138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:31]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum áfram skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í dag. Það er mér, eins og öðrum þingmönnum, umhugsunarefni að það skyldi þurfa að koma til allrar þessarar vinnu. Ég verð að segja, eftir þá miklu gagnrýni sem bæði þingmenn sjálfir og það sem komið hefur fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu þingmannanefndarinnar á störf og sjálfstæði Alþingis, að ég tel að Alþingi hafi gert rétt. Með því að standa að skipun rannsóknarnefndarinnar og láta alla þá vinnu ganga fyrir sig og gefa þeirri nefnd það umboð sem hún fékk og frið til að að kortleggja fyrir þing og þjóð á mjög skömmum tíma hvað hafi orðið til þess að við lentum í því mikla efnahagshruni, tel ég að Alþingi hafi sýnt frumkvæði og mikið hugrekki.

Ég tel að ekki hefðu allar þjóðir getað brugðist við með sama hætti og við gerðum. Við höfum, þrátt fyrir þá völtu sjálfsmynd sem við sem þjóð fengum og þá mynd sem aðrar þjóðir hafa fengið af okkur sem þjóð eftir þetta mikla hrun, sýnt þar sjálfstæði og hugrekki sem margar þjóðir líta til.

En hvað átti svo að gera við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar? Það var okkar hlutverk á Alþingi og gat ekki verið neinna annarra að vinna úr þeim niðurstöðum. Nú hefur þingmannanefndin skilað af sér og ég vil eins og aðrir þakka henni sérstaklega fyrir vel unnin störf og fyrir að hafa getað skilað þessu verki á undraskömmum tíma.

Verk rannsóknarnefndarinnar var mikið og hún skilaði af sér í níu bindum. Þau bindi voru viðamikil og ítarleg og er ekki fyrir alla að fara í gegnum þá lesningu. En smám saman hefur innihald þeirra verið að síast til okkar, kannski vegna umfangs skýrslnanna og hugsanlega vegna þess að sérstök þingmannanefnd vann með þær skýrslur. Ef til vill þess vegna hefur ekki verið mikil umræða um niðurstöður rannsóknarnefndarinnar þann tíma sem liðinn er frá því að hún skilaði af sér. En þingmannanefndin gerði það sem ég hélt varla að væri mögulegt, hún dró hvert bindi saman í stutta greinargerð og innihald skýrslnanna saman í stuttan og kjarnyrtan texta þannig að það er mjög einfalt og gott að setja sig inn í efni hvers hluta skýrslunnar. Síðan dregur þingmannanefndin fram tillögur rannsóknarnefndarinnar um hvernig rannsóknarnefndin telji að bregðast eigi við. Svo lýsir þingmannanefndin því hvað hún leggur til að gert verði. Það er sett fram á kjarnyrtu og góðu máli, aðgengilegu fyrir okkur sem þing. Við vitum að það eru mjög mörg verkefni sem bíða við að bæta úr löggjöf okkar, að treysta þá umgjörð sem er utan um fjármálastarfsemi sem verður til að bæta starf í stjórnsýslunni og gera það gagnsærra, skilvirkara og formfastara en það er í dag. Jafnframt eru margar ábendingar fyrir Alþingi sjálft.

Ég vil líka segja Alþingi það til hróss að það hefur ekki bara beðið eftir niðurstöðu þingmannanefndarinnar heldur var farin í gang viðamikil vinna áður en rannsóknarnefndin skilaði af sér, um að fara yfir skyldur og eftirlitshlutverk Alþingis. Sú vinna var komin vel af stað þegar rannsóknarnefndin var skipuð. Hún skilaði svo af sér skýrslu og tillögum um bætta starfsemi Alþingis áður en þingmannanefndin skilaði sinni skýrslu.

Alþingi hefur líka verið að vinna að tillögum um bætta stjórn í þinginu og stöðu þingsins. Í sumar var dreift á Alþingi þingsályktunartillögu um breytingu á þingsköpum Alþingis, sem ég tel að við munum fá nýja tillögu til að vinna með sem lögð verður fram í byrjun haustþingsins, í byrjun október. Alþingi vatt sér strax í þá vinnu að bæta stjórnsýslu í landinu og styrkja stöðu Alþingis.

