138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmannanefndinni fyrir vel unnin störf. Ég tók eftir því í vor og allt sumar að það var gríðarlega mikið álag á þessari nefnd. Ég hef líka fundið það eftir að þessir hv. alþingismenn skiluðu af sér að það er ákveðin hópstemning hjá þeim af því að þau hafa hist gríðarlega oft og haft tækifæri til að kynnast mjög vel í gegnum starfið. Við erum að fjalla um skýrsluna sem er afurð þessa mikla starfs. Ég vil lýsa því strax yfir að ég tel að hér sé um mjög mikilvægt plagg að ræða sem við getum nýtt okkur að mínu mati gríðarlega vel í áframhaldandi stöfum á Alþingi.

Ef maður á að nota eitthvert eitt orð yfir skýrsluna er hún áfellisdómur yfir mjög mörgum atriðum, yfir störfum þingsins, störfum embættismanna, fjármálakerfinu o.s.frv. Það eru ansi mörg atriði sem þarf að skoða.

Sú þingsályktunartillaga sem fylgir með skýrslunni fjallar um hlutverk Alþingis, réttinn til upplýsinga, að staða minni hlutans verði styrkt. Hún fjallar um nýja löggjöf um landsdóm og ráðherraábyrgð og að við eigum að fá skýrslur um afdrif þingsályktana. Ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði. Þar er líka tiplað á því að það eigi að endurskoða nefndaskipan Alþingis og gera óháða rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða og sparisjóða. Það þarf að rannsaka endurskoðendur, en segja má að þeir séu sá hópur sem hefur verið allt of lítið rætt um, þ.e. hvernig þeir brugðust. Svo á að gera stjórnsýsluendurskoðun á Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu.

Það virðist hafa verið mjög mikil samstaða í þessari nefnd um þessi atriði nema kannski helst það að gera óháða rannsókn á einkavæðingu bankanna. Formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur tekið undir að það sé eðlilegt að fara í slíka rannsókn og það gerði reyndar líka hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Þó að hugsanlega komi ekki mikið út úr slíkri rannsókn er kannski ágætt að fara í hana til að fá þá þessa umræðu út af borðinu.

Ég vil líka draga fram að gerð var kynjagreining á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, stóru skýrslunni sem var upp undir 3000 blaðsíður. Hana unnu Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir. Ég vil bara lýsa því yfir að mér finnst frábært að fá kynjagreiningu á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það er mjög lærdómsríkt að lesa hana. Ég finn að sumir gera hálfpartinn grín að þessari kynjagreiningu af því að þarna eru notuð mjög mörg orð sem okkur eru ekki töm. Í samantektinni kemur m.a. fram — þetta er mikil skýrsla — að fjármálakerfinu hafi verið stjórnað af litlum hópi einsleitra karla sem umbunuðu körlum á grundvelli huglægs mats. Í skýrslunni er talað um sjálfhverfa karla. Ég veit að karlmönnum almennt þykir erfitt þegar konur tala svona af því að þeim finnst alltaf að það sé verið að tala beint í þeirra eigið hjarta (Gripið fram í: Þetta eru alhæfingar.) og að þetta séu alhæfingar þannig að maður skilur alveg að þessi umræða geti orðið svolítið viðkvæm á köflum. Menn verða samt að þola hana.

Ég vil líka fá að vitna beint, virðulegur forseti, í aðrar málsgreinar í þessari kynjagreiningu. Hefst nú tilvitnunin, með leyfi forseta:

„Ráðandi karlmennskuhugmyndir, sem í senn byggjast á samkeppni og samtryggingu, ýttu fjármálakerfi landsins út á ystu nöf og í raun fram af brúninni. Þjóðhverfar karlmennskuhugmyndir um meinta yfirburði íslenskra karla mynduðu hugmyndafræðilega réttlætingu fyrir þá þróun sem hér varð.“

Menn heyra þennan tón og þetta er það sem ég held að mjög margir hafi haft á tilfinningunni og sjá þegar þeir virkilega rýna í hlutina.

