138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:45]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar um tök framkvæmdarvaldsins á þinginu og samskipti þess við framkvæmdarvaldið. Allar þær tillögur sem liggja fyrir eru til að breyta þessu og sömuleiðis ábendingar frá þingmannanefndinni til að styrkja þingið og auka sjálfstæði þess.

Varðandi breytingar sem gerðar voru á þingsköpum fyrir tveimur árum var það svo að það var gert í samvinnu allra flokka og enn er verið að skoða þau þingsköp sem nú eru í gildi, hvort þar séu einhverjir ágallar á. Og auðvitað er alltaf full ástæða til að endurskoða þingsköpin eftir því sem tíminn líður og ýmsum tillögum hefur verið beint til mín hvað það varðar. En það munum við skoða næst þegar þingsköpin verða endurskoðuð. Ég get ekki séð betur en mjög margar af þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpunum hafi verið til bóta þó að margt mætti jafnvel endurbæta frekar. Ég held að það verði að vera mitt svar.