Ég vil taka undir það sem sagt var í nokkrum ræðum í gær, að Alþingi á hverjum tíma er hvorki sterkara né veikara en þeir sem sitja á þingi á hverjum tíma. Það fer eftir okkur sjálfum hversu sterkt Alþingi er, hversu mikið við virðum stöðu Alþingis, hvernig við lítum á okkur sem löggjafarþing gagnvart stjórnsýslunni, hvort við berum virðingu fyrir okkur sjálfum og fyrir Alþingi. Það getur enginn gert það nema við sjálf þannig að við skulum vara okkur á því að tala Alþingi niður. Þá tölum við okkur sjálf niður, við tölum stofnunina niður. Við eigum að vera vönd að virðingu okkar þegar kemur að störfum Alþingis og vera þá menn til að styrkja Alþingi og bæta þar með álit almennings á Alþingi því að það hefur hrapað og það er engum að kenna nema okkur sjálfum.

Í þessari skýrslu er farið yfir marga þætti og ég vil nefna að eitt af mörgu sem varð að líta til þegar þingmannanefndin var skipuð var að vanda þyrfti til skipunar hennar. Hún var skipuð þingmönnum og varð að vanda til við val þeirra. Eins urðu menn að reyna að komast upp úr pólitískum hjólförum og losa sig við pólitískar klyfjar þannig að nefndin gæti tekið starf sitt alvarlega og vegið og metið þá þætti sem rannsóknarnefndin skilaði af sér út frá faglegum forsendum. Það var gert með því að fara ekki eftir styrkleika þingflokkanna á þingi heldur að velja í nefndina tvo fulltrúa úr hverjum flokki fyrir utan Hreyfinguna sem fékk einn fulltrúa, það voru sem sé níu fulltrúar í nefndinni. Það var gert til að draga úr pólitískri sýn á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar. Það held ég að hafi tekist með ágætum því að hvað skýrslu þingmannanefndarinnar varðar skrifa allir nefndarmenn upp á hana að undanteknum nokkrum bókunum sem gerð hefur verið grein fyrir og ég ætla ekki að fara sérstaklega í. Um vinnuna og tillögurnar sem hér hafa verið lagðar fram hefur ríkt samstaða.

Ég tel líka að það hafi verið mjög gott fyrir okkur, sérstaklega inn í framtíðina, að fá greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis út frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Mörgum þótti skrýtið að farið skyldi vera út í þá vinnu en ég tel að við lestur kynjagreiningarinnar og frá kynjafræðilegu sjónarhorni fáum við aðvörun inn í framtíðina um að taka það alvarlega sem við ætlum okkur, að gæta kynjajafnréttis á öllum sviðum. Við tölum um jafnréttismál, við tölum um jafnrétti í svo víðu samhengi en kynjajafnréttið má ekki gleymast. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að konur og karlar hafa ólíka sýn á lífið og tilveruna, inn í pólitíkina. Það sýnir sig í skoðanakönnunum og það kemur líka fram í eðli kynjanna. Það sýnir sig að konur eru upp til hópa varkárari og velja aðrar leiðir en karlar. Konur eru ekki eins áhættusæknar og karlar. Strax á vikunum eftir hrunið blasti það við okkur að þeir sem voru leikendur og stjórnendur og báru höfuðábyrgðina í því mikla efnahagshruni sem hér varð voru strákarnir. Það var hópur karla á besta aldri. Það sýnir okkur að það er varasamt á þessu sviði sem og mörgum öðrum að gæta þess ekki að hafa kynjasjónarmiðin í heiðri. Því tel ég að þessi skýrsla muni verða okkur aðvörun og við þurfum að muna í framtíðinni að gæta að kynjasjónarmiðum.

Það sem ég vildi aðeins koma inn á, hæstv. forseti, er að mér hefur fundist í þessari umræðu að pólitíkinni sem slíkri hafi veri ýtt til hliðar. Hvers vegna erum við í mismunandi pólitískum flokkum? Af hverju aðhyllumst við eina stefnu frekar en aðra? Hvers vegna veljum við félagshyggju eða aðhyllumst hugmyndafræði frjálshyggju, markaðshyggju eða einstaklingshyggju? Við höfum ólíka sýn. Flokkarnir endurspegla þessa pólitíska sýn kannski ekki eins mikið og víða annars staðar þar sem eru jafnvel tveir flokkar, þ.e. hægri og vinstri. Þetta flýtur svolítið út hjá okkur en við höfum ólíka pólitíska sýn og það hlýtur að koma fram í ríkisstjórn á hverjum tíma eftir því hvaða flokkar eru við völd, hvaða ákvarðanir eru teknar. Mér hefur aðeins þótt skorta á að við tækjum þá umræðu núna að horfa til framtíðar til að læra líka af mistökunum sem urðu í pólitíkinni sjálfri, í stefnunni. Það er rétt að láta þess getið að höfuðábyrgð á falli bankanna báru auðvitað stjórnendur bankanna, glæfraverk þeirra, áhættufíkn og krosseignatengsl og allt það sem við þekkjum í dag varð til þess að hrun varð og er búið að fletta ofan af því sem hefur verið nefnt ýmsum nöfnum öðrum en skipulögð glæpastarfsemi. Það er það eina sem vantar að nefna.