Talsvert víða er komið inn á það í þessari skýrslu að óformlegt tengslanet karla hafi verið viðhaft í afdrifaríkum ákvörðunum og færð rök fyrir því.

Það er líka fjallað um kunningja- og ættartengsl hér á landi. Þetta er það sem er svo hættulegt í svona litlu samfélagi, þegar kunningja- og ættartengsl fara að ráða mjög miklu. Þau hafa ráðið allt of miklu í þessu samfélagi. Sú er hér stendur á norska móður og við höfum rætt þetta talsvert oft. Það er gaman að fara í gegnum þessa umræðu, það eru svo mýmörg dæmi um að við höfum misfarið með marga hluti vegna kunningja- og ættartengsla. Ef maður er ekki í rétta hópnum eða réttu ættinni fær maður nánast ekki framgang. Þetta hefur tengst líka hinu pólitíska valdi. Þetta er auðvitað hræðilegt, virðulegur forseti, þegar sumir fá ekki framgang af því að þeir eru ekki af réttum ættum, ekki í rétta hópnum, stjórnmálaflokknum eða kunningjahópnum. Þessu þarf að linna og menn verða að tala opinskátt um þetta.

Í skýrslunni kemur fram að stjórnendur og aðaleigendur bankanna báru mesta ábyrgð. Ég held að allir séu sammála um að þeir hafi borið mesta ábyrgð. Þeir eru nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara eins og ég held að hafi ekki farið fram hjá nokkrum manni í þessu samfélagi. Aðrir báru líka ábyrgð. Rannsóknarnefndin kemst að því að nokkrir einstaklingar, bæði stjórnmálamenn og embættismenn, hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi og síðan fá stjórnsýslan og stjórnmálaumhverfið almennt mjög harða dóma.

Ég ætla að fjalla, virðulegur forseti, mest um Alþingi og stjórnsýsluna. Það kemur fram að það þarf að styrkja Alþingi. Þetta er ekki ný umræða, hún er búin að vera hér mjög lengi. Ég vil draga það fram fyrst ég hef nú tækifæri til að tjá mig í þessu máli að ég hef margoft lagt fram á þingi lagafrumvarp um að aðgreina löggjafarvald og framkvæmdarvald, þ.e. að ráðherrar sitji ekki á þingi sem löggjafi á sama tíma og þeir fara með framkvæmdarvaldið, séu ekki með tvo hatta á höfðinu.

Þetta lagði ég fyrst fram á 123. þingi, þann 6. október 1998 lagði ég fram þetta lagafrumvarp. Það eru 12 ár síðan. Þá var þetta mál lagt fyrst fram. Það voru ekkert margir sammála þessu í upphafi. Nú virðist það orðið að meginsjónarmiði í þessari umræðu að ráðherrar eigi ekki líka að vera þingmenn á sama tíma. Við eigum að fara norsku leiðina, aðskilja þetta algjörlega, það er gert í Noregi og víðar.

Þetta mál var svo lagt fram á 131. þingi, 132., 135., 136. og í sjötta sinn núna, á 138. þingi. Sú er hér stendur mun leggja það fram aftur eftir 1. október næst, í sjöunda sinn. Vonandi tekur stjórnlagaþingið á þessu, mér finnst vera orðin það mikil stemning fyrir þessu máli í samfélaginu.

Ég vil draga fram að Kristinn H. Gunnarsson, þáverandi þingmaður, lagði þetta mál líka fram á 130. þingi, 2003–2004. Það eru sem sagt 12 ár síðan ég lagði þetta fyrst fram og var eini flutningsmaðurinn, sem var svolítið sérstakt. Síðan komu fleiri á tillöguna og meðal annars sá sem ætlar að fara hér í andsvar, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Fleiri hafa komið að, ég vil nefna að Eygló Harðardóttur sem situr hér í þingsal er líka á þessu máli í dag.

