræðu minni því að ég ætla að nota þá aðferð að blaða í skýrslunni og ræða málin eftir því sem ég rek augun í þau.

Fyrst vildi ég nefna kaflann um Alþingi þar sem segir að auka þurfi sjálfstæði þingsins. Það hefur verið mikið rætt og ég tek heils hugar undir að gríðarlega mikilvægt sé að auka sjálfstæði þingsins. Hér eru ýmsar leiðir nefndar til þess. Einnig er sagt að stjórnmálaumræðuna þurfi að bæta, ég ætla að koma inn á það aftur á eftir.

Svo segir hér í skýrslunni:

„Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum.“

Þetta er einn af þeim stöðum í skýrslunni þar sem maður hefði viljað sjá nánari útfærslu eða hugmyndir, jafnvel bara dæmi um atvik og hvernig mætti bregðast við þeim. Þótt maður sé sammála flestu í megindráttum mætti sums staðar — og þetta er kannski bara til marks um það hversu vel ég treysti nefndinni — vera nánari útfærsla sem hefði hjálpað í vinnunni sem í hönd fer. Það skiptir kannski ekki öllu máli, það verður þá bara unnið í framhaldinu.

Það er líka talað um reglur um nefndafundi, ég ætla að koma inn á það á eftir líka.

Varðandi tillögur um stofnun sjálfstæðrar ríkisstofnunar sem starfi á vegum Alþingis og hafi það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði, þá tek ég undir það. Ég vil þó ítreka að engu að síður er til staðar sú hætta að slík stofnun fari að þjóna framkvæmdarvaldinu á sama hátt og margar stofnanir sem eiga í raun að vera undir Alþingi settar hafa einhvern veginn leiðst undir framkvæmdarvaldið.

Greiningin á íslenskum fjármálafyrirtækjum er fín, ég tek þar undir flest. Áður en lengra er haldið með það ætla ég að koma aftur að tveimur atriðum varðandi umræðu um þingið og störf þess.

Annars vegar er það umræðuhefðin. Ég get svo sem tekið undir að oft á tíðum er umræðuhefðin ekki til þess fallin að leiða fram bestu rök og gagnrök í málum og komast þannig að niðurstöðu, það er að segja í þingsal. Hins vegar finnst mér þetta vera öðruvísi í nefndunum. Þar finnst mér fara fram prýðileg vinna. Spurningin er: Getur ekki verið að umræðan í þingsal, hvernig þingmenn ræða málin í þingsal, helgist þá af einhverju öðru, hugsanlega því hvernig fjallað er um stjórnmálin? Þá má spyrja hvort tillagan um að opna nefndafundi kunni að skapa hættu á því að nefndafundir fari að líkjast þingfundum. Það er fátt leiðinlegra í amerísku sjónvarpi en að fylgjast með útsendingum frá nefndum bandaríska þingsins, yfirleitt, vegna þess að þar bíða þingmennirnir í röð eftir því að fá að láta ljós sitt skína, eru fyrst og fremst að hugsa um sjónvarpsmyndavélina og síður um rökræður við manninn sem kemur fyrir nefndina eða að fá fram sem bestar upplýsingar. Þetta er ákveðin hætta sem ég sé fyrir mér varðandi tillöguna um að opna nefndafundina, að menn falli þá í sömu gryfju og þeir gera stundum í þingsal.

Hins vegar vil ég taka fram varðandi umræður í þingsal að þær eru almennt, ég mundi segja að í 95% tilfella, alveg ágætar, ef við metum þær út frá því hvort þær séu æsingakenndar eða snúist bara um mælskulist og slíkt. Yfirleitt eru þetta tiltölulega hófstilltar og frekar leiðinlegar, þurrar umræður. Ég hef reyndar rætt þetta mál við nokkra eldri þingmenn sem hætt hafa störfum á þinginu, sumir hverjir fyrir margt löngu, sem segja flestir að ástandið sé miklu betra núna hvað þetta varðar en það var í þeirra tíð. Eitt dæmi um þetta er tilhneigingin sem nú er komin upp hjá öllum þingmönnum til að byrja alltaf ræðu sína á því að þakka kærlega fyrir. Svo kemur sá sem farið var í andsvar við og hann þakkar hinum fyrir að hafa þakkað sér. Menn eru komnir býsna langt í þessari kurteisi, væntanlega af ótta við það að vera taldir of leiðinlegir í ræðustól. Ég geri þetta sjálfur, ég byrjaði ræðu mína á því að þakka fyrir.

