138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:46]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni hvað það varðar að við höfum ekki farið nægilega varlega við innleiðingu á regluverki Evrópusambandsins, þ.e. án þess að taka tillit til smæðar þjóðarinnar. Ég held það hafi ekki bara verið það. Ég held að það hafi líka verið sú pólitíska ákvörðun að vera ekki að vesenast of mikið, vera ekki að styrkja Fjármálaeftirlitið, vera ekki að styrkja það eftirlit sem við höfðum þó í höndunum samkvæmt regluverkinu.

Hvers vegna var Þjóðhagsstofnun lögð niður? Var það ekki vegna þess að hún var með aðra sýn, aðrar spár og aðrar leiðbeiningar en mönnum þóknaðist? Ég tel því að málið hafi ekki bara verið það að við höfum ekki nýtt okkur það að laga regluverk Evrópusambandsins að íslenskum aðstæðum.

Hvað varðar kynjafræðina þá tek ég undir það með hv. þingmanni að auðvitað eigum við ekki að fara of geyst og taka þetta eins og hver önnur trúarbrögð. En það verður sárt ef við lærum ekki af þessu tímabili þegar strákarnir okkar fengu að spila frítt og hvað það þýðir að velja í embætti, í áhrifastöður, sem eina heild karlmenn á þessum aldri sem eru miklu áhættusæknari en konur. Ég held að þetta kenni okkur að það er gott að hafa bæði sjónarmiðin við borðið sama hvar er. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé því ekki sammála.