138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:48]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp stöðufærslu hv. þm. Lilju Mósesdóttur af Facebook:

„Tillaga meiri hluta þingmannanefndar um að mæla með að landsdómur verði kallaður saman er ekki merki um refsigleði heldur nauðsynlegt uppgjör við öfgafulla markaðshyggju og afskiptaleysisstefnuna sem innleidd var af Sjálfstæðisflokknum og studd af Framsókn og Samfylkingunni. Allt of margir eru litaðir af hugmyndafræði útrásarinnar og því er engu hægt að breyta í íslensku samfélagi.“

Það þarf ekki að hafa frekari orð um þetta.

Varðandi seinni þáttinn er það rétt að í landsdóm kýs Alþingi 8 fulltrúa af 15. Í því felst það pólitíska yfirbragð sem á dómnum er. En það er algerlega skýrt að landsdómur dæmir að lögum og hér er um einfalt sakamál að ræða og það verður ekki dæmt í þessu máli á öðrum grunni en að íslenskum lögum, ekki á grundvelli pólitískrar hugmyndafræði eins og hv. þingmaður hefur látið í veðri vaka.