138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála þeirri róttæku skoðun hv. þm. Þuríðar Backman að allir strákar séu eins og allar stelpur séu eins. Ég horfi t.d. á tvær glæsilegar konur í þingsalnum, hv. þm. Þuríði Backman og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, og það er himinn og haf milli þessara ágætu einstaklinga, himinn og haf. Ég ætla ekki að fara neitt sérstaklega í það núna, þær eru báðar prýðismanneskjur. En skoðanir þessara einstaklinga eru mjög mismunandi og hef ég unnið með þeim báðum. Ég held því að það að afgreiða fólk svona í hólf, að allar stelpur séu eins og allir strákar eins, sé ekki rétt. Ég er að reyna að ala upp fjögur börn, tvo stráka og tvær stelpur, og það er ólíku saman að jafna og hefur ekkert með kyn að gera. Ég spyr hv. þingmann: Ætlum við ekki að læra af þessu tímabili?

Við vorum að ræða mál í síðustu viku um breytingar á lögum. Það hefur ekkert breyst, vinnubrögðin hafa versnað, þetta er verra, þetta er miklu verra. Ég fullyrði það. Og varðandi það að styrkja FME og leggja Þjóðhagsstofnun niður — ef ég man rétt var Þjóðhagsstofnun að hluta sameinuð Hagstofunni, hlutverk hennar er þar. Ég held að það gæti hins vegar verið skynsamlegt að setja slíka stofnun undir Alþingi. Ég held að það væri skynsamlegt að hafa Ríkisendurskoðun beint undir Alþingi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ræða.

Fjármálaeftirlit var stirt en menn hafa sagt að starfsmenn hafi verið keyptir yfir af því að fjármálageirinn var svo stór. Ég vil að við ræðum það hvað við ætlum að gera næst þegar við förum upp. Ætlum við þá að missa allt fólkið yfir í einkageirann? Hvernig ætlum við að eiga við það, fólkið sem þarf að hafa eftirlit með þessu? Við vorum að kalla eftir þessari umræðu þegar við ræddum lög um fjármálafyrirtæki í vor en vegna þess að stjórnarmeirihlutinn hefur ekkert lært höfðum við engan tíma til að ræða þetta og menn kláruðu lög um fjármálafyrirtæki fullkomlega hálfköruð. Ég hvet stjórnarþingmenn til að lesa niðurstöðu þingmannanefndarinnar um fjármálamarkaðinn og þá komast menn að þeirri niðurstöðu að við þurfum að taka þessi lög upp aftur.