Ég held að við megum ekki gera of mikið úr ástandinu þó að umræðan í fjölmiðlum og bloggi sé á þá leið að hér sé allt ómögulegt og umræðan ömurleg og fyrir neðan allar hellur. Í langflestum tilvikum er það ekki svoleiðis. Enda velti ég því fyrir mér hvort breytingar á umræðuhefðum einar og sér — og nú er ekki talað um að breyta þeim einum og sér, en ef við tökum þær út fyrir — hvort það mundi hafa svo mikil áhrif.

Í Bretlandi mæta menn í þingið, hrópa og kalla og veifa blöðum og láta illa, hamast í því að setja á svið einhverja sýningu á meðan í Svíþjóð mæta menn á bolnum í þingið og halda langar og þurrar og hundleiðinlegar ræður sem enginn nennir að hlusta á. Spurningin er: Er sænska leiðin betur til þess fallin að stjórna samfélagi eða að láta þingmenn uppfylla skyldu sína? Breska leiðin kom ekki í veg fyrir það að bankakerfið þar í landi nánast hrundi til grunna, það þurfti að bjarga öllum stærstu bönkum landsins með ríkisaðstoð. Það sama átti við í Svíþjóð. Þar voru flestir bankar, ekki allir reyndar, í verulegri hættu staddir.

Nú er ég kominn að því sem er kannski megingagnrýni mín, ef gagnrýni er rétta orðið, að við spáum stundum meira í einkennin en sjúkdóminn. Ég ætla í framhaldinu að velta því fyrir mér hver hinn eiginlegi sjúkdómur er, hvert meginvandamálið er, þótt það sé að sjálfsögðu gagnlegt að skoða einkennin og ég telji að mjög vel sé fjallað um sjúkdóminn í skýrslunni.

Áður en ég fer út í það vildi ég þó ítreka það sem ég sagði áðan, að það er ekki allt ómögulegt á Íslandi. Nú hefur nefndin haft það erfiða hlutverk að sitja í um átta mánuði og fjalla nánast einungis um það sem aflögu hefur farið, það sem hefur verið slæmt í samfélagi okkar. Það er ekki öfundsvert hlutskipti, að sitja á endalausum fundum og tala um það sem er slæmt í samfélaginu og heyra sagt frá því. Eðli málsins samkvæmt snýst skýrslan fyrir vikið fyrst og fremst um gallana. En við verðum um leið að muna að það er margt býsna gott við íslenskt samfélag og hvernig það hefur starfað undanfarna öld.

Umræðan eftir hrunið minnir mig svolítið á umræðu sem verður alltaf eftir kosningar, t.d. í Bandaríkjunum svo ég fari aftur þangað. Þegar George Bush sigraði Al Gore í kosningum gerði hann það nánast með svindli. Ég held að það sé almennt viðurkennt að Al Gore fékk fleiri atkvæði eftir á að hyggja. Hann fékk að minnsta kosti fleiri atkvæði, svo mikið er víst, en hvort þau voru fleiri í Flórída eða ekki, það er umdeilt. Þetta var mikið og flókið mál sem tók langan tíma og menn eflaust muna eftir því. Svo þegar niðurstaðan kom, og það voru ef ég man rétt hæstaréttardómarar skipaðir af repúblikönum sem réðu þar úrslitum, fóru menn að túlka þetta sem mikinn ósigur Gore. Menn töluðu eins og öll kosningabarátta Al Gore hefði verið ómöguleg, gjörsamlega vonlaus og fundu að því öllu eins og óhjákvæmilegt hefði verið að Gore mundi tapa vegna þess hve kosningabarátta hans var hrikalega slæm.

Ef það hefði hins vegar legið þannig að meiri hluti dómara hefði verið skipaður af demókrötum og þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Al Gore hefði sigrað í kosningunum, þá hefði umræðan væntanlega verið öll á hinn veginn. Kosningabarátta George Bush hefði verið í alla staði vonlaus, hann hefði tapað vegna þess að hann hefði ekki gert þetta og hitt. Það sem ég er að kalla eftir með þessu er: Jú, það fór mjög mikið úrskeiðis og við leitum ástæðna þess en við skulum passa okkur að henda ekki barninu út með baðvatninu, þ.e. að henda ekki góðu hlutunum um leið og við reynum að laga þá slæmu.