Hefði mátt samþykkja þetta? Já, það má segja að það hefði mátt samþykkja þetta við fjögur tækifæri af því að síðan þetta mál var lagt fram fyrst 1998 hafa farið fram fernar alþingiskosningar. Það voru kosningar 1999 og menn þekkja þetta ferli, ef á að breyta stjórnarskrá þurfa tvö þing að samþykkja svona mál með þingkosningum á milli. Menn samþykkja yfirleitt ekki breytingar á stjórnarskrá nema í aðdraganda kosninga. Það voru kosningar 1999, þá hefði verið hægt að samþykkja frumvarpið. Það voru kosningar 2003, þá hefði verið hægt að samþykkja það. Kosningar 2007, þá hefði verið hægt að samþykkja það og líka núna fyrir kosningarnar 2009.

Alþingi fékk fjögur tækifæri til að samþykkja þetta mál og tók aldrei við því, ákvað aldrei að hleypa því í gegn. Reyndar töluðu sumir gegn því. Ég nefni hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra Ögmund Jónasson. Hann t.d. talaði gegn málinu, taldi það ekki gott og var með ýmis rök fyrir því.

Ég vona svo sannarlega að þetta mál verði að veruleika, að ráðherra sitji ekki á þingi á sama tíma með bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald.

Ég vil líka gera hér að umtalsefni stjórnmálaumræðuna af því að fjallað er um það í skýrslunni að við þurfum að bæta umræðuhefðina. Það er rétt, hér ríkir of mikill Morfís-andi, menn skipa sér í lið með eða á móti og glíma. Það vantar betri rökræðu, það vantar að greina aðalatriðin og það vantar að sýna sanngirni. Það má ekki afvegaleiða umræðuna eins mikið og hér hefur tíðkast.

Ég vil af þessu tilefni segja að fólk er ekki fífl. Hér fór einu sinni tölvupóstur frá aðila úti í bæ til annarra í ákveðnu verðsamráðsmáli þar sem stóð: Fólk er fífl. Ég tel að fólk sé ekki fífl. Ég tel að almenningur sem horfir á umræðuna hér vilji ekki þessa umræðu. Niðurstaðan í skoðanakönnunum um traust á Alþingi sýnir að fólki mislíkar margt í störfum okkar, þar á meðal umræðuhefðin. Ég tel að það sé mjög mikið til vinnandi að við komum því þannig fyrir að umræðurnar hér á þingi verði innihaldsríkari, yfirvegaðri og réttlátari.

Margir segja að slík umræða rati ekki í fjölmiðla og það er mikið til í því. Hv. þingmenn eru auðvitað háðir því að þeirra sé getið að einhverju leyti í fjölmiðlum, annars er eins og þeir séu nánast ekkert að gera. Því miður eru þingmenn svolítið háðir þessu fjórða valdi, að komast í fjölmiðla. Það veldur því að þingmenn fara að reyna að toppa hver annan í frösum. Ég man eftir skemmtilegum dæmum um hv. þingmenn sem eru farnir af þessum vettvangi í dag sem æfðu sig í frösum, voru í því í marga daga að æfa sig á einhverjum frösum sem tengdust einhverju máli sem þeir voru að fara í. Svo létu þeir þessa frasa detta út úr sér í umræðunum eins og þeir væru að kokka þá upp á staðnum. Þetta er ákveðin list sem menn hafa stundað og ég tel að við eigum að fara út úr þeirri aðferð og reyna að hafa umræðuna hér af meiri yfirvegun og ekki í þessum frasastíl eins og því miður hefur verið of mikið um.

Ég ákalla svolítið fjölmiðla líka í þessu sambandi, að vera ekki að eltast alltaf við þær upphrópanir sem þó oft verða hér, heldur reyna að sýna meira líka af því innihaldsríka sem er svo sannarlega til staðar og er fært fram af meira jafnvægi og meiri sanngirni. Fjölmiðlarnir hafa hér mjög mikið að segja og ég tel að þeir eigi að aðstoða okkur í þinginu við að sýna eðlilegri svip af þessari stofnun.

