138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleðst nú yfir því að við hv. þm. Birgir Ármannsson erum sammála um þau meginatriði að það sé grundvallaratriði að þau lagalegu skilyrði séu fyrir hendi og að líkindin séu meiri en minni. Það er forsenda þess að farið sé af stað með slíkt dómsmál.

Ég sagði hins vegar í ræðu minni og hefur talsvert verið rætt um það að þingmannanefndin hafi verið eins konar sannleiksnefnd og að komið hafi fram einhver niðurstaða af störfum hennar sem væri samhljóða og sem allir væru sammála um og sem eining væri um í samfélaginu, ef það hefði tekist yrði ekki um nein frekari eftirmál að ræða. Ég held reyndar að það hafi aldrei verið rætt með þeim hætti í þinginu þegar þingmannanefndin var sett á laggirnar en ég reyndi að tala fyrir því að ef meiri sátt væri í samfélaginu mundum við geta forðast að sækja og ákæra (Forseti hringir.) fólk í tíma og ótíma. Ég tek undir með þeim sem talað hafa á þeim nótum að það skili okkur ekki neinu (Forseti hringir.) til framtíðar.