138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:38]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ræðu hans og margt er í henni sem ég get verið algjörlega sammála. Ég er til að mynda algjörlega sammála hv. þingmanni um að svokölluð hraðferð þingmála, sem við sjáum allt of mikið af, eigi að vera algjört neyðarúrræði og studd góðum rökum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann varðandi það sem hann sagði framarlega í ræðu sinni um framlagningu stjórnarfrumvarpa eins og fjárlagafrumvarps, hvort hann telji að við framlagningu stjórnarfrumvarpa gæti komið til greina að frumvörp frá framkvæmdarvaldinu færu fyrst fyrir viðkomandi þingnefnd sem þyrfti að samþykkja framlagningu þeirra á Alþingi með formlegum hætti áður en frumvarpið verði lagt fram. Telur hv. þingmaður að það mundi styrkja stöðu þingsins sem löggjafa?

Mig langar einnig að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvernig hann sæi það fyrir sér að hægt væri að fyrirbyggja málþóf en jafnframt ná fram því markmiði, sem ég tel að sé mjög mikilvægt og hv. þingmaður kom inn á, að umræður á Alþingi geti verið ítarlegar, greinargóðar og skynsamlegar.