138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlýddi af athygli á ræðu hv. þingmanns og ég heyrði það oftar en einu sinni í máli hans, bæði í ræðunni og í andsvari við hv. þm. Pétur H. Blöndal, að hann teldi að ekki hefði verið ástæða til þess að ákæra, ég gat ekki skilið hann öðruvísi, ef niðurstaða samráðs innan þingmannanefndarinnar hefði verið öðruvísi varðandi það hvernig menn vildu fordæma verk fyrrverandi ráðherra.

Ég heyrði ekki betur en að hv. þingmaður byggði sjónarmið sitt, a.m.k. að miklu leyti, á því sjónarmiði. Ég verð að segja að það eina sem skiptir okkur máli í þessu — af því að við erum í því hlutverki hvort sem okkur líkar það betur verr að þurfa að taka afstöðu til þess hvort ákæra beri eða ekki, við erum með ákæruvaldið í þessu máli — að hugsa þetta út frá þeim sjónarmiðum sem ákærandinn mundi gera í þeim sporum og þar er grundvallaratriðið og meginreglan, bæði lögfest (Forseti hringir.) og ólögfest, að það á ekki að ákæra nema menn telji meiri líkur en minni á (Forseti hringir.) sakfellingu.