Fjölmiðlarnir hafa mikið vald og eru kallaðir fjórða valdið. Því miður hafa fjölmiðlarnir hér verið of tengdir fjármálasamsteypum og stjórnmálaflokkum. Við getum tekið Morgunblaðið sem dæmi, þeir sem lesa Morgunblaðið sjá hvernig stjórnarandstaðan er lamin þar sundur og saman, það þarf ekki að lesa lengi til að sjá það. Það er ekki bara stjórnarandstaðan, heldur líka þeir sjálfstæðismenn sem Morgunblaðið telur vera svolítið óþekka. Ég leyfi mér að láta það flakka — og geri það svo sem ekki af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir er í forsetastóli um þessar mundir — en mitt mat eftir að hafa lesið Morgunblaðið um langt skeið er að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir eigi ekki upp á pallborðið í Morgunblaðinu. Það tel ég vera m.a. vegna þess að hv. þingmaður studdi hér aðildarumsókn að ESB. Morgunblaðið berst algjörlega gegn því.

Það er mikið vald sem fjölmiðlarnir fara með. Við verðum að gera okkur mjög vel grein fyrir því og við megum ekki láta fjölmiðlana kúga okkur. Það þarf oft sterk bein til að ganga gegn þessu valdi, standa með sannfæringu sinni, og það tel ég t.d. að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi gert í þessu máli. Hún stóðst þetta.

Ég tek líka fram varðandi umræðuhefðina, ég nota mikinn tíma hér í hana, að ég tel að það hafi verið mikil mistök hjá þinginu að gefa upp í hve margar mínútur hver þingmaður talar. Það var ekki gert áður fyrr. Þetta er hægt með tækninni í dag og þetta hvetur þingmenn til að tala hér allt of lengi að mínu mati. Það er vegna þess að enginn hv. þingmaður vill vera í neðstu sætunum á þessum lista þegar hann er gefinn upp. Þá lítur út fyrir að viðkomandi hafi bara ekkert til málanna að leggja. Þeir sem tala lengi eru taldir vera sterkir þingmenn, hinir hafa ekkert til málanna að leggja. Hér er kallað eftir magni en ekki gæðum. Þetta eru mikil mistök.

Einhverjar ræður, því miður kannski of margar sem hafa verið fluttar hér, eru fluttar í þessum tilgangi, að safna sér mínútum, því miður. Ég vona að hægt verði að fara af þessari leið, taka þetta ekki saman, gefa þetta ekki upp og birta þetta ekki í fjölmiðlum.

Ég ætla að draga eitt nafn inn, nafn Guðjóns Guðmundssonar frá Akranesi, sem var hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Sá hv. þingmaður talaði mjög lítið, frekar sjaldan og mældist lágt. Þetta var einn af sterkustu þingmönnunum að mínu mati, vandaður þingmaður. Það birtist ekki í þessu.

Ég hef flutt mál, virðulegur forseti, um það hvaða tíma við höfum til umræðna. Ég tel að það gæti bætt starfshætti þingsins gríðarlega mikið ef við stigjum það heillaskref að fallast á það frumvarp. Það er að norskri fyrirmynd og var lagt fram á þessu þingi af þeirri er hér stendur. Það er norska leiðin, má segja, og hún er þannig að forseti mundi áætla tímann sem frumvörp þurfa að fá við 1. umr. Við 2. og 3. umr. mundu nefndir óska eftir ákveðnum tíma fyrir umræðu um mál eftir því hvers eðlis málið er, stuttum tíma í léttvæg mál, löngum tíma í meiri háttar mál. Síðan yrði tímanum sem ætti að verja í viðkomandi mál skipt á milli þingflokka eftir stærð þeirra sem væri eðlilegt. Hins vegar mætti aldrei koma því þannig fyrir að umræða um mál stæði skemur en þrjá tíma, það væri lágmark. Það mætti ekki heldur takmarka umræðu um fjárlagafrumvarpið eða breytingar á stjórnarskrá. Ótakmarkaður tími gæti farið í slíka umræðu.

