138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mótmæli því harðlega að hér hafi verið framkvæmd einhver öfgastefna í stjórnmálum eða efnahagsmálum. Því fer víðs fjarri. Það sem var gert á Íslandi var nákvæmlega það sama eða sambærilegt við það sem átti sér stað t.d. erlendis. Við skulum taka dæmi. Er það t.d. þannig að á bankar á Vesturlöndum séu almennt í eigu ríkisins? Svo er ekki. Það sem hér er vísað til er að á Íslandi voru seldir bankar. Við vitum hins vegar hvernig fór um þá sjóferð varðandi rekstur þeirra. Það hefur ekki með þá hugmyndafræðilegu spurningu að gera hvort bankar eiga að vera í eigu ríkisins eða í eigu einstaklinga eða félaga í þeirra eigu.

Ég vakti athygli á því og sýndi fram á það að í umræðunni sem fór fram um kjarna máls, þ.e. hvernig við ættum að haga eftirlitinu, hafi hugmyndafræðilegur ágreiningur ekki verið til staðar. Upp á þetta ívitnaða nefndarálit sem ég nefndi áðan skrifuðu m.a. hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra og hæstv. forsætisráðherra sem sátu þá í þeirri þingnefnd. Þeir sögðu: Fjármálamarkaðurinn hefur stækkað, það er gott. Við þurfum að hafa um þetta skýrar reglur. Um þetta voru allir sammála. Þegar kom síðan að því að taka ákvörðun um umfang eftirlitsins og taka ákvörðun um hversu mikla fjármuni ætti að veita til þess, voru menn sömuleiðis algjörlega sammála.

Ég er að segja þetta: Það þýðir ekkert að koma eftir á og reyna að skrifa söguna upp á nýtt. Á þessum tíma var um það almenn samstaða að fagna vexti fjármálakerfisins. Við gerðum okkur ekki grein fyrir hversu feisknar stoðirnar voru innan einstakra fyrirtækja, hvernig menn höfðu misnotað vald sitt m.a. með krosseignatengslum, með lánum bankanna til eigenda o.s.frv. Við höfðum gert ráð fyrir því að með því að leggja þetta mikla fjármuni (Forseti hringir.) til eftirlitsins, þá yrði fyrir því séð. Nú hefur það komið á daginn að svo var ekki. Um þetta var ekki ágreiningur á sínum tíma.