138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:04]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom margt til skoðunar varðandi hvernig átti að leggja upp þetta mál. Það hefur hingað til ekki tíðkast þegar ákveðnir þingmenn leggja fram þingsályktunartillögu að aðrir þingmenn leggi fram aðra þingsályktunartillögu um að þeir séu á móti þingsályktunartillögunni sem leggja eigi fram. Það er hins vegar yfirleitt tekið fram í umræðunni. Ég hafði þá skoðun í þessari vinnu að þingmannanefndin ætti að skila sérskýrslu sameiginlega um ráðherraábyrgðina. Við fórum í mikla efnisyfirferð á þessu máli. Við rákumst á ýmislegt sem betur má fara í þeirri löggjöf sem við erum að vinna í og höfum lagt það til sameiginlega að þessi löggjöf verði endurskoðuð. Við nálgumst það viðfangsefni reyndar á ólíkum forsendum en ég hefði talið rétt að gefa út slíka skýrslu þar sem við reifuðum þau sjónarmið. Þar hefði verið hægt að koma inn á álit sérfræðinganna og þá stæðum við ekki í því stappi sem við stöndum í í dag.