138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er mikill jafnréttissinni og ég á tvo syni sem ég el upp í þeim anda og ég þarf enga kynjagreiningu til að leiðbeina mér um við viljum byggja upp þjóðfélag þar sem jafnrétti ríkir. Mér finnst of langt gengið í þessari fræðigrein en stundum halda sumir fræðimenn ákveðnum hlutum fram og ekki þurfa allir að vera sammála.

Ég vék ekki að því í fyrra andsvari mínu, varðandi það að hæstv. ráðherra þótti sýn sjálfstæðismanna í atvinnuuppbyggingu vera takmörkuð. Við hugsuðum ekki um þann fjölbreytileika sem hún boðaði. Ég vil líka mótmæla þessu og bendi á Suðurnesin — við þurfum aldrei að líta lengra en til Suðurnesjanna. Þar eru atvinnutækifæri eftir atvinnutækifæri, ég get nefnt sjúkrahús, einkasjúkrahús, flugvélaverkefni, gagnaver. Alls staðar rekast þessi tækifæri á hindranir (Forseti hringir.) af völdum ríkisstjórnarinnar sem kennir sig við jafnrétti, bræðralag, frelsi (Forseti hringir.) og ég veit ekki hvað. Það er ekki nóg að tala um fjölbreytileika. (Forseti hringir.) Frelsið brást kannski að einhverju leyti og ábyrgðin en (Forseti hringir.) lausnin er ekki að allt sé bannað og allt sé stoppað. Það er afturhald.