138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér varð umræða í morgun, annars vegar hjá hv. þm. Ólöfu Nordal og svo síðast hv. þm. Bjarna Benediktssyni varðandi þau gögn sem þingmannanefndin hafði til skoðunar í vinnu sinni og bundin voru ákveðnum trúnaði. Ég tók ekki þátt í umræðunni á föstudaginn þar sem mér fannst ekki á það bætandi sem þar gekk á en ég held að rétt sé að það komi fram og nefndin tók það bæði til greina á fundi sínum á miðvikudaginn og svo aftur á föstudaginn að það væri allsendis óþarfi að um hluta þessara gagna sem hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi hvíldi einhver trúnaður og ættu einmitt heima á netinu og hluti þeirra gagna er þar, held ég. Engu að síður er líka ljóst að ákveðin gögn, eins og hv. þingmaður kom inn á, voru þess eðlis að þau eiga að vera bundin ákveðnum trúnaði og þingmenn hafa þá aðgang að þeim. Mér fannst í ræðu hv. þm Ólafar Nordal — og ég skil vel þá viðkvæmni, tilfinningasemi og hita sem er í þessari umræðu, þetta er erfitt fyrir okkur öll — að hún hefði sumpart verið óþarflega stóryrt og með nokkrar dylgjur, ekki síst í garð okkar í þingmannanefndinni. Við það verðum við auðvitað að una eins og margur annar.

Ég vil minna á þegar talað er um fátækleg gögn og reynt að gera lítið úr vinnu okkar þingmannanefndarinnar að við byggjum á gríðarlega umfangsmikilli skýrslu rannsóknarnefndarinnar (Gripið fram í.) sem liggur opin fyrir alla og allir geta lesið og hafa vonandi kynnt sér til hlítar og lesið ítarlega. Á þeim gögnum byggðum við alla vinnu okkar sem kom fram í skýrslu nefndarinnar sem við ræddum í síðustu viku. Og við þetta erfiða mál er sá fylgifiskur sem við tókum að okkur að meta, hvort skilyrði ráðherraábyrgðar kæmi hér til umræðu.

Virðulegi forseti. Við fetum nýjar slóðir, slóðir sem við getum verið sammála um að við ættum aldrei að þurfa að fara. Síðustu daga, kannski viku, hefur mikið verið rætt um ráðherraábyrgð og landsdóm. Margir telja marga ágalla á lögunum og dómnum, aðrir fullyrða að bæði lög og dómur standist nútímakröfur sem gera á til réttarhalda en benda á sérstöðu laganna og landsdóms. Ég nefni í innganginum að umræðan hafi í besta falli staðið yfir í tíu daga þrátt fyrir þá staðreynd að nær tvö ár eru frá hruni fjármálakerfisins og bankanna. Það eru níu mánuðir ef ekki tíu síðan þingmannanefndin sem skilaði nú af sér var sett á laggirnar og átti m.a. að fjalla um ráðherraábyrgð í ljósi laga nr. 4/1963 og laga um landsdóm nr. 3/1963.

Ég tek þetta fram vegna þess að niðurstaðan, þ.e. að kalla saman landsdóm, ætti ekki að hafa komið okkur þingmönnum óvart. Ef við hefðum vilja forðast í lengstu lög að kalla saman landsdóm hefðum við átt að ræða ráðherraábyrgð í ljósi laga og landsdóms mánuðum saman. Þá hefðum við á einhverjum tímapunkti hugsanlega komist að þeirri niðurstöðu að við þyrftum ekki að kalla saman landsdóm. Við hefðum lært af reynslunni, þ.e. stjórnkerfið, núverandi ríkisstjórn, hefði tekið upp ný vinnubrögð og lært af vinnubrögðum fráfarandi stjórnar og skýrslu rannsóknarnefndarinnar að það þyrfti að breyta um stefnu og hefði þar með tekið upp önnur og breytt vinnubrögð. Síðast en ekki síst hefðum við á undangengnum mánuðum komið okkur saman um eðlileg viðbrögð á ráðherraábyrgð þeirra ráðherra sem við gerum nú ráð fyrir að ákæra. Við hefðum getað náð saman um að allir hefðu axlað ábyrgð með því að víkja af vettvangi stjórnmála sem reyndar flestir hefðu gert, ekki allir, og við hefðum getað náð saman um orðalag á hvernig við áteldum vinnubrögðin, verklagið og þá vanrækslu sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis telur hafa verið á störfum þriggja ráðherra í ljósi laga nr. 142/2008, 1. mgr. í 1. gr. Öllum þessum dýrmæta tíma eyddum við í hefðbundið karp í samfélaginu, heiftúðuga persónulega gagnrýni og skotgrafir þar sem enginn gaf eftir.

