138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:59]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir því áðan að trúnaði yrði aflétt af þeim gögnum sem lögð voru fram hér á föstudaginn og varða þau mál sem nú eru til umfjöllunar. Ég tek undir þessa ósk hv. þingmanns og óska eftir því að forusta þingsins taki þetta mál til umfjöllunar í hádegishléi vegna þess að það er afar mikilvægt fyrir okkur og fyrir þá sem eru að fylgjast með þessari umræðu að opinbert verði hvað er í þessum gögnum. Það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn sem ætlum að taka þátt í umræðunni að geta vísað til þessara gagna vegna þess að þar koma mjög skýr skilaboð frá sérfræðingum sem eru þess eðlis að það er ráðlagt gegn því að ráðist verði í ákærur og bent á það (Forseti hringir.) að sú málsmeðferð sem lagt er til að farin verði í þessu máli uppfylli ekki meginreglur sakamálaréttarfars og mannréttindareglna (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að forusta þingsins taki þetta mál til umfjöllunar núna í hádegishléi.