138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:00]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar til að benda þeim sem vilja fara ítarlega ofan í það hvernig nefndin vann á að hlusta á mjög góðar ræður hv. þm. Atla Gíslasonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar þar sem vel er farið yfir það.

Í dag ræðum við um ábyrgð. Þegar maður les skýrslu rannsóknarnefndarinnar er ljóst að enginn gengst við ábyrgð. Farið er í hinn margfræga leik: Hver stal kökunni úr krúsinni í gær? Og ábyrgðinni er velt á aðra. Enginn er maður að meiri og viðurkennir mistök sín og axlar þá ábyrgð sem þeim fylgja.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég ber ákaflega litla virðingu fyrir fólki sem getur ekki gengist við ábyrgð á mistökum sínum og minnsta virðingu ber ég fyrir fólki sem varpar henni yfir á aðra í von um að sleppa og að athyglin beinist að einhverju öðru. Ég ber aftur á móti mikla virðingu fyrir fólki sem gengst við mistökum sínum, iðrast og einsetur sér að læra af þeim. Það fer ekki mikið fyrir slíku fólki hér innan dyra, fyrr og nú.

Frú forseti. Í íslenskri stjórnmálahefð er þetta viðtekin venja og það eru ekki margir þingmenn eða ráðherrar sem hafa stigið hér í pontu og viðurkennt æpandi mistök í gegnum árin og vikið af þingi í kjölfarið. Enginn hefur stigið hér í pontu og gengist við ábyrgð á aðgerðaleysinu í aðdraganda bankahrunsins, enginn. Því miður er ljóst að afleiðingar hrunsins eru sviðin jörð hjá þúsundum Íslendinga sem höfðu ekki aðgang að sömu upplýsingum og ráðherrar og þingmenn sem áttu aðild að þeirri ríkisstjórn sem hrakin var frá völdum með búsáhaldabyltingunni. Ein afleiðing hrunsins birtist í þeirri ömurlegu staðreynd að í næsta mánuði munu mörg hundruð fjölskyldur missa heimili sín vegna mistaka, vanrækslu og gáleysis ráðamanna sem hér hefur verið fjallað um í dag.

Frú forseti. Nú þegar hafa ansi mörg stór orð verið látin falla. Ég hef, ásamt fleiri þingmönnum úr þingmannanefndinni, m.a. verið vænd um að vera blóðþyrst út af því að við viljum láta kalla saman landsdóm til að taka til umfjöllunar ákæru á hendur fjórum ráðherrum. Við skulum aðeins setja hlutina í samhengi.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru þeir aðilar sem við leggjum til að verði kallaðir fyrir landsdóm ábyrgir vegna aðgerðaleysis og vítaverðs gáleysis. Væri það ekki vítavert gáleysi að gera ekki neitt og bregðast ekki við þeim áfellisdómi sem skýrslan er með sanni? Ég upplifi það ekki sem einhvern sérstakan hefndarþorsta eða blóðþorsta að vilja lúta leiðsögn þeirrar skýrslu sem svo mikið hefur verið mærð hér í þingsölum sem tímamótaskýrsla sem okkur beri að læra af. Við getum ekki bara sleppt því sem er óþægilegt og snýr að ábyrgð ráðherranna.

Frú forseti. Ég vil ekki kalla saman landsdóm til að friðþægja almenning, eins og einn hæstv. ráðherra lét nýverið hafa eftir sér. Ég vil aftur á móti kalla saman landsdóm vegna þess að mér ber að gera það vegna þeirra starfsskyldna sem okkur voru settar í þingmannanefndinni, vegna samvisku minnar og út frá þeim ótal fundum sem við sátum með sérfræðingum á þessu sviði sem tóku undir það lagalega mat um ráðherraábyrgð sem fólst í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Í ljósi þess að enginn hefur sýnt iðrun eða vilja til að breyta þeim ónýtu hefðum sem tíðkast með oddvitaræði og vanvirðingu fyrir heilbrigðri skynsemi, eins og að halda almennilegar fundargerðir á efstu stigum stjórnsýslunnar og að halda fundi um mikilvæg mál, finnst mér mikilvægt að við þingmenn sýnum í verki að það verklag er ekki boðlegt lengur og við séum meðvituð um hve skaðlegt það er velferð landsmanna. Við erum að kljást við skaðann af slíkum vinnubrögðum og það að engar afleiðingar hafa orðið. Meira að segja er iðrunarleysið svo stórfellt að töluverður hluti fyrrverandi ríkisstjórnar situr enn á þingi, bæði sem óbreyttir þingmenn og í æðstu stöðum í ráðuneytum.

Að draga þennan og hinn fyrir landsdóm, frú forseti, er orðalag sem heyrist mikið hér inni og endurvarpast í fjölmiðlum. Það tala margir um að það sé erfitt að senda vini sína hugsanlega í fangelsi og upp er dregin mynd sem á sér enga stoð í veruleikanum. Það vita það allir að hámarksrefsing sem landsdómur getur dæmt menn til er tveggja ára fangelsisdómur en þó er ólíklegt að einhver muni sæta hámarksrefsingu. Ef ráðherrarnir fyrrverandi verða sakfelldir er næsta ljóst að þeir munu sennilega aðeins þurfa að sæta refsingu sem inniheldur skilorð eða fjársekt. Í þessu samhengi langar mig að benda á að ein af þeim sem dæma á úr hópi þeirra sem leyfðu sér að mótmæla vanhæfri ríkisstjórn á hinum háhelgu áheyrendapöllum verður í orðsins fyllstu merkingu dregin fyrir dóm 1. desember þrátt fyrir að eiga von á barni á sama tíma. Ekkert tillit er tekið til hennar í þeim pólitísku ofsóknum sem eiga sér stað gagnvart þeim sem nóg var boðið vegna vanmáttar ráðamanna til að axla ábyrgð og segja af sér á sínum tíma þrátt fyrir að öllum hafi verið ljóst að sú ríkisstjórn sem hér réði ríkjum var með öllu vanhæf og hafði sýnt af sér vítavert gáleysi.