Hvar er hætta á för í þeim efnum? Það er t.d. varðandi skriffinnsku. Það er dálítil hætta á því núna vegna þess hve hlutirnir voru lausir í reipunum og menn komust upp með allt of margt og það skorti vissulega formfestu, eins og nefndin gerir ítarlega grein fyrir, að menn geti notað það til að búa til gríðarlegt skrifræði. Það væri ekki gott heldur, reyndar bara stórhættulegt því að stjórnvöld hafa oft á tíðum, þegar alvarlegir atburðir gerast eða þegar hlutirnir fara illa úrskeiðis, notað tækifærið til að styrkja vald sitt með skrifræðinu. Við þekkjum væntanlega öll dæmi þess hvernig skrifræði hefur verið notað af embættismannakerfinu í hinum ýmsu löndum til að viðhalda spillingu, annarri gerð spillingar. Við þurfum að koma í veg fyrir að hér verði algjört embættismannaveldi. Þeir sem eru áhugamenn um breskt sjónvarpsefni hafa eflaust séð þættina Já, ráðherra sem ganga einmitt að miklu leyti út á þetta. Þeir þóttu lýsandi fyrir bresk stjórnmál á þeim tíma, og eru reyndar örugglega enn, sem og stjórnmál í öðrum löndum. Embættismannakerfið og stjórnmálamennirnir nota skrifræðið til að viðhalda ákveðnum hlutum, fela aðra og viðhalda í raun á margan hátt spilltum stjórnmálum.

Það að skrá alla hluti og halda upp á þá dugar því ekki eitt og sér, það þarf að minnsta kosti að fara varlega með þau völd. Það er ekki víst að það sé alltaf raunhæft. Ég set spurningarmerki við eitt atriði, þ.e. lýsinguna á því þegar Glitnis-ríkisvæðingin átti sér stað. Ég held að þar hafi ekki verið fyrir hendi aðstæður þar sem menn höfðu mikil tök á að halda fundargerðir. Það þýðir þó ekki að ákvarðanirnar hafi verið réttar á sínum tíma. Ég bendi á þetta til að menn passi sig á því að sveiflast ekki úr einum öfgum í aðra. Það er alltaf hætta á því við aðstæður eins og ríkja nú án þess að ég sé að saka nefndina um það, ég tek það skýrt fram, ég er alls ekki að saka nefndina um tilburði í þá veru. Ég er að ræða um hvernig menn vinna úr því sem nefndin gerði.

Þá komum við að hinum raunverulega vanda. Hvað varðar hrunið er gerð góð grein fyrir ýmsum þáttum sem komu þar við sögu. Greiningin á fjármálakerfinu veitir þar mikið innsæi, líka stjórnmálunum o.fl. en spurningin er: Hvers vegna voru hlutir með þessum hætti? Hvers vegna þróuðust þeir á þennan hátt? Af hverju er t.d. umræðuhefðin í þinginu eins og hún er? Af hverju haga stjórnmálamenn sér eins og þeir gera og af hverju haga bankamenn sér eins og þeir gerðu, eða eftirlitsstofnanir?

Mér finnst nokkurt verk óunnið enn þá í því að komast til botns í því hver rót vandans er. Nú ætla ég aftur að taka dæmið um umræðuhefðina. Eftir að hafa starfað bæði á fjölmiðlum og í stjórnmálum finnst mér vald fjölmiðlanna, fjórða valdið, oft og tíðum meira en vald löggjafans. Við tölum mikið um löggjafann eða framkvæmdarvaldið og hvernig það vald skiptist, tölum um að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu, en oft finnst mér löggjafarvaldið svo veikt að það setur sig í rauninni undir fjórða valdið. Með því á ég við það að í stað þess að fjölmiðlar spegli það sem gerist í stjórnmálum spegla stjórnmálin umræðuna í fjölmiðlunum og þingmenn og aðrir í stjórnmálum eru settir í þá stöðu að eltast við tíðarandann og fjölmiðlaumræðuna frekar en að leiða umræðuna.

Þá kemur upp áhugaverð spurning: Hvað er hægt að gera í því? Þar verðum við náttúrlega að treysta á m.a. fagleg vinnubrögð í fjölmiðlum annars vegar og hins vegar það að stjórnmálamenn þori að hafa sjálfstæðar skoðanir og sýna frumlega hugsun, koma fram með athugasemdir sem eru ekki bara til að tala upp í umræðuna heldur hugsanlega að leiða mönnum eitthvað nýtt fyrir sjónir.

