138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:59]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held reyndar, og ég verð að lýsa þeirri skoðun minni, að menn geri ekki nógu mikið úr niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar og þeim ávirðingum sem stjórnsýslan í heild sinni fær þar, fjármálakerfið, háttalag einstakra bankamanna sem bera langmestu ábyrgðina og þau stóru orð og þann rökstuðning sem þar er að finna.

Ég vil líka nefna, vegna þess að þingið er að fjalla um skýrsluna samhliða þessari umræðu, að þar eru líka tillögur af hálfu þingmannanefndar sem hún var sammála um, að grípa þyrfti til alls kyns ákvarðana — í upphafsorðum þeirra tillagna eru stór orð látin falla um þá atburði sem hér urðu og hvað við þurfum að læra af þeim.

Mín skoðun er sú að ekki sé tilefni til að fara í refsimál á hendur fyrrverandi ráðherrum og við séum búin að ljúka ákveðnum kafla, hér séu orðin kaflaskil og nú sé kominn tími til að halda áfram.