Í umræðu um skýrslu þingmannanefndarinnar í síðustu viku, m.a. um einkavæðingu á sölu ríkisbankanna, kemur þetta þroskaleysi umræðunnar í samfélaginu vel í ljós. Við kunnum ekki að ljúka málum. Það var himinn og jörð á milli álita okkar þingmanna í þingmannanefndinni á hvort við gætum tekið undir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, hvort um vanrækslu ráðherra væri að ræða. Það kom fram í umræðunni áðan að fulltrúi sjálfstæðismanna, hv. þm. Ólöf Nordal, gat ekki tekið undir það. Það gátu fulltrúar sem kallaðir voru fulltrúar sjálfstæðismanna hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir ekki heldur, en við töldum okkur vera kjörna þingmenn af öllu þinginu í allri okkar vinnu en ekki fulltrúa hvers flokks. Það var himinn og jörð á milli þeirra túlkana um hvort hægt væri að taka undir að um vanrækslu hefði verið að ræða. Það var því algerlega ófært að enda umræðu um ráðherraábyrgð á sameiginlegri samfélagslegri samkennd, eins konar vandlætingu á störfum ráðherra, eins æskilegt og það hefði verið og skynsamlegt því að þá gætum við í þessu samfélagi kannski haldið áfram og hætt að líta um öxl. En það er engin eining í samfélagi okkar. Því stöndum við hér og getum ekki annað.

Það er aðeins ein leið eftir og það er að fara með málið til þar til bærra dómstóla. Í þessu sambandi er rétt að minna á Icesave. Við höfum talað um að samningaleiðin sé best en ef hún er ófær þá höfum við bent á að dómstólar bíði málsins. Þannig er það líka með vinnudeilur á markaði á Íslandi. Ef ekki nást samningar er hægt að fara með mál fyrir dómstóla.

Mjög alvarlegt mál fór í síðustu viku fyrir Hæstarétt, um vexti og gengistryggð lán. Það hefði verið skynsamlegra að fara að tillögum okkar framsóknarmanna fyrir meira en ári, fara í almennar leiðréttingar í staðinn fyrir að stefna öllum málum inn í dóm. En það er engin eining í samfélaginu, þess vegna fara þau fyrir dómstóla.

Virðulegi forseti. Við í þingmannanefndinni, hvert og eitt okkar vil ég fullyrða, öll níu, höfum starfað af einlægni, heiðarleika og hreinskilni í þessari fordæmalausu vinnu í íslenskri stjórnmálasögu. Þannig hefur öll okkar vinna verið síðustu daga, vikur og mánuði. Þrátt fyrir að oft hafi á móti blásið og snarpir vindar leikið um íslenska pólitík og oft hafi alvarleg áföll riðið yfir samfélag okkar erum við samt að tala um fordæmalausar aðstæður, tímabilið í aðdraganda hruns og fjármála- og bankahrunið sjálft fyrir nærri tveimur árum.