Þetta er hins vegar mjög erfitt. Það er erfitt að ætlast til þess af stjórnmálamönnum ef fjölmiðlamenn sýna ekki ábyrgð í störfum sínum. Þar er vandinn býsna mikill vegna þess að það er alveg skiljanlegt að fjölmiðlar hafi ekki áhuga á því að segja langar og ítarlegar fréttir af umræðum í þinginu um einhver tiltölulega óumdeild mál eða mál sem hafa verið rædd í þaula út frá rökum og fela kannski í sér flókin tæknileg atriði. Það er miklu auðveldara og meira spennandi fyrir fjölmiðla að sýna örstutta ræðubúta, það sem á ensku er kallað „sound byte“, og þá er verið að setja stjórnmálamenn dálítið mikið í þá stöðu að þurfa að fóðra umræðuna með þeim hætti, vera ella settir til hliðar og gleymast. Ég biðla til fjölmiðla um að huga að rökræðunni líka til þess að rökræðan geti orðið góð á þinginu í sem flestum málum.

Við höfum aðeins rætt um fyrirhuguð lög um fjölmiðla, fjölmiðlafrumvarp, en þar er ekki tekið á því sem ætti í raun að vera aðalatriðið, til að mynda eignarhaldi á fjölmiðlunum. Við höfum rætt alveg heilmikið um tengsl fjármálalífsins við stjórnmálin en ekki sem skyldi finnst mér um hagsmunatengsl fjármála og fjölmiðla. Fjölmiðlar eru, eins og ég kom inn á áðan, í þeirri stöðu að geta nánast stýrt stjórnmálunum oft og tíðum, a.m.k. ráðið því hvert umræðan fer.

Svo magnast upp þetta vandamál þegar skortir á eftirfylgni, þegar menn komast upp með að veita það „sound byte“ eða þá setningu sem hentar í akkúrat það skiptið og svo skiptir engu máli einni eða tveimur vikum seinna hvað sagt var. Aðalatriðið er að menn segja á þeim tímapunkti það sem hljómar best við þær kringumstæður. Eftirfylgni fjölmiðla þyrfti að batna til mikilla muna.

Mér fannst t.d. ræða hæstv. fjármálaráðherra áðan með miklum ólíkindum, sá kafli úr henni þar sem hann talaði um hvað það hefði verið gott í gamla daga þegar stjórnarandstaðan fékk formennsku í nokkrum nefndum. Þessi ríkisstjórn tók ekki í mál að stjórnarandstaðan núna fengi formennsku í nefndum, ekki að ræða það. Ég taldi reyndar vilyrði fyrir slíku en komið var í veg fyrir það. Svo tók steininn úr þegar hæstv. fjármálaráðherra fór að tala um foringjaræðið sem hefði verið, hér hefðu verið foringjar sem hefðu kunnað að meta vald sitt.

Hafa menn einhvern tíma séð annað eins foringjaræði og núna? Ósvífnin er býsna mikil en það versta er að þetta er ekki sett í samhengi við liðna atburði. Sami ráðherra talaði fyrir nokkrum dögum um að landið væri að rísa, það væri bullandi uppsveifla. Daginn eftir birti Hagstofan tölur sem gengu í þveröfuga átt. Hér er mesta niðursveifla í a.m.k. áratugi.

Svo talaði hæstv. fjármálaráðherra líka um að það þyrfti meiri „konsensusstjórnmál“, það þyrfti meira samstarf flokka. Ég hef ekki orðið sérstaklega mikið var við vilja þessarar ríkisstjórnar til samvinnu við stjórnarandstöðuna þrátt fyrir ítrekuð tilboð stjórnarandstöðu þar um.

Svo var talað um flokksræðið og að það þyrfti að breytast. Muna menn virkilega ekki hvernig var með flokksræðið til að mynda hér í umræðum og atkvæðagreiðslu um Icesave? Samt leyfir ráðherrann sér að koma og tala algjörlega úr samhengi við gjörðirnar. Þar erum við kannski komin að rót vandans, menn komast upp með að segja eitt og gera svo eitthvað allt annað. Þetta mun ekki breytast nema fjölmiðlarnir, milliliðurinn milli stjórnmálanna og almennings, taki sig á og verði vettvangur fyrir raunverulega rökræðu en sé einnig með eftirfylgni.

