138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hyggst verða mjög efnislegur til þess að gleðja sessunaut minn, hv. þm. Birki Jón Jónsson. En það er eitt atriði sem mér finnst nauðsynlegt að halda til haga vegna þess að vísað hefur verið til verklagsreglna sem þingmannanefndin, sú ágæta nefnd, samþykkti við upphaf starfs síns.

Væntanlega er í þessari umræðu verið að vísa til 7. gr. þeirra verklagsreglna þar sem segir:

„Hafi nefndin til umfjöllunar mál sem kunna að varða refsiábyrgð einstaklinga skal nefndin bundin trúnaði vegna rannsóknarhagsmuna. “

Þá spyr ég: Þegar taka þarf ákvörðun um ákæru, hvaða rannsóknarhagsmunir eru það sem koma í veg fyrir að þingmenn fái aðgang að þessum gögnum? Í öðru lagi, er þingmannanefndin búin að ljúka starfi sínu, er hún búin að ljúka þessu máli? Ég hélt það, hún er búin að skila af sér, þannig að þau atriði sem á við í 7. gr. eiga augljóslega ekki við þegar málið er komið á þetta stig.