Við erum búin og munum á næstu árum þurfa að fást við afleiðingar hrunsins, afleiðingar sem m.a. birtast í að þúsundir heimila, kannski allt að 40% þeirra, eru tæknilega gjaldþrota. Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja sem eru komin í þrot eykst hratt. Einstaka atvinnugreinar eins og byggingariðnaður og verktakastarfsemi eru nánast lamaðar. Hrun í landsframleiðslu og neikvæður hagvöxtur, atvinnuleysi og það sem alvarlegra er er að langtímaatvinnuleysi er í sögulegu hámarki. Engu að síður getum við glaðst yfir að margar af þessum prósentutölum séu heldur lægri en við óttuðumst þegar við spáðum hvað verst. Landflótti sex til sjö þúsund manns. Íslendingum hefur ekki fækkað í 120 ár eða rúmlega það fyrr en í fyrra. Myndin er því skýr, virðulegi forseti. Hrunið hefur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir marga Íslendinga og mörg fyrirtæki, fyrir íslenskt samfélag, og samfélagið tók hrunið alvarlega. Alþingi setti á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd og síðan tók þingmannanefndin við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og fjallaði efnislega um hana og tók undir meginniðurstöður, dró af henni lærdóma og kom með tillögur. Þær tillögur ræddum við hér í þinginu í síðustu viku.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur berlega fram að mesta ábyrgð á hruninu beri helstu eigendur og stjórnendur bankanna. Atferli þeirra var svo alvarlegt að rannsóknarnefndin vísaði fjölmörgum málum eða atvikum einstakra aðila til sérstaks saksóknara vegna gruns um refsiverða háttsemi. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndarinnar og fjölmiðlaumfjöllunar síðustu mánuði er um að ræða bæði helstu eigendur og stjórnendur bankanna sem og einhverja af endurskoðendum þeirra. Við skulum treysta réttarríkinu, við skulum sýna þolinmæði. Þessi mál munu ganga sinn gang, við hljótum að treysta réttarríkinu. Það geri ég.

Rannsóknarnefnd Alþingis bendir á að fleiri beri ábyrgð og hafi brugðist starfsskyldum sínum. Eftirlitsaðilar brugðust, verklag og vinnubrögð Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands eru gagnrýnd harðlega. Ábyrgð stjórnenda þeirra er mikil. Þingmannanefndin vísaði málum er vörðuðu vanrækslu forstjóra Fjármálaeftirlitsins og bankastjórnar Seðlabanka Íslands til sérstaks saksóknara. Svar hans var að að svo stöddu gæfi umfjöllun og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis ekki tilefni til sakamálarannsókna á hendur seðlabankastjórum eða forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Virðulegi forseti. Að mati rannsóknarnefndar Alþingis sem þingmannanefndin hefur tekið undir brugðust fleiri. Framkvæmdarvaldið, stjórnsýslan, er harðlega gagnrýnd, verklag og vinnubrögð átalin. Þar bera margir ábyrgð. Mesta ábyrgð bera þeir ráðherrar sem málefni banka, fjármála- og efnahagsmála heyrðu undir. Allir ráðherrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks 2007–2009 bera pólitíska ábyrgð sem og þeir ráðherrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem fóru með málefni efnahags-, banka- og fjármála frá „míní-krísuárinu“ 2006 til vors 2007.

Við þyrftum að hafa formlegan vettvang og hefð fyrir því hvernig við komum pólitískri ábyrgð á hendur ráðherrum, hvort sem um væri að ræða óformlega eða formlega gagnrýni, þ.e. tiltal, ávítur eða með alvarlegri hætti. Varðandi það hvernig við gætum tekið slíkt upp vísa ég í ræðu mína í síðustu viku varðandi skýrslu þingmannanefndarinnar og einnig í ágæta grein Ragnhildar Helgadóttur, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um pólitíska ábyrgð og þingræði sem birtist í Tímariti lögfræðinga haustið 2009. Þann vettvang höfum við því miður ekki skapað enn sem komið er. Við höfum einungis ráðherraábyrgðarlögin og landsdóm að styðjast við ef við ekki náum saman um aðra hluti. (Gripið fram í.)

