138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[10:51]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari skýrslu og þakka fyrir hana eins og öll gögn sem komið hafa fram og eiga eftir að koma fram og hafa það markmið að greina þá atburði sem hafa orðið hér á landi að undanförnu og valdið miklum búsifjum. Þessa skýrslugerð er nauðsynlegt að hafa innan seilingar þegar skynsamleg umræða á að hefjast um hvernig við getum best lært af þeim mistökum sem við óumdeilanlega höfum gert fjöldamörg, hvernig við getum fækkað þeim og hvernig við getum dregið lærdóm af mistökunum þannig að okkur farnist betur um einhverja ótiltekna framtíð, helst sem allra lengsta.

Það sem við köllum hrun og höfum meira að segja dagsett er meðal þeirra hamfara sem hafa lengst gert boð á undan sér. Fyrir hartnær tveimur áratugum þóttust glöggir menn merkja að vindáttir væru að breytast og að hegðunarmynstur væri að breytast í samræmi við það úr hvaða átt vindurinn blési oftast og tíðast. Allt óx það síðan smám saman upp í nokkurs konar hópefli heillar þjóðar sem gjörbreytti um lífshætti, gjörbreytti um afstöðu til lífsins, gerbreytti um skoðanir á því hvað eftirsóknarverðast væri í lífinu og um skoðanir á því hvaða gildi væru ofar öðrum gildum. Þessi breyting gekk undarlega fljótt yfir íslenskt þjóðfélag. Nú er ég ekki að segja að allir hafi verið sömu skoðunar og allir trúað jafnblint á þessi gildi. En það voru gildin sem söfnuðust saman og mynduðu þungamiðjuna, mynduðu þá stefnu sem siglt var eftir frá því um lok síðustu aldar og eins lengi og gaf fram á upphaf 21. aldar.

Allri þessari ferð, víkingaútrás eða hvað við eigum að kalla hana, er lokið og öll hefur hún haft í för með sér hinar hörmulegustu afleiðingar fyrir land og þjóð. Sú skýrsla sem við fjöllum um er væntanlega lögð fram sem námsgagn handa þeim sem hér starfa, fyrst og fremst til að þeir megi upphugsa aðferðir til að láta ekki það sama ganga aftur yfir sig og afkomendur sína.

Ég hef heyrt úr ræðustóli fólk úr öllum flokkum minnast á einstaka efnisþætti þessarar skýrslu. Ég hef heyrt fólk segja: Það var fjármálastjórnin sem brást, það var pólitíkin sem brást, það voru stjórnmálamennirnir sem brugðust, það var faglegt eftirlit þar til gerðra stofnana sem brást. Endurskoðendur voru meira að segja ekki starfi sínu vaxnir. Þar fyrir handan er að finna í skýrslunni sérstakan kafla — og þá er ég að tala um skýrslu rannsóknarnefndar þingsins — um siðferði og miklar vangaveltur þegar rannsókn hófst um hversu lítið siðferði hefði verið hægt að finna hjá því allsnægtarfólki sem stóð að hruninu. Að ytri gæðum, fjármunum, fasteignum og jafnvel menntun stóð það vel en var sárfátækt að siðferði. Í sambandi við siðferði voru dregin upp efni sem geta valdið hörgulsjúkdómum og beinkröm. Dregin voru upp efni eins og æskudýrkun, dýrkun á reynsluleysi og fyrirlitning á reynslu og fyrirlitning á því hvernig hlutir höfðu þróast.

Nú stöndum við á þessum degi hafandi fengið vandaðar skýrslur, fyrst frá rannsóknarnefnd Alþingis og síðan aðra vandaða skýrslu frá þingmannanefnd til að rannsaka skýrslu rannsóknarnefndar, og fyrir það ber að þakka. Nú er að hefjast rannsókn á þeirri miklu vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi. Nefndirnar hafa lokið eða eru við það að ljúka störfum sínum en skýrslurnar munu nýtast ótal öðrum rannsakendum á öðrum tímum við önnur tækifæri sem vilja átta sig á því af hverju eitthvað gerðist og hvernig það gat farið svona. Þetta eru því verðmæt gögn sem við höfum hér með höndum. Ég geri ekki ráð fyrir því að á örfáum dögum komum við öll til með að öðlast sameiginlegan og skýran skilning á innihaldi og boðskap þessara skýrslna. Eðli málsins samkvæmt mótast sameiginlegur skilningur með tímanum og það er í raun og veru aðeins þjóðin sjálf sem öðlast þann skilning að lokum.