Þau sem ákærð eru fyrir árás á Alþingi eru ákærð út frá 100. grein þar sem hámarksrefsing er hvorki meira né minna en lífstíðarfangelsi. Ef maður ber saman þessi tvö mál verður maður að draga í efa hvort við með sanni búum í alvöru réttarríki, sér í lagi ef þingið mun ekki hafa dug í sér til að afgreiða þessar þingsályktunartillögur með því sniði sem lagt var upp með.

Frú forseti. Það var með sanni ekki hægt að koma í veg fyrir hrunið árið 2007 en það var hægt að minnka hve stórfellt það varð með eðlilegum stjórnsýslulegum aðgerðum sem raktar eru í greinargerð þingsályktunartillögu þeirrar sem við fjöllum um í dag. Það er mikilvægt að muna að ef við setjum ekki skýr mörk um það hvar ábyrgðin liggur fyrir þá sem sitja á valdastólum nú og í framtíðinni, að við höfum engan vilja til að læra af fortíðinni, þá er í raun hægt að segja að lofið á aðra vinnu þingmannanefndarinnar sé byggt á innantómum orðum sem ættu betur heima í 17. júní ræðum eða kosningaherferðum. Við þurfum að tryggja að við endurtökum ekki mistök fortíðar sem hefur byggst á oddvitaræði, valdaráni, brotum á ráðherraábyrgðarkeðjunni og því að fólk firri sig ábyrgð með því að benda á aðra.

Frú forseti. Af hverju eru ekki þeir sem bera mesta ábyrgð á hinu algjöra hruni alls sem fólk treysti á látnir sæta ábyrgð? Til hvers að kalla saman landsdóm ef þeir verða ekki látnir sæta ábyrgð? Er ekki verið að hengja bakara fyrir smið? Þetta ómar gjarnan, bæði í þingsal og úti í samfélaginu.

Auðvitað væri best ef við hefðum þannig lög að ráðherraábyrgð fyrntist ekki á aðeins þremur árum, en þau rök að ekki sé forsenda til að kalla það fólk til ábyrgðar sem ber ekki jafnmikla ábyrgð á hruninu og afleiðingum þess og aðrir er auðvitað alger rökleysa. Það mætti bera þetta saman við það að ef tvær manneskjur tækju þátt í þjófnaði og önnur stæli fimm milljónum og hin fjórum, væri þá ekki forsenda til að láta þá sem minna stal sæta ábyrgð ef sú sem meiru stal slyppi?

Frú forseti. Mikil harmakvein heyrast víða um að lögin um landsdóm séu úr sér gengin, forngripur sem lítið mark sé á takandi, risaeðla í lögfræðilegu tilliti og marklaus vegna hrumleika. Vil ég benda á að þessi lög eru óvenjuvel úr garði gerð miðað við háan aldur, sem þó er ekki hærri en 50 ár, og þau eru þó nokkuð yngri en flest það sem finna má í stjórnarskránni okkar og ef fólk getur ekki fellt sig við gömul lög þá skulum við bara hætta að fylgja öllum lögum sem eru eldri en 50 ára, þar á meðal megninu af stjórnarskránni. Eigum við ekki bara að taka þetta alla leið, eða hvað?

Frú forseti. Þúsundir hafa flúið land, þúsundir hafa misst vonina, þúsundir þurfa að velja á milli þess að borga af stökkbreyttum lánum eða að geta brauðfætt fjölskyldu sína. Tugþúsundir hafa glatað öllu trausti á valdastofnanir þessa lands, sér í lagi Alþingi. Það er með sanni hálfömurlegt að eyða dýrmætum tíma í þessi ræðuhöld á meðan mikil ólga er í samfélaginu út af því sem margir upplifa sem sérpantaðan dóm í Hæstarétti. Það verður samt ekki undan því komist að fjalla um málið og hvet ég samþingmenn mína til að hafa hugrekki til að láta ályktunina hafa sinn gang án klækja eða tilrauna til að eyðileggja málið. Ég leyfi mér að trúa því að hv. þingmenn búi yfir nægilega miklu hugrekki til að kjósa um þessar ályktanir í stað þess að hindra að þær fái eðlilega þinglega meðferð.

Frú forseti. Mikið er talað um virðingu þingsins. Ég leyfi mér að spyrja þingmenn, háttvirta sem hæstvirta, hvort það sé til þess fallið að auka virðingu þingsins að hér situr í valdamestu stólum hins háa Alþingis fólk sem átti aðild að ríkisstjórn þeirri sem fékk áfellisdóm í skýrslu rannsóknarnefndar. Hvernig er hægt að firra sig ábyrgð á þeim hörmungum sem þessi þjóð þarf að þola um ókomna tíð og ekkert sér fyrir endann á? Ætlar enginn að gangast við þeirri ábyrgð? Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur virði þetta svokallaða réttarríki ef það á bara við um suma? Það er skylda þingsins að sýna gott fordæmi og skora ég á þingmenn að fylgja þeim drengskapareið sem þeir sóru þegar þeir háttvirtir tóku við embætti sínu. Ég skora á þá að hlusta á samvisku sína og hjarta og beita sig vægðarlausum heiðarleika um hver heill þessa samfélags er ef enginn mun sæta ábyrgð.