138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók það fram í ræðu minni að mat á hugsanlegri refsiábyrgð væri ekki hið sama og mat sem rannsóknarnefnd Alþingis lagði til grundvallar. Rannsóknarnefnd Alþingis einskorðaði sig við valdsvið hvers og eins ráðherra, embættissvið hans. Við fórum yfir það mjög nákvæmlega og mátum það með öðrum hætti og það voru atvik á leiðinni, m.a. undirskrift yfirlýsingar 15. maí, þar sem ráðherrann tók á sig réttindi og skyldur. Hún var í forustuhlutverki ríkisstjórnar og fékk allar þessar upplýsingar og við komumst að þeirri niðurstöðu að á grundvelli verkstjórnarskyldna sinna og skyldna hennar sem oddvita hefði hún átt að bregðast við. Ítarlega er greint frá þessu og rökstutt í greinargerðinni og ég vísa til hennar.