Þessu til viðbótar: Hvernig gengur að koma af stað umræðu um raunveruleg pólitísk álitamál? Þetta tengist því sem ég var að ræða áðan um rökræðuna. Frá því að ég byrjaði að taka þátt í stjórnmálum höfum við framsóknarmenn ekki fengið aðstöðu til að ræða stjórnmál neitt sérstaklega mikið, pólitískar stefnur eða aðgerðir. Jú, í eitt skipti var rætt dálítið um tillögu framsóknarmanna um aðgerðir vegna skuldamála heimilanna, en það var eingöngu vegna þess að menn sáu ógn í þessu, sáu ástæðu til að ráðast sérstaklega á tillöguna. Þar fyrir utan hefur ósköp lítið verið rætt um pólitík.

Um hvað er rætt í tengslum við Framsóknarflokkinn? Á hverju byggir þessi ríkisstjórn tilverurétt sinn að eigin mati? Endalausri umræðu um atburði fyrir 10 árum, hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Svo er hún alltaf sett í nýtt og nýtt samhengi. Nú er hún sett í það samhengi að einkavæðing bankanna hafi valdið hruninu. Umræðan um einkavæðingu bankanna var byrjuð löngu fyrir hrun. Nú er hún sett í samhengi við það, að einkavæðing bankanna sé ástæðan fyrir hruninu.

Það stenst náttúrlega enga skoðun. Var Glitnir einkavæddur? Var Kaupþing einkavætt, sem reyndar gleypti annan litla ríkisbankann? Var Icebank einkavæddur, sparisjóðirnir eða Straumur – Burðarás? Nei, enginn af þessum bönkum var einkavæddur. Samt féllu þeir eins og hinir, og raunar féll Glitnir fyrstur. Raunverulegra skýringa er ekki að leita í einkavæðingunni, það er til þess fallið að drepa málum á dreif. Þar með er ekki sagt að einkavæðingin hafi verið eins og best verður á kosið, en að láta umræðuna alla nú, eftir að þessi svakalega skýrsla birtist og þær upplýsingar sem í henni eru, snúast um þessa margræddu 10 ára gömlu atburði er hluti af því sem ég kalla hinn eiginlega vanda.

Þetta er spuni stjórnmálanna.

Menn gleypa við þessu. Margir fréttamenn hafa helst talað um hvernig atkvæði féllu í nefndinni um það hvort rannsaka ætti einkavæðingu bankanna. Nýjar upplýsingar eru hins vegar að koma fram um mjög áhugaverða hluti, hluti sem við þurfum að laga, hluti sem eru gríðarlega mikilvægir. Þá er farið í að tala um 10 ára gamla frétt vegna þess að það hentar til að dreifa athygli frá vandræðum ríkisstjórnarinnar núna.

Hvað er þá við þessu að gera? Nefndarmenn Framsóknarflokksins útskýrðu mál sitt ágætlega, þeir vildu í raun ganga lengst. Þeir töldu allar upplýsingar um einkavæðingu bankanna liggja fyrir til að þeir gætu kveðið upp —

(Forseti (RR): Hv. þingmaður er beðinn um að losa sig við símann vegna þess að hann truflar útsendinguna.)

Ekki skoða SMS-in.

(Forseti (RR): Af hverju, hv. þingmaður?)

Hvar var ég? Það var einkavæðing bankanna. Þarna er annað dæmi um hversu góð ríkisstjórnin er í spunanum, akkúrat þegar ég var að koma að kjarna málsins stekkur hæstv. forseti þingsins upp og slær mig aðeins út af laginu.

Einkavæðing bankanna var ekki ástæða hrunsins. Það er ekki þar með sagt að ekki hefði mátt standa þar betur að verki. Það er alveg ótrúlegt að sitja stöðugt undir því að umræðan snúist eingöngu um einkavæðingu bankanna á meðan við þurfum að takast á um pólitísk grundvallaratriði, hvernig eigi að koma heimilunum út úr þeirri stöðu sem þau eru í og koma atvinnulífinu aftur af stað.

Framsóknarflokkurinn hefur aldrei verið ræddur út frá pólitískri stefnu sinni eða tillögum. Það er alltaf þessi 10 ára gamla frétt. Nú, enn og aftur, á að reyna að drepa málum á dreif þegar ríkisstjórnin er komin í vandræði með því að ræða um einkavæðingu bankanna. Það er ekki hægt að viðhalda þessu ástandi endalaust.

Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni gerðu ágætlega grein fyrir máli sínu eins og ég kom inn á, töldu allt liggja fyrir til þess að þeir gætu kveðið upp úrskurð rétt eins og kveðinn hefur verið upp úrskurður í fjölmörgum öðrum málum sem hafa verið rannsökuð. Þeir nefndu það hins vegar að ef aðrir teldu ekki nóg að gert væri sjálfsagt mál að ráðast í enn eina rannsóknina.