Í Morgunblaðinu 15. september sl. er haft eftir Róbert R. Spanó, prófessor og forseta lagadeildar HÍ, þar sem hann ber saman danska ríkisréttarkerfið og landsdóm, með leyfi forseta:

„Þessi niðurstaða er skýr vísbending um að ekki sé ástæða til að ætla að okkar landsdómskerfi brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð.“

Einnig hefur það komið ágætlega fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni, formanni þingmannanefndarinnar, að í undirbúningsvinnu nefndarinnar hefðum við komist að þeirri niðurstöðu að ráðherraábyrgðarlögin og landsdómslögin héldu vel og væru í fullu gildi.

Þingmannanefndin leggur til að farið verði í endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm. Hægt er að benda á þá endurskoðun sem nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndunum hafa farið í og valið ólíkar leiðir. Svíar lögðu sinn landsdóm af og eru ráðherrar dæmdir af almenna dómskerfinu, hugsanlega vegna þeirrar hefðar að fara aðrar leiðir sem á m.a. við um pólitíska ábyrgð. Minnumst tveggja dæma: Tveir ráðherrar síðustu ríkisstjórnar eða þarsíðustu í Svíþjóð sögðu af sér innan fárra vikna frá því að þeir tóku að sér ráðherradóm, annar vegna greiðslu svokallaðra svartra peninga til húshjálpar en hinn hafði ekki greitt afnotagjald af ríkisfjölmiðli á einhverju tímabili. Sjáum við fyrir okkur að eitthvað álíka hefði gerst hér? Danir og Norðmenn fóru hins vegar þá leið að festa í sessi landsdóm sinn, Rigsretten og Riksretten heita þeir, og bæta við fleiri ákæru- eða álitaefnum, eins og sannleiksgildi orða ráðherra í þinginu og fleiri atriðum. Þetta er m.a. það sem þingmannanefndin hefur bent á að þurfi endurskoðunar við á ráðherraábyrgðarlögunum. Í Danmörku og Noregi eru einnig til aðrar leiðir til að koma pólitískri ábyrgð á hendur ráðherrum án þess að kalla saman landsdóm eða fara í vantraustsyfirlýsingar sem er hin leiðin. Þannig þurfti danskur ráðherra að segja af sér til að létta pressu af ríkisstjórn vegna reiknings á servíettu fyrir einum vindlapakka. Hann gat ekki setið það af sér. Sæjum við það gerast hér?

Munum við halda áfram að karpa um mál næstu ár og áratugi án þess að finna leiðir til að ljúka pólitískum álitamálum með skilvirkum hætti? Ég býst við að við tökum þá umræðu síðar.

Staðreyndin er sú að við höfum ekkert val, það er engin sátt í samfélaginu um leiðir. Þá koma dómstólar til. Ef við þingmenn köllum ekki saman landsdóm við þessar aðstæður þá hvenær? Í ljósi hrunsins og skýrslu rannsóknarnefndar, þessara fordæmalausu aðstæðna og skýrslunnar, hvað þyrfti til ef ekki nú? Til hvers eru þessi lög? Eru þau tilgangslaus, hafa þau kannski alltaf verið það? Er það álit sumra þingmanna? Ef svo er eiga menn bara að segja það.

Í áðurnefndri viðtalsgrein í Morgunblaðinu 15. september segir Róbert R. Spanó prófessor, með leyfi forseta:

„Þingmenn verða að gegna stjórnskipulegri skyldu sinni og leggja efnislegt mat á fyrirliggjandi gögn og málsatvik í því kerfi sem nú er í gildi og fylgja þar sannfæringu sinni.“

Virðulegi forseti. Er þetta auðvelt? Er þetta auðvelt verkefni fyrir okkur þingmenn? Nei, því fer fjarri og það er staðreynd að smæð samfélagsins gerir slíka ákvörðun enn erfiðari. En við þurfum oft að taka erfiðar ákvarðanir. Er ekki erfitt að taka ákvarðanir hér um niðurskurð sem veldur þeim sem minnst mega sín í samfélaginu búsifjum? Er ekki erfitt að standa í niðurskurði, loka stofnunum, þannig að fólk missi atvinnuna? Við tökum oft erfiðar ákvarðanir.

