138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum hér að fjalla um skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og er hún mikil að vöxtum og vel unnin að mínu viti. Hér er farið vel í gegnum rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram. Það sem skiptir mestu máli að mínu viti varðandi þessa skýrslu er sá lærdómur sem við þurfum að draga af umfjölluninni og því sem hefur komið fram í rannsóknarskýrslunni og eins þessari yfirferð þingmannanefndarinnar. Hér eru lagðar fram ákveðnar tillögur sem við verðum að taka alvarlega og koma eftir megni sem fyrst í gagnið hjá okkur. Það er óhætt að segja að margt í þessari þingsályktunartillögu og niðurstöðum nefndarinnar sé áfellisdómur. Ýmsir þættir fá falleinkunn sem er kannski m.a.s. vægt orð. Þetta allt verðum við að sjálfsögðu að taka alvarlega og finna leiðir til að ráða bót á.

Það er líka alveg óhætt að velta fyrir sér hvað hafi breyst, nú þegar tvö ár eru liðin frá bankahruninu ef hægt er að setja slíka dagsetningu á hrun sem þetta. Ef ég horfi til stjórnsýslunnar, til framkvæmdarvaldsins og slíks, hefur lítið breyst. Það er a.m.k. erfitt að finna þær breytingar sem hafa orðið, það er enn þá verið að viðhafa þau gömlu vinnubrögð sem er verið að gagnrýna. Vonandi getur sá punktur sem við erum á núna orðið nýtt upphaf í sjálfu sér, það er alveg hægt að orða það þannig.

Frú forseti. Nefndin skiptir tillögum sínum niður í nokkra kafla þar sem fjallað er um Alþingi. Ég hef margoft rætt í ræðustól um mikilvægi þess að styrkja stöðu Alþingis, styrkja þann möguleika sem Alþingi hefur á að afla sér upplýsinga og sérfræðivinnu vegna ýmissa mála. Mjög gott starfsfólk vinnur fyrir Alþingi, fyrir þingmenn í þingnefndum og annars staðar, en ég held að full þörf sé á að bæta þar við, hvort sem snýr að lagasmíði, yfirferð lagafrumvarpa eða öðru, eða hreinlega ráðgjöf varðandi efnahagsmál og annað sem þingmenn verða að hafa aðgang að. Því fagna ég þeirri niðurstöðu nefndarinnar að auka þurfi sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það þýðir að sjálfsögðu um leið að styrkja þarf fjárhagslega stöðu Alþingis. Við þingmenn ættum því, nú þegar kemur að nýrri fjárlagagerð, að sjá til þess og taka höndum saman um að treysta og styrkja fjárhagslega stöðu Alþingis í því fjárlagafrumvarpi sem fram undan er.

Fjármálafyrirtæki og eftirlitsaðilar fá býsna harðan dóm í skýrslu þingmannanefndarinnar. Þarf það ekki að koma á óvart, það hefur lengi legið fyrir að þar var víða pottur brotinn. Sérstaka athygli vek ég á þeirri niðurstöðu nefndarinnar að meginorsök hrunsins hafi verið hvernig eigendur og aðalleikarar og stjórnendur fjármálafyrirtækjanna höguðu sér og við verðum að sjálfsögðu að treysta á að réttarkerfi okkar taki á slíkum málum og að um það verði fjallað eins og þörf er á.

Það er fjallað um eftirlitsaðila, bæði Fjármálaeftirlit og Seðlabanka, og viðraðar tillögur um hvernig bæta megi þar úr. Held ég að mjög mikilvægt sé að reyna að hraða því eins og hægt er.

Íslenska stjórnsýslan er tekin þarna fyrir að nokkru leyti. Tek ég undir að við þurfum að skerpa og skýra verkferla, þætti og annað. Ég leyfi mér hins vegar að setja spurningu við eitt sem kemur fram í tillögu nefndarinnar, en útiloka alls ekki að hægt sé að framkvæma það, það að fundargerðir ríkisstjórnar séu birtar á neti og sérstök trúnaðarbók haldin á ríkisstjórnarfundum. Ég sé einhvern veginn fyrir mér að sú bók verði býsna feit og pattaraleg þegar yfir lýkur og fátt á netinu í fundargerðum. Ég velti hreinlega fyrir mér hvort þetta sé framkvæmanlegt.

Þetta er kannski ekki stærsta málið heldur það að við lærum af þessu að viðhalda góðum venjum í stjórnsýslunni og þá að virða og fara eftir samþykktum leikreglum.

Það þarf vitanlega skýra ábyrgð hvers og eins, það er löngu komið fram. Ég held að við eigum ekkert að draga það að einhenda okkur í þá vinnu þannig að það liggi ljóst fyrir hvað hver og einn, hvort sem það eru starfsmenn stjórnsýslunnar, ráðherrar eða aðrir, eigi að gera, hvaða ábyrgð hann beri og þess háttar.

