138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar framsögu. Mín spurning snýr að hættubrotum, þeim brotum sem vikið var að í framsögu hennar. Ráðherrunum er legið á hálsi fyrir að hafa ekki brugðist við hættu þótt þeim hafi verið það unnt, eins og segir á bls. 9 í þessari þingsályktunartillögu.

Ég verð þess vegna að spyrja — ég tel að þeir sem standa að þessari tillögu hafi algerlega látið undir höfuð leggjast að gera eitt, það er að sýna fram á hvaða löggjöf, hvaða almennu stjórnvaldsfyrirmæli, hvaða stjórnvaldsákvarðanir það voru sem ráðherrarnir hefðu átt að grípa til og hefðu getað afstýrt hættunni. Það er nefnilega þannig að þó að ekki þurfi að sýna fram á bein orsakatengsl þarf að sýna fram á að athafnaleysið hafi valdið einhverri viðbótarhættu eða að hægt hefði verið að draga úr þeirri hættu. Það hefur ekki komið fram eitt einasta dæmi um lög, (Forseti hringir.) stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmæli sem (Forseti hringir.) hægt hefði verið að grípa til sem líkleg eru til þess að hafa dregið úr hættunni. Ég kalla eftir einu dæmi um eitthvað slíkt.