Hver er valkosturinn ef við köllum ekki saman landsdóm, ef við látum ekki reyna á ráðherraábyrgð? Að það gildi engin ráðherraábyrgð? Eru það skilaboðin sem við ætlum að gefa? Ætlum við ekkert að læra af hruninu? Teljum við núverandi ríkisstjórn hafa lært nóg? Teljum við að vinnubrögðin séu öll breytt? Það er rétt að geta þess hér sérstaklega, virðulegi forseti, að þingmenn Framsóknarflokksins munu taka þessa ákvörðun hver fyrir sig og eiga við sína samvisku og sannfæringu um hvað sé réttast. Mín niðurstaða er að rétt sé að kalla saman landsdóm. Það er erfitt að fara yfir þann þröskuld að nauðsynlegt sé að láta á ráðherraábyrgð reyna með því að kalla saman landsdóm. Í ljósi hrunsins og skýrslu rannsóknarnefndarinnar taldi ég tilefni til þess ef — og nú kem ég inn á það sem bæði hv. þm. Atli Gíslason sem og hv. þm. Oddný Harðardóttir hafa farið yfir og ég sannfærðist sem sagt um í vinnu nefndarinnar — ráðherraábyrgðarlögin og lögin um landsdóm stæðust bæði stjórnarskrá og mannréttindi. Vinna okkar fólst í því að meta annars vegar huglægu þættina, saknæmisskilyrðin sem felast í viljaafstöðu ráðherra til hins ólögmæta atferlis, og hlutlægu skilyrði refsiábyrgðar hins vegar er lúta að hinu ólögmæta atferli sem ábyrgð varðar og eru þau nánar tilgreind í 8. gr. og 10. gr. í ráðherraábyrgðarlögunum eða eins og margsinnis hefur komið fram í 8. gr. c og 10. gr. b sem ákærðu er birt ákæra fyrir brot á í þingsályktunartillögunni.

Þegar maður hefur fullvissað sig um að öllum þessu lagalegu þáttum og skilyrðum sé fullnægt þarf maður næst að velta því fyrir sér hvort maður telji meiri líkur en minni, þ.e. 51% plús, á sakfellingu. Fyrr getur maður ekki tekið ákvörðun um hvort ákæra beri eður ei.

Þar sem ráðherraábyrgðarlögin taka til pólitískra embættisstarfa gæti og ætti, samkvæmt þeim sem lýst hafa þeim lögum og fjallað um þau bæði hérlendis og erlendis, við þær aðstæður að vera hægt ýmist að draga úr eða bæta við rökum. Í þessu máli, eins og ég hef margsagt, höfum við því miður ekki neinar aðrar úrlausnir, engar hefðir eða vilja til að leysa mál á annan hátt.

Niðurstaðan, eins og kom fram í framsögu hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns þingmannanefndarinnar, sl. föstudag og fram kemur í tillögu til þingsályktunar, þskj. 1502, er að við, hv. þm. Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, teljum að kalla beri landsdóm saman og birta ákæru fjórum fyrrverandi ráðherrum, fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra. Þetta er þungbær niðurstaða, þungbært og erfitt fyrir þá einstaklinga sem þurfa að sæta því. Nánari grein er gerð fyrir málinu í þingsályktunartillögunni og meðfylgjandi greinargerð sem ég býst við að allir hafi lesið og hvet ég þá sem á þetta hlýða til að skoða þau gögn.

Mig langar samt að nefna nokkur atriði um einstaka hluti. M.a. hefur verið fjallað talsvert um hvort ekki hefði verið ástæða til að birta fleiri ráðherrum ákæru. Þá ber þess að geta að menn þurfa að velta fyrir sér hvort um sé að ræða almennt gáleysi eða stórfellt gáleysi. Orð eins og „ásetningur“ hefur aðra þýðingu lagalega en við almenningur í landinu leggjum í það orð.

