138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hún kom líka inn á það sem stendur mér þó nokkuð nærri, þ.e. þegar hún ræddi um stöðu sveitarfélaganna í landinu. Hún nefndi þau líka í sambandi við tilskipanir.

Ég flutti ræðu í gær og kom inn á að ég teldi mjög mikilvægt að t.d. samgöngunefnd yrði falið að starfa náið með sveitarfélögunum. Á þeim fundi sem hv. þingmaður vitnaði í í ræðu sinni komu fram upplýsingar um að dönsk stjórnvöld væru núna að vinna með sveitarfélögunum í Danmörku til að létta af þeim kvöðum og minnka starfsemi þeirra við þessar aðstæður, þ.e. að taka yfir einhver verkefni sveitarfélaganna sem eru lögbundin af hálfu ríkisvaldsins. Þetta samstarf er mjög mikilvægt til að minnka kostnað sveitarfélaganna og tryggja að þau geti nýtt sér það til að sinna mikilvægum grunnþjónustuverkefnum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún geti tekið undir hugmyndir mínar um að núna sé vilji hjá stjórnvöldum til að hjálpa sveitarfélögunum á þennan hátt í gegnum erfiðleikana sem fram undan eru.

Ég vil líka minna á það sem kom fram á fundinum í gær og viðkemur næsta ári. Fjárhagsleg staða sveitarfélaganna í landinu mun versna a.m.k. um rúma 6 milljarða. Það er bæði í formi ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið um að færa tekjur frá sveitarfélögum til ríkisins annars vegar og hins vegar í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa ekki komið neitt nálægt og eru vegna efnahagsástandsins eins og lækkun fasteignaskatta o.fl. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki væri skynsamlegra að stjórnvöld horfðust í augu við vandann, en í skýrslunni kemur fram að við horfumst aldrei í augu við vandann fyrr en eftir á — til að tryggja að sveitarfélögin geti sinnt mikilvægri grunnþjónustu eins og þeim ber að gera.