138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar með er það ljóst að það er ekki eitt einasta dæmi til af hálfu þeirra sem standa að þessum tillögum hér um stjórnvaldsfyrirmæli, löggjöf, einhverja stjórnvaldsaðgerð sem hefði verið líkleg, eftir á að hyggja, til að draga úr hættunni. Jú, það er talað um að gott hefði verið að hafa heildaryfirlit, en hefði ekki líka núverandi ágæt ríkisstjórn átt að gera eins og segir í ákærunni? Lét hún ekki undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um það til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hins yfirvofandi dóms Hæstaréttar í gengislánamálum? Er ekki hægt að snúa þessu sama atriði upp á núverandi ríkisstjórn vegna máls sem við höfum verið að ræða hér að undanförnu? (Gripið fram í.) Er það refsivert? (Gripið fram í.) Kallar það á ákæru frá þinginu? Ég bara spyr.