138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem ég held að hafi í meginatriðum verið málefnaleg eins og vænta mátti. Ég deili með honum þeim sjónarmiðum sem hann hafði uppi varðandi stöðu Alþingis og spurninguna um þingræðið. Mér hefur oft og tíðum fundist umræðan vera á miklum villigötum og að fólk ímyndi sér að við komum okkur upp einhvers konar fyrirkomulagi þar sem við hverfum frá þingræðishugsuninni og því að hafa til staðar meirihlutaríkisstjórn sem leggi fram mál á sína pólitísku ábyrgð. Mér finnst reynslan af hæstv. núverandi ríkisstjórn, sem er de facto minnihlutaríkisstjórn eins og stundum hefur verið bent á, ekki góð. Vissulega eigum við að efla eftirlitshlutverk Alþingis og þegar við skoðum það erum við ekki síst að tala um hlutverk og stöðu stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma. Vitaskuld á það að vera svo að ríkisstjórn beri hina pólitísku ábyrgð á þeim málum sem hún leggur fram og hlutverk okkar alþingismanna er þá auðvitað að ræða þau mál efnislega, koma með ábendingar um það sem betur má gera og að leggja fram okkar pólitísku valkosti gagnvart þeim sjónarmiðum sem ríkisstjórn leggur fram hverju sinni.

Annað atriði sem ég vildi nefna í þessu sambandi er sú umræða sem hefur verið talsverð um endurvakningu einhvers konar nýrrar þjóðhagsstofnunar. Ég hef út af fyrir sig ekkert við það að athuga að menn reyni að koma upp slíkri stofnun. En menn skulu ekki ímynda sér að það hefði leyst öll heimsins vandamál ef við hefðum haft þær upplýsingar á reiðum höndum með slíkri stofnun og orðið til þess að afstýra hruninu eins og hefur stundum mátt glitta í í ræðum sumra hv. þingmanna. Gleymum því ekki að umræða um efnahagsmál hefur sennilega aldrei verið jafnmikil og farið (Forseti hringir.) jafnvíða fram og undanfarin ár. Að því ætla ég að koma í síðara andsvari.