138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:53]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tilefni þessarar umræðu að fjalla um það hvort tilteknir ráðherrar hafi gerst sekir um refsiverða háttsemi. Um það snýst þetta mál. Þeir þingmenn sem nú þegar hafa komið upp í andsvör vilja hreint ekki ræða efni þessara ákæra heldur eru komnir á hraðan flótta og farnir að ræða eitthvað allt annað. Það var gefin út heil rannsóknarskýrsla, eins og ég nefndi í ræðu minni, mjög merkilegt plagg, á grundvelli ákvörðunar Alþingis sem setur rannsóknarnefndina á fót. Þar kemur ýmislegt fram um ábyrgð einstakra manna og þá ekki síst þeirra sem stjórnuðu í bönkunum. Þar liggur ábyrgð. En mér finnst mjög athyglisvert að þessir þingmenn, t.d. hv. þm. Eygló Harðardóttir, sem situr í þessari þingmannanefnd, skuli hafa meiri áhuga á því að ræða aðra þætti en þá sem snúa að þeim ákærum sem hún stendur fyrir og geta leitt til þess að menn séu dæmdir í fangelsi.