138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:41]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann um örfá atriði þar sem hann nefndi í ræðu sinni að við værum í sömu sporum og aðrar þjóðir hvað varðaði regluverk um fjármálastarfsemi, að við hefðum sama regluverkið og Evrópuþjóðir og við værum í sama umhverfi og þær.

Ég tel að svo sé ekki og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að við þurfum — vegna fámennis, vegna þess sem fram hefur komið í rannsóknarskýrslunni um vinabönd, um tengslin, um strákagengið, ef ég má tala svo kæruleysislega um þann hóp kunningja og vina í þessu fjármálaumhverfi — að hafa jafnvel strangara, gegnsærra, skilvirkara eftirlit en stærri þjóðir vegna þessarar hættu.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann um það hvort hann telji ekki að sú pólitíska ákvörðun að leyfa markaðnum að þróast, að hvetja til þess að fjármálaumhverfið stækkaði og dafnaði, að vera ekki að þvælast fyrir, eins og sagt var, vegna þess að markaðurinn átti að sjá um sig sjálfur — hvort í því felist ekki pólitísk ábyrgð.

Og ef hann getur svarað í þessu andsvari eða næsta: Hvað segir hann um niðurstöður skýrslunnar út frá þessu kynjafræðilega sjónarmiði?