138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar með hefur hv. þingmaður safnað 21 mínútu í safnið sitt.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist ekki flytja breytingartillögu við þá þingsályktunartillögu sem er innifalin í skýrslu þingmannanefndarinnar í þá veru að Alþingi álykti að ráðherrar séu ekki jafnframt þingmenn. Það er nefnilega þannig að þeir 10 ráðherrar sem mæta þar sem samtals 40 þingmenn eru mættir fara nánast með helminginn af því atkvæðamagni sem þarf til að samþykkja þeirra eigin frumvörp, framkvæmdarvaldsins.

Svo vil ég taka undir með hv. þingmanni, að maður situr oft á þingfundum, fer svo heim og horfir á sjónvarpið og þá er verið að lýsa einhverjum allt öðrum fundi. Ef ræðutíminn hefði verið takmarkaður eins og hv. þingmaður talar um þá hefði Icesave ekki bara verið samþykkt í seinni umferðinni heldur strax í þeirri fyrri.

Ég notaði eina mínútu.