Ég tel að þetta mundi breyta mjög mikið umræðuhefðinni á Alþingi. Þá stæðum við ekki hér og töluðum út í hið óendanlega, oft um einhver mál sem skipta litlu sem engu. Þá þyrftu menn að koma því á framfæri sem þeir hefðu að segja á tiltölulega stuttum tíma, eða eðlilegum tíma ætti ég kannski frekar að orða það, virðulegur forseti, og við gætum gert áætlanir um það hve langan tíma hvert mál tæki. Við mundum vita nokkurn veginn að hverju við gengjum á hverjum degi, hvenær þingfundi lyki í síðasta lagi. Þetta er miklu erfiðara núna. Vinnubrögðin í dag eru algjörlega úrelt að mínu mati. Þegar ég lýsi fyrir erlendum þingmönnum, sérstaklega norskum sem ég á frekar mikil samskipti við, því sem við búum við hérna trúa þeir því ekki. Þeir trúa því ekki að við getum farið endalaust í pontu og talað, aftur og aftur og aftur og að hér sé málþóf. Það er ekki stundað málþóf annars staðar á Norðurlöndunum. Ég held að það séu nánast engin dæmi um það, kannski í Finnlandi fyrir ESB-aðildarumsóknina. Þetta er algjörlega úrelt og menn verða að viðurkenna það.

Hins vegar hefur verið bent á að þetta er tæki stjórnarandstöðunnar til að stoppa mál af í svokölluðum samningaviðræðum rétt áður en þingi lýkur á vorin og fyrir jól og það má færa rök fyrir því að þetta sé styrkleiki fyrir stjórnarandstöðuna. Ég tel þetta hins vegar ekki styrkleika fyrir lýðræðið, ég held að þessi svipur grafi mjög mikið undan trausti á Alþingi. Það má færa rök fyrir því að það eigi að styrkja stjórnarandstöðuna með því að stjórnarandstaðan fengi formennsku í nefndum, ætti auðveldara með að knýja á um upplýsingar, ætti heimtingu á að ráðherra kæmi fyrir nefndir, að fundir yrðu haldnir o.s.frv. Þetta eru allt atriði sem einmitt eru til skoðunar núna í drögum að frumvarpi til þingskapalaga sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, flytur og forsætisnefnd hefur verið að skoða. Ég tel að verði stemning fyrir því að breyta þingsköpum eins og þar er lagt til, og ég held að svo sé, eigi í leiðinni að breyta reglum um ræðutíma á Alþingi. Þá styrkjum við stjórnarandstöðuna í aðra röndina og í leiðinni tökum við af þennan galla sem er á störfum þingsins varðandi umræðuna. Ég vona svo sannarlega, virðulegur forseti, að það takist.

Það er mikið talað um hvað þingið er veikt. Það má ekki gleyma því að stjórnsýslan er líka veik, m.a. ráðuneytin. Það þarf að styrkja þau. Það er ekki þannig að framkvæmdarvaldið sé eitthvað gríðarlega sterkt og þingið svakalega veikt. Báðir þessir aðilar eru að mínu mati allt of veikir. Ráðuneytin eru allt of veik. Þau þarf að styrkja. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lýsti þessu frekar vel með dæmi í bréfi sem hann sendi þingmannanefndinni í sambandi við þá vinnu sem hér liggur að baki. Hann lýsti því þegar hann tók að sér viðskiptaráðuneytið og það var aðskilið frá starfsemi iðnaðarráðuneytisins 27. maí 2007. Þá fékk hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sjö starfsmenn, fimm skrifstofustjóra og tvo sérfræðinga. Sjö starfsmenn voru í þessu ráðuneyti, þetta var bara grín. Þeim var síðan fjölgað í ársbyrjun 2008, sem er hið krítíska ár þegar allt hrundi, en voru þó ekki nema 14 talsins. Ég ætla að leyfa mér að vitna í bréf hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, með leyfi virðulegs forseta:

