138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt fyrst að mér hefði misheyrst þegar mér heyrðist í ræðu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar að ástæðan fyrir því að hann styddi ákærur í sakamáli á hendur þessum ráðherrum væri sú að það hefði ekki verið hægt að ná samstöðu í þingmannanefndinni um að skamma þá nógu mikið. Er það málið? Er það málefnalegt sjónarmið af hálfu hv. þingmanns til að komast að þeirri niðurstöðu að það beri að ákæra í refsimáli?

Við verðum að hafa í huga að ábyrgð ráðherra er tvíþætt: Annars vegar er um að ræða pólitíska ábyrgð, hins vegar refsiábyrgð. Hér ræðum við refsiábyrgðina. Við erum ekki að ræða hvort okkur finnist einhver hegðun tiltölulega skaðleg, ámælisverð eða eitthvað þess háttar. Við tölum hér um hvort eigi að ákæra í refsimáli. Þetta verðum við að hafa í huga. Þau sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir eru fullkomlega ómálefnaleg sjónarmið til að komast að niðurstöðu í því máli.