Hér er góður kafli um siðferði og samfélag, ábyrgð stjórnmálamanna og annað. Við sem erum stjórnmálamenn þurfum að líta okkur nær, þurfum að líta í eigin barm og velta fyrir okkur hvort við séum að gera þessa hluti rétt. Lagðar eru fram tillögur til að skerpa á þessum hlutum. Mig langar að nefna sérstaklega tvennt úr skýrslu nefndarinnar, fjölmiðla og háskólasamfélagið. Það er mjög mikilvægt að þessir aðilar — ég held að eitthvað hafi svo sem gerst á þeim bænum — líti sér nær og velti fyrir sér stöðu sinni og þætti í efnahagshruninu og allri umræðu í kringum það, bæði fyrir og ekki síst eftir. Ég hef sagt í þessum ræðustól og ítreka það að ég tel fulla ástæðu til að mjög nákvæm og sérstök rannsókn fari fram á fjölmiðlum á Íslandi ef mönnum er alvara með að ræða um þá sem fjórða valdið. Hver eru fjárhagsleg tengsl t.d. auðmanna við fjölmiðla, inn á ritstjórnarskrifstofur, við blaðamenn, við fréttamenn o.s.frv.? Það er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa þá trú að fjölmiðlar njóti trausts og trúnaðar, þar á meðal ríkisfjölmiðillinn sem verður að vera verður þess trausts sem honum er yfirleitt sýnt, m.a. í könnunum. Fjölmiðlarnir verða að rísa undir því að vera kallaðir fjórða valdið. Ef þeir eru fjórða valdið verða þeir að njóta trausts líkt og við sem erum hluti af hinum valdastofnunum ef ég má orða það þannig. Ég legg mikið upp úr þessu.

Frú forseti. Hér eru lagðar til rannsóknir og ég get tekið undir að það er ágætt og líklega nauðsynlegt að rannsaka starfsemi lífeyrissjóðanna svo eitthvað sé tekið. Ég verð þó að segja að á einhverjum tímapunkti verðum við að sjálfsögðu að draga lærdóminn, horfa fram á við, undirbúa og hefja það samfélag sem við viljum búa í. Það má samt ekki misskilja mig, forseti, ég er sammála því að fara í rannsókn á stöðu lífeyrissjóðanna og ýmsu öðru.

Töluvert hefur verið rætt um einkavæðingu bankanna. Ef vilji Alþingis er að fara í slíka rannsókn mun ég að sjálfsögðu styðja það og ekki draga af mér við það. Á einhverjum tímapunkti verðum við samt að fara að horfa fram á við.

Frú forseti. Ég velti áðan upp hvað hefði breyst. Ég er nefnilega ekki viss um að svo mikið hafi breyst. Fyrir nokkrum mánuðum spurði ég hæstv. fjármálaráðherra um viðbragðsáætlun við mögulegu nýju bankahruni. Á þeim tíma var slík viðbragðsáætlun ekki til. Ég hef ekki enn heyrt að hún sé orðin til. Eitt af því sem var gagnrýnt þegar kom að hruninu fyrir tveimur árum var að engar viðbragðsáætlanir væru til. Ég velti því upp, ekki síst í ljósi þess að jafnvel á morgun eða eftir viku mun Hæstiréttur kveða upp úrskurð sinn um gengistryggð lán, hvað það muni þýða, frú forseti. Hvað mun slíkur úrskurður þýða? Hefur ríkisstjórnin á höndum sér viðbragðsáætlun ef eitthvað slæmt hlýst af þessum dómi? Þá er ég að hugsa um fjárhag ríkisins. Síðan kemur hitt sem ég spurði líka um sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra svaraði. Svar hans leiddi í ljós að í ráðuneyti hans væri verið að undirbúa viðbrögð við þessum dómi. Eru þau viðbrögð til þess fallin að skekkja þá stöðu sem margir vona að komi út úr þessum dómi fyrir einstaklingana og þá sem eru með þessi lán, skuldarana, eða hver eru þessi viðbrögð?

Það styttist mjög í að þessi dómur verði kveðinn upp. Eins og ég sagði getur það orðið á morgun eða á fimmtudag eftir viku. Hver eru viðbrögð ríkisins? Er til viðbragðsáætlun og hvernig er hún? Einhvern veginn hefði manni fundist eðlilegt í ljósi þess umfjöllunarefnis sem við erum að tala um núna að slíkt lægi fyrir, það væri búið að upplýsa þingið og aðra um það. Ég velti fyrir mér hvort staðan sé óbreytt, sé sú sama og var, að enginn viti hvað á að gera ef hætta steðjar að fjármálakerfinu. Ég er ekki að segja að þessi dómur muni hafa slík áhrif enda hef ég ekki hugmynd um hvernig hann verður. Ég vona að sjálfsögðu að hann verði með þeim hætti að fólkið sem skuldar, einstaklingarnir og jafnvel fyrirtækin, geti horft fram á við. Það er búin að vera keðja um háls fólks í langan tíma, en að sama skapi er vitanlega mikilvægt að ríkisvaldið hafi viðbrögð ef einhver hætta steðjar að fjármálalegum stöðugleika. Einnig er mikilvægt að enn og aftur komi yfirlýsing sem ég tel reyndar að sé í fullu gildi um að ríkissjóður tryggi allar innstæður í bönkum. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir þegar dómurinn verður kveðinn upp.

Frú forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir þess skýrslu og ýmsar vangaveltur henni tengdar. Það er mjög mikilvægt að þingið nýti þetta gagn sem við höfum hér til að setja af stað þróun eða ferli í að bæta það samfélag sem við búum í, allt umhverfi og alla umgjörð. Það er fyrst og fremst sá lærdómur sem ég held að við verðum að draga af þessu. Við verðum að horfa fram á við. Á sama tíma geri ég þá kröfu að fjármálaráðherra eða ríkisvaldið stigi fram. Því miður er enginn ráðherra í salnum og sjálfsagt ekki margir á þeim bænum sem heyra það sem ég er að segja hér, en það er mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi um fjármálastöðugleika á Íslandi, nú þegar þessi dómur vofir yfir, hvernig sem hann fer. Það er erfitt að trúa því að ekki sé til nein viðbragðsáætlun ef hætta er hér á öðru bankahruni, hvort sem það er eftir viku eða hálft ár.

Frú forseti. Við erum hér með mikið plagg og skýrslu sem við eigum að nota til þess að skapa betra samfélag á Íslandi.