138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að byrja með: Ég bara bið um einn til tvo daga til að reyna að fara betur í síðasta atriðið sem hv. þingmaður nefndi og reyna að skilja eitthvað í þeim málum. Ég hef að vísu svolitlar áhyggjur af því hvernig menn eru að kynjagreina alla hluti. Ég hef m.a. áhyggjur af þeim ástæðum að maður hefur skoðað rannsóknarniðurstöður af ungum drengjum í skólum landsins — að við erum svolítið mikið að tala hér um það umhverfi sem við erum í en við þurfum að hugsa sérstaklega til framtíðar. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það en er samt sem áður búinn að brjóta það, sem ég ætlaði ekki að gera.

Varðandi fjármálaregluverkið og Evrópumálin er þetta skýrt dæmi um að við vönduðum okkur ekki. Hverjum datt í hug að setja regluverk sem er hannað fyrir 80 milljóna manna þjóð í Mið-Evrópu og setja það hér á Íslandi án þess að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna? Hverjum datt í hug að áhættugreina ekki innstæðutryggingarþáttinn? Það er allt í lagi ef fjármálamarkaðurinn stækkar ef hann er ekki á ábyrgð skattgreiðenda. Þetta er ekki nein frjálshyggja eða neitt slíkt, menn tóku regluverk og þeir töldu að hér væru jafnstrangar reglur og annars staðar, menn trúðu því.

Ég fór yfir orð Flannerys í rannsóknarskýrslunni. Hann fer yfir hugmyndina um af hverju menn eru með svo mikið af reglum um fjármálamarkaðinn. Gallinn er bara sá að við skoðuðum þetta ekki út frá íslenskum aðstæðum. Hvað þýðir það? Það þýðir að þetta virkaði ekki.

Ég las umfjöllun doktors Huldu Þórisdóttur, sem var í rannsóknarnefndinni, um þá hættu sem maður áttaði sig ekki á, þegar allir eru eins. Í bönkunum var það nokkuð, má fullyrða, ákveðin einföldun að allir voru eins. En ég sé þetta á öðrum sviðum. Ég sé þetta í minni gömlu deild, í stjórnmálafræðideildinni, þar eru allir eins. (Forseti hringir.) Menn eru svona nett Samfylkingar eða VG, fylgjandi Evrópusambandinu. Er (Forseti hringir.) það gott fyrir háskólasamfélagið, stjórnmálafræðideildina?