Skýrslunni fylgja fylgiskjöl sem eru mörg hver býsna athyglisverð. Ég get ekki látið hjá líða að vitna lítillega í fylgiskjal III en í því eru erindi sem borist hafa þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frá janúar 2010 til september 2010 og fletti ég upp á bls. 228. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa nokkur orð úr skýrslunni:

„Hér verður leitast við að skoða hvernig þessar hugmyndir hafa kynbundin formerki í anda umræðunnar hér að framan. Eftirfarandi klippimynd (e. collage) eru orð og hugtök valin úr erindi forsetans hjá Sagnfræðingafélaginu í janúar 2006 og er henni ætlað að gefa innsýn í andblæ þessarar orðræðu:“ — Og hefst nú lesturinn: Útrásarandi, sækja frægð og frama um langan veg, þjóðarvitund, siðmenning, í fremstu röð, nýsköpun, frumkvæði, hæfni og hugvit, snerpa og knáleikur hins smáa, íslenskir athafnamenn bera sigurorð af öðrum, vinnusemi, árangur, áhætta, þora þegar aðrir hika, laus við skrifræðisbákn, íslenskur athafnastíll, skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum, stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð líkt og skipstjóri í brúnni, fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, persóna hans eða hennar verður ráðandi afl, ábyrgð og forusta, landnámið, tími víkinganna, athafnamenn, arftakar hefðar með rætur í upphafi Íslandsbyggðar, tengsl við forna tíma, skáldgáfa, sköpunargleði.

Þetta er úr ræðu forseta Íslands og gefur aðeins til kynna þau gildi og það málfar sem tíðkaðist meðal þeirra útrásarvíkinga sem hæstv. forseti umgekkst á þeim tíma. Ég er flughræddur og var lítið innan um útrásarvíkinga fyrir utan að ég skrifaði um þá tvær bækur á jörðu niðri. Mér ógnaði það mest í sambandi við málfar útrásarfólks Íslands að það gerði tvær kröfur. Það vildi taka upp enska tungu á þessu litla landi okkar og sem allra fyrst. Það snerist um að of tímafrekt væri að græða á íslensku, þ.e. ef maður talaði íslensku tæki lengri tíma að græða peninga. Þessu til áréttunar lagði allt þetta lið niður megnið af sinni íslenskukunnáttu og ég fullyrði að enginn í þessum hópi var þess umkominn að blóta á íslensku. Útrásin hefur þurrkað burt þá göfugu íþrótt að kunna að blóta krassandi á íslensku en eins og einhverjir vita blótar maður nú til dags á útrásaríslensku með því að segja ýmist „fokk“ eða „sjitt“ eða hvort tveggja. Þetta er sú siðfræðilega og menningarlega arfleifð sem útrásarvíkingarnir skilja eftir handa okkur hinum. Þeir skilja eftir gjaldþrota lánastofnanir. Þeir skilja eftir óstarfhæf fyrirtæki. Þeir skilja eftir skuldabendu sem teygir sig til annarra landa. Þessir menn sem vildu taka upp ensku í stað móðurmáls síns eru nú með dýra lögfræðinga til að útskýra fyrir dómstólum í Bandaríkjunum að þeir séu eftir allt alls ekki enskumælandi og vilji bara tala íslensku fyrir dómstólum þarna úti.

Þetta ástand hér á landi hefur verið kallað hrun. Sem betur fer er það aðeins hrun af mannavöldum. Þetta eru ekki alvarlegar náttúruhamfarir. Hér standa eftir byggingar, hér stendur fólk óslasað. Eftir hrun höfum við heitt og kalt vatn, við höfum rafmagn og þak yfir höfuðið. Vinnutæki okkar eru óskemmd, samgöngukerfi okkar er óskemmt. Það er enn þá hægt að búa á landinu þótt miklu hafi verið stolið.

Einhverjir hljóta að bera ábyrgð á því hvernig komið er. Bent er á ýmislegt í þessari skýrslu sem má betur fara. Skylda okkar er að grannskoða þær tillögur svo að við þurfum ekki aftur næstu mannsaldrana að ganga í gegnum svona hópefli, hópgeðveiki. Heilu þjóðfélagi var snúið á hvolf. Það þarf að huga að fjármálastjórn í landinu. Stjórnmálamenn mega svo sannarlega hugsa sinn gang, bæði þeir sem á þingi sitja og svo ef skipt verður út, ef ráðherrar hætta að sitja á þingi þá þarf framkvæmdarvaldið ekki síður að taka til í sínum ranni. Eftirlitsstofnanir verða að rísa undir því nafni og endurskoðendum á ekki að fela ævistarf við ákveðnar stofnanir. Setja á lög um að endurskoðendur geti að hámarki uppáskrifað reikninga ákveðins fyrirtækis um ákveðinn tíma.

Við höfum lært að æskudýrkun, dýrkun á reynsluleysi og fyrirlitning á því hvernig hlutir hafa verið gerðir fram til þessa hafa ekki leitt neitt gott yfir okkur. Við skulum samt ekki bregðast við þessu með því að setja upp eitthvert öldungasamfélag sem öllu ræður heldur aðeins að tryggja að ungt fólk komist til áhrifa (Forseti hringir.) þegar það hefur sýnt með verkum sínum að það hefur náð nauðsynlegum þroska og þar með mun allt okkar samfélag þroskast.