138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður hyggist leggja fram breytingartillögu og ég vonast til þess að fá að kíkja aðeins yfir hana og sjá með hvaða hætti hún mótast, ég tel að það verði mjög áhugavert að taka þá umræðu og sjá hvernig þingið bregst við.

Mig langar líka að hrósa hv. þingmanni fyrir að líta til framtíðar vegna þess að við höfum verið mjög upptekin af fortíðinni, kannski eðlilega, vegna þess að við ætlum að læra af mistökum okkar og það er mjög brýnt að við gerum það. Því verðum við að horfast í augu við okkur sjálf og fortíðina og ná að átta okkur á því hvað það er sem við þurfum að gera til að þetta gerist ekki allt saman aftur einhvern tíma seinna og að komandi kynslóðir geti vonandi lært eitthvað af þessari reynslu okkar.

En það er ekki okkar mikilvægasta hlutverk að horfa aftur á bak. Við í þinginu þurfum að fara að horfa fram á við. Ég lít svo á að nú þegar þingmannanefndin hefur skilað þessari skýrslu, þegar þingið hefur tekið hana til afgreiðslu, eigum við að setja alla okkar krafta í það að horfa fram á við, móta framtíðarsýn til að sannfæra Íslendinga alla um að við í þinginu erum meðvituð um það að þrátt fyrir að ýmislegt hafi farið úrskeiðis í fortíðinni er meginhlutverk okkar að byggja upp samfélagið þannig til framtíðar að menn sjái von í því að hér sé hægt að byggja búsældarlegt samfélag og að menn hafi framtíð hér á landinu og að menn geti áfram byggt á sinni eigin getu, byggt á sínu eigin framtaki til að gera líf sitt bjartara.