Það verður hins vegar að segjast að sérstaklega eftir 7. febrúar og auk þess má nefna 15. maí mátti öllum þessum ráðherrum vera ljóst — að undanskildum viðskiptaráðherra hugsanlega þar sem hann sat ekki þessa fundi og skrifaði ekki undir yfirlýsinguna — að það yrði að bregðast við með einum eða öðrum hætti, að lágmarki að taka málið upp á ríkisstjórnarfundi til umfjöllunar, það gæti hugsast að einhverjir aðrir ráðherrar kæmu með hugmyndir eða tillögur að lausnum.

Eins er nauðsynlegt og eiginlega ekki hægt að fara fram á annað í ljósi þeirra upplýsinga sem menn fengu en að þeir gerðu allt sem þeir mögulega gátu á næstu dögum, vikum og mánuðum til að átta sig á stöðunni. Ef það var svo sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis að menn tryðu ekki seðlabankastjóra af ýmsum orsökum, af því að hann væri fyrrverandi forsætisráðherra, af því að hann hefði dramatíserað hluti, hlýtur að vera skylda þessara ráðherra að leggjast í mat og greiningu á því hvort um væri að ræða ýkjur eða sannleik. Ég get ekki séð annað. Þess vegna hljótum við að krefjast þess að ráðherrar sem höfðu þessi mál á sinni könnu færu í einhverjar þær aðgerðir sem mögulegar voru.

Öll þau gögn sem við byggjum þessa umræðu á, bæði í síðustu viku og eins núna, eru frá rannsóknarnefndinni. Vinnubrögð eru ekkert ólík þeim sem viðhöfð eru í öðrum vestrænum ríkjum. Það sem hér hefur verið sagt annað er ekki satt. Við erum að vinna mjög sambærilega vinnu og rannsóknarskýrslan er meira að segja glæsileg. Rannsóknarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu og það er þess vegna sem við birtum ákæru á grundvelli 17. gr. stjórnarskrárinnar eða broti á henni, þ.e. 8. gr. c í ráðherraábyrgðarlögunum, með leyfi forseta:

„… að lítið hafi verið rætt í ríkisstjórn um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir lok sumars 2007 og ágerðist eftir því sem á leið. Hvorki verði séð af fundargerðum ríkisstjórnarinnar né frásögnum þeirra sem skýrslur gáfu fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þeir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem fóru með efnahagsmál (forsætisráðherra), bankamál (viðskiptaráðherra), eða fjármál ríkisins (fjármálaráðherra) hafi gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á efnahag og fjármál ríkisins frá því að þrengja tók að bönkunum og þar til bankakerfið riðaði til falls í október 2008. Á tímabilinu hafði þó birst neikvæð umfjöllun um bankana í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, íslenska krónan hafði veikst verulega auk þess sem skuldatryggingarálag bankanna fór hækkandi. Fullt tilefni var því til að ræða málefni bankanna ítarlega í ríkisstjórn.“

Við höfum líka rætt það alvarlegasta sem kemur fram í rannsóknarskýrslu Alþingis og við áteljum hvað harðast sem er skortur á mati og greiningu. Í rannsóknarskýrslunni, með leyfi forseta, vil ég vitna í 6. bindi:

„Samkvæmt svörum forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis við fyrirspurn rannsóknarnefndar Alþingis voru engar úttektir gerðar á árunum 2007 og 2008 fram að falli bankanna á vegum ráðuneytanna. Ekki var lagt mat á hugsanlega fjárhagslega áhættu íslenska ríkisins og ríkissjóðs vegna starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna hér á landi og erlendis, eða einstakra þátta í starfsemi þeirra, annars vegar með tilliti til umfangs starfseminnar í hlutfalli við stærð íslensks efnahagslífs og hins vegar breytinga á rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækjanna eða í ljósi breytinga sem þegar höfðu orðið, svo sem með stofnun innlánsreikninga erlendis.“

Rannsóknarnefnd Alþingis átelur að þetta hafi farist fyrir.