Það voru líka einstaklingar í pólitíkinni sem bera ákveðna ábyrgð. En ef við tökum pólitíkina og segjum: Hvað var það sem leiddi til þess að bankarnir voru seldir? Það var pólitísk ákvörðun, það var sú stefna flokka að það ætti að selja bankana. Hvernig það fór vitum við en það kom ekki bara af himnum ofan að nú væri gott að selja bankana og að við skyldum gera það. Það var fyrir fram ákveðin pólitísk stefna að bankarnir skyldu seldir.

Hvers vegna var Þjóðhagsstofnun lögð niður? Það var líka pólitísk ákvörðun. Það var vegna þess að Þjóðhagsstofnun var með aðrar spár og aðra greiningu en kom þáverandi valdhöfum vel svo hún var bara lögð niður. Það er pólitísk ákvörðun að vera ekki með þjóðhagsstofnun sem þvælist fyrir. Hvers vegna var Fjármálaeftirlitið og annað eftirlit veikt? Vegna þess að það átti að vera veikt. Það var pólitísk ákvörðun að hafa veikt. Eftirlitið átti ekki að þvælast fyrir og það er margbókað. Það var meðvituð ákvörðun og pólitísk trú að markaðurinn gæti eins og var sagt „regúlerað“ sig sjálfur, að markaðurinn sæi um sig sjálfur. Það þyrfti ekki að vera með puttana ofan í honum. Þess vegna var Fjármálaeftirlitið ekki styrkt, vegna þess að það var trú þeirra sem þá réðu að markaðsöflin skyldu ráða. Það er pólitík.

Það var líka pólitík að hafa ofurtrú á bankastarfseminni og að eftirlitið væri í lagi, að þetta væri allt í lagi hjá okkur þrátt fyrir að mörg aðvörunarljós hefðu blikkað og varað við því að bankakerfið væri orðið of stórt, það hefði þanist allt of mikið út, það væru ýmis hættumerki á ferð, við mundum ekki ráða við það ef bankarnir féllu o.s.frv. En þrátt fyrir það — það má nefna það pólitík, það má líka bara kalla það hroka eða blindni — beittu ráðamenn á þeim tíma sér ekki fyrir því að höfuðstöðvar einhverra hinna stóru banka yrðu fluttar úr landi. Þeir skyldu vera íslenskir bankar. Þeir beittu sér heldur ekki fyrir því að eftir að öll ljós fóru að loga að gengið yrði eftir því að Icesave-reikningarnar færu úr útibúi yfir í dótturfélag í Bretlandi. Þeir beittu sér heldur ekki fyrir því að koma í veg fyrir að Icesave-reikningar yrðu opnaðir í Hollandi. Ofurtrú eða blindni, það er ekki bara mat á stöðunni, það er líka spurning um pólitík.

Annað sem ég vil nefna, sem var líka pólitík á þessum tíma og hafði mikil áhrif á að bankarnir gátu vaxið svona mikið, var að taka þá ákvörðun að hleypa Kárahnjúkavirkjun í gegn á svo skömmum tíma, að vanda ekki til undirbúnings, gefa málinu ekki það þróunarferli sem það hefði þurft fyrst þessi ákvörðun var tekin. Vegna þess flýtis sem var á allri þeirri framkvæmd fór allt úr böndunum. Það þurfti aðgang að lánsfé og fólk fékk aðgang að því, þenslan var mikil, byggingarnar spruttu upp. Ég vil líka segja að pólitík og pólitísk sýn á markaðshyggjuna urðu okkur líka að falli. Trú á markaðinn og nýfrjálshyggjan sem hér reið yfir varð okkur líka að falli.

Hæstv. forseti. Tími minn er liðinn. Ég vil enn og aftur þakka þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf og fyrir að vinna þau verk sem henni voru falin. Í þeim verkum fólst líka að meta þá skyldu að fara yfir störf ráðherra á þessum tíma og það hefur hún gert.