138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég vil velta því fyrir mér: Á hverju stendur sá munur á ályktunum sem þingmannanefndin dregur og rannsóknarnefnd Alþingis? Rannsóknarnefndin tekur skýrt fram að það sé skýr munur á lagalegri ábyrgð ráðherra — og miðar þar við lög um ráðherraábyrgð sérstaklega — og pólitískri ábyrgð þeirra? Enginn vafi leikur á því að oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn bar mikla pólitíska ábyrgð á þeim upplýsingum sem hún fékk og þeim athöfnum eða athafnaleysi sem átti sér stað í ríkisstjórninni á þessum tíma. Ég held að augljóst sé að það er hægt að horfa fram á það að viðkomandi ráðherra hafi axlað þá pólitísku ábyrgð sína með því að hverfa úr ríkisstjórn og raunar hverfa út af þingi.

Spurningin er þessi, af því að vísað er til alvarlegrar vanrækslu á starfsskyldum viðkomandi (Forseti hringir.) einstaklings sem oddvita Samfylkingarinnar í ríkisstjórn, hlýt ég að spyrja: Í hvaða lögum eru starfsskyldur oddvita stjórnarflokkanna útlistaðar?