138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:53]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst umræðan vera farin að snúast að miklu leyti um einhverja óþarfaviðkvæmni í þingmannanefndinni sem ég ætla nú ekki að fara að kasta rýrð á, hún vann ágætisstarf. Ég tek undir það sem fram hefur komið í andsvörum félaga minna hér við ræðu hv. þingmanns, það er mjög sérkennilegt að segja að vegna þess að sjálfstæðismenn í nefndinni hafi ekki getað tekið nógu sterkt til orða hafi þingmaðurinn sem hér talaði, þurft að standa að ákæru. Í fyrsta lagi byrjaði hv. þingmaður að tala um karp og vísaði í að hv. þm. Ólöf Nordal hefði ekki getað tekið undir með niðurstöðum þingmanna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni. Ég verð að vísa þessu alfarið á bug vegna þess að hv. þm. Ólöf Nordal tók einmitt undir niðurstöður fulltrúa Sjálfstæðisflokksins oftar en einu sinni (Forseti hringir.) í ræðu sinni. Mig langar að fara aðeins í orð hv. þingmanns varðandi (Forseti hringir.) það ef málið færi til allsherjarnefndar, að það yrði þá til þess fallið að svæfa (Forseti hringir.) það. Ég bið um útskýringu á því.