138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:56]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Ólöfu Nordal að hið hugmyndafræðilega uppgjör vegna þessa hrikalega máls mun ekki fara fram fyrir landsdómi. Þeir sem voru gerendur í málinu sátu ekki í ríkisstjórn á þeim tíma sem hér um ræðir og eru ekki þeir þingmenn sem ákærðir yrðu samkvæmt þeim þingsályktunartillögum sem hér liggja fyrir.

Mig langar hins vegar til að spyrja þingmanninn hvort hún hefur velt fyrir sér hinni svokölluðu dönsku leið sem hefur aðeins komið inn í umræðuna og fyrrverandi forsætisráðherra með meiru, Þorsteinn Pálsson, kynnir til sögunnar í grein í Fréttablaðinu um helgina þess efnis að þingið samþykki hugsanlega ályktun með vítum eða ávítum á þá sem voru raunverulegir gerendur í þessu máli. Þar með væri þingið ekki bundið af þeim tímarömmum sem fyrningarfresturinn gefur rannsóknarnefnd Alþingis. Ég er forvitin að heyra afstöðu þingmannsins til þessa.