Ég ítreka að kallað var eftir einhverjum rökum um hvað hefði átt að gera og hvort ekki væri hægt að sýna fram á að skortur hefði verið á aðgerðum. Þá langar mig líka að lesa, með leyfi forseta, úr 6. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis:

„Í skýrslum forsvarsmanna bankanna fyrir rannsóknarnefnd kom fram að hvorki Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið né ráðherrar hefðu lagt fyrir formlegar tillögur um að draga úr stærð bankanna. Á hinn bóginn ýmist muna þeir ekki eða útiloka ekki að stjórnvöld hafi með almennum hætti lagt að þeim að draga úr útlánum og færa niður efnahagsreikning bankanna.“

Að lokum einnig úr 6. bindi, bls. 141, með leyfi forseta:

„Að framansögðu athuguðu telur rannsóknarnefnd Alþingis að mikið hafi skort á að unnið hafi verið að viðbúnaðarmálum ríkisins á skipulegan og vandaðan hátt. Rétt er þó að halda því til haga að nefndin telur ekki hægt að fullyrða að þótt vandað hefði verið betur til viðbúnaðarvinnu á árinu 2008 hefði verið hægt að bjarga íslensku bönkunum frá falli. Á hinn bóginn hefði vandaður undirbúningur verið til þess fallinn að draga mun meira úr því tjóni sem fall bankanna orsakaði. Íslensk stjórnvöld hefðu þá einnig verið í stakk búin til að móta sér fyrr stefnu um mörg af þeim álitaefnum sem taka þurfti af skarið um og því haft betri forsendur til að svara fyrirspurnum breskra og hollenskra stjórnvalda.“

Ég held að öllum sé ljóst sem lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að margt fór úrskeiðis og að hægt sé að fullyrða að ráðherrum mætti vera ljóst að þeir ættu að bregðast við með einhverjum hætti til að gera allt það sem þeir gætu til að forðast tjón eða minnka tjón. Því miður staðfestir rannsóknarskýrslan, m.a. það sem ég las áður, virðulegi forseti, að ákaflega litlar efndir voru á fjölmörgu.

Umræðan síðustu daga frá því að málið var flutt á föstudag hefur verið sérkennileg og þinginu ekki til mikillar virðingar. Umræðan hér og í fjölmiðlum hefur verið svolítið sérkennileg. Mér finnst alla vega sérkennilegur málflutningur þeirra þingmanna sem telja — sérstaklega í ljósi þess hvernig umræðan var um þingmannaskýrsluna fyrr í síðustu viku þar sem hún var talin vera ákaflega fagleg og menn lýstu yfir mikilli ánægju með þau vinnubrögð sem þar höfðu verið viðhöfð — þegar við komum að þessu máli að við séum ófagleg, undirbúningur okkar hafi verið ómálefnalegur og illa að verki staðið. Mér finnst það sérkennilegur málflutningur.

Sú umræða er líka sérkennileg sem hefur heyrst innan þings, í fjölmiðlum og víðar að nú eigi að vísa málinu til allsherjarnefndar milli fyrri og síðari umræðu. Ég lít svo á að þetta sé fullkomin vantraustsyfirlýsing á þingmannanefndina og reyndar á Alþingi ef menn treysta sér ekki til að fara að hefðbundnum þingsköpum. Ef við treystum okkur ekki til að klára málið hér inni með atkvæðagreiðslu — það er ekkert að því að einstakir þingmenn telji að ráðherraábyrgðarlögin eigi ekki við og eigi jafnvel aldrei við, þeir eiga þá bara að segja það og greiða atkvæði gegn þessari þingsályktunartillögu. En það gengur ekki að fara að þvæla málinu og svæfa í Alþingi. Samviska og sannfæring hvers og eins verður að koma fram. Það liggja nægileg gögn fyrir. Ef menn telja á grundvelli þeirra gagna að þeir geti ekki greitt þingsályktunartillögunni atkvæði sitt þá greiða þeir atkvæði gegn henni. En að fara að stoppa mál og þvæla þeim fram og til baka eru vinnubrögð sem mér finnst ekki sæma Alþingi. Ég hvet þingmenn til að standa saman, taka þessa málefnalegu umræðu sem þarf að taka, gæta orða sinna og klára málið. Við eigum að geta það.