138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get heils hugar tekið undir það sem hv. þingmaður Ólafur Þór Gunnarsson segir. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta umhverfi verði sett í einhvern gegnsærri og eðlilegri farveg. Hv. þingmaður kom inn á að kannski eru gerðar breytingar á miðju ári. Það gerðist akkúrat í fyrra þegar ríkið hækkaði tryggingagjaldið og sogaði til sín á sex mánaða tímabili 700 milljónir frá sveitarfélögunum. Það skýrir að sjálfsögðu, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, að þá er ekki hægt að gera áætlanir sem halda.

Það sem ég hafði reyndar ekki tíma til að ræða nógu mikið áðan var að fela samgöngunefnd hugsanlega að búa til samstarfsvettvang. Verið er að gera hagstjórnarsamning sem mér er sagt að gangi ágætlega. Að mörgu leyti hafi samskipti ríkis og sveitarfélaga kannski ekki versnað, jafnvel skánað. Ég kom aðeins inn á það áðan að í Danmörku er ríkisstjórnin nú að vinna með sveitarfélögunum og hjálpa þeim að komast í gegnum kreppuna. Það er mikilvægt og ég teldi að við þyrftum að gera það hér. Ég nefni eitt dæmi. Hugmyndir sveitarfélaganna um að minnka hugsanlega kennsluskyldu, minnka kennsluna eða fækka skóladögum tímabundið, voru slegnar út af borðinu af hæstv. menntamálaráðherra. Síðan gerir ríkið sjálft akkúrat öfugt. Það frestar gildistöku laga um framhaldsskóla.

Þannig að við þurfum í þessu ástandi að bæta samskiptin enda kemur það einnig fram í skýrslu þingmannanefndar að gríðarlegt samspil er á milli ríkis og sveitarfélaga varðandi það sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Hvað varðar fyrri spurninguna, svo ég gleymi nú ekki að svara því, því ég gleymi mér nú yfirleitt þegar ég fer að tala um sveitarfélögin, að fá svör frá framkvæmdarvaldinu sem eru trúnaðarmál. Þessu verð ég að svara þannig að auðvitað fer það eftir þeim sem fá málin sem trúnaðarmál, hvort þeir halda trúnaðinn. Því miður er það nú oft þannig að þó að jafnvel hv. þingmenn fái trúnaðarmál, er ekki sjálfgefið að þau leki ekki út. Þetta er vandmeðfarið, ég tek undir það með hv. þingmanni. Oft á tíðum er kannski ekki hægt að veita upplýsingar (Forseti hringir.) sem eru bundnar trúnaði.