Til að losa stjórnmálin úr þessari endalausu umræðu um það sem gerðist fyrir 10 árum ætla ég að leggja fram breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem varðar þessa skýrslu þess efnis að ráðist verði í nýja rannsókn á einkavæðingu bankanna, reyndar líka seinni einkavæðingunni, það er ekki síður mikilvægt, hún hefur ekki verið rannsökuð enn. Þá vonandi, þegar fyrir liggur niðurstaða þeirrar rannsóknar, vita menn hvað hægt er að gera við þær niðurstöður — ég held að það þurfi að liggja fyrir frá upphafi — og menn geta í framhaldinu farið að ræða um pólitík og hvernig eigi að bæta ástandið í landinu.

Ég er að hugsa um að láta líka fylgja með breytingartillögu þess efnis að kannaðir verði styrkir frá sparisjóðunum til stjórnmálamanna, ég held að það hafi gleymst. Ég vona að samfylkingarþingmenn setji ekki út á þá tillögu frá mér. (TÞH: Og stofnfjárkaup.) Stofnfjárkaup? Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson mun væntanlega leggja fram breytingartillögu þar að lútandi.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við ljúkum einhvern tíma þessum endalausu rannsóknum, komumst að niðurstöðu og vitum hvað við ætlum að gera við þær. Það er ekki hægt núna, næstum tveimur árum eftir hrunið, að halda áfram að tala eingöngu um fortíðina og sitja uppi með ríkisstjórn sem byggir tilveru sína, og tilverurétt að eigin mati, eingöngu á því hver hún er ekki og hvað hún gerði ekki, að hún hafi ekki verið við völd á gefnum liðnum árum eða áratugum, en ekki því sem hún er og því sem hún ætlar að gera.

Sérstaklega er þetta undarlegur málflutningur hjá Samfylkingunni sem hefur aldrei átt farsælan dag í ríkisstjórn frá því að sá flokkur var stofnaður en leyfir sér samt að tala eingöngu um Framsóknarflokkinn — sem átti stóran þátt í að Ísland varð mesta framfararíki heims á 20. öld — út frá einum atburði, einkavæðingu bankanna. Samfylkingin hefur aldrei náð árangri í ríkisstjórn, hvorki í þenslu né í kreppu, flokkurinn sem talaði mest fyrir útrásinni vegna þess að hann taldi hana sigur stefnu sinnar og vísaði þar í EES-samninginn. Samfylkingin kom í veg fyrir að dregið yrði úr umsvifum útrásarfyrirtækjanna með sérstöku ákvæði í stjórnarsáttmála með Sjálfstæðisflokki, hinum margumrædda frjálshyggjuflokki. Samfylkingin óttaðist samt að frjálshyggjuflokkurinn mundi reyna að hefta útrásina umfram það sem Samfylkingin taldi æskilegt. Eins og komið hefur fram hjá fyrrverandi formanni þess flokks voru líka mjög náin tengsl milli Samfylkingarinnar og stærsta útrásarveldisins.

Af hverju er ég að þylja þetta hér upp? Vegna þess að við verðum að fara að ræða pólitík út frá atburðum dagsins. Samfylkingin verður að komast upp úr því að reyna að fela eigin fortíð með endalausum spuna, endalausu tali um atburði sem koma málinu varla við. Ef ekki verðum við að sjálfsögðu bara til mótvægis að rifja upp aðkomu Samfylkingarinnar. Eins og við sjáum í þessari viðamiklu skýrslu og reyndar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vantar ekkert upp á það að Samfylkingin komi þar við sögu. Ekkert nafn kom eins oft fyrir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og Samfylkingin, og ekki að ástæðulausu.

Nú hvet ég samfylkingarmenn og aðra til að horfa til framtíðar. Vonandi verður þessi skýrsla grunnurinn að nýrri og betri framtíð í stjórnmálum og á öðrum sviðum. Hún á að geta orðið það. Svo skulum við rannsaka einkavæðinguna einu sinni enn og vonandi geta þá Samfylkingin og Vinstri grænir farið að horfa til framtíðar. Hver veit nema við fáum þá ríkisstjórn sem fer að huga að vandamálum dagsins í dag, stöðu íslenskra heimila og uppbyggingu atvinnulífsins. Það veitir svo sannarlega ekki af því.