„Inn í þetta krítíska ár var mér falið að leggja með starfslið sem var að stórum hluta nýtt, og reynslan innan ráðuneytisins speglast kannski best í þeirri staðreynd að í upphafi ferðar hafði sá sérfræðingur, sem lengsta starfsreynslu hafði, einungis starfað í sex mánuði. Efalítið hafði þessi skortur á reynslu innan ráðuneytisins, sem ég gat ekki við ráðið en var þó á mína ábyrgð, áhrif á framvinduna.“

Hvaða mál voru til umfjöllunar í þessu ráðuneyti? Hver var ábyrgð þess? Jú, þarna voru nokkrar stofnanir undir, Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið, Einkaleyfastofan, talsmaður neytenda og Neytendastofa. Þarna voru mál sem vörðuðu verslun og viðskipti með vörur og þjónustu, fjármálamarkað, vátryggingar og vátryggingastarfsemi, vexti og verðtryggingu, fjárfestingar erlendra aðila, gjaldeyri, samkeppnismál og óréttmæta viðskiptahætti, neytendavernd, hlutafélög og einkahlutafélög. Þarna voru Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu, fasteignakaup, sala fasteigna, fyrirtækja og skipa og hugverkaréttindi á sviði iðnaðar svo nokkuð sé talið. 14 starfsmenn áttu að fara með þetta. Sá sem hafði lengsta starfsreynslu hafði starfað í sex mánuði.

Er þetta í lagi? Þetta er auðvitað alls ekki í lagi. Þetta sýnir alveg gríðarlega veikleika í uppbyggingu okkar á stjórnsýslunni. Það er svo hróplegt að það þarf að sameina ráðuneyti, og ekki bara sameina þau, það þarf að styrkja þau líka gríðarlega. Þetta gengur að sjálfsögðu ekki upp, virðulegur forseti.

Núna er tími minn hér nánast á þrotum. Af því að ég er svo harðorð og er að gagnrýna eins og eðlilegt er þegar maður fær svona skýrslu í hendurnar sem er full sjálfsgagnrýni á störf þings og stjórnsýslu vil ég samt draga fram að það er eitthvað bjart fram undan líka og ýmislegt gott hefur gerst í störfum þingsins. Ég tel að það séð m.a. vegna nýliðunar sem hefur orðið alveg gríðarleg. Frá upphafi þings hefur aldrei orðið eins mikil nýliðun og núna á síðustu tveimur árum. Ég held að 2/3 hlutar þingsins séu nýir. Það er einsdæmi. Ég tel að m.a. vegna þessarar endurnýjunar höfum við tekið til okkar meira vald en við höfum áður gert. Við eigum ekki að láta kúga okkur, þingið á ekki að láta kúga sig. Það getur tekið til sín vald ef það vill það og það á að gera það, það þýðir ekki bara að bera sig illa.

Þingið hefur samþykkt 12 þingsályktunartillögur og fjögur lagafrumvörp frá þingmönnum á þessu þingi. Það er saga til næsta bæjar. Ég tel að þetta hafi aldrei skeð áður. Þar á meðal eru þingsályktunartillögur frá stjórnarandstæðingum. Það er mjög öflugt. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson var með eina um málefni heimskautasvæða, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson með notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun o.s.frv. Sú er hér stendur var með þrjú mál, nektardansinn, bólusetningar við pneumókokkasýkingum ungbarna og áætlun um ferðamennsku á miðhálendinu. (Forseti hringir.)

Þetta sýnir, virðulegur forseti, að þingið getur staðið sig vel ef það vill það og tekur sér vald.