138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt að nefna þetta atriði sem ég nefndi hér um álit sérfræðinganna vegna þess að forsvarsmenn þingmannanefndarinnar hafa skákað í skjóli sérfræðiráðgjafar. Núna liggur fyrir að tveir mikilsvirtir sérfræðingar sem nefndin leitaði til töldu í fyrsta lagi að þessi málsmeðferð stríddi gegn lágmarkskröfum gildandi laga og mannréttindasáttmála um réttaröryggi sakborninga á rannsóknarstigi og hins vegar kom annar sérfræðingur og mæltist til þess að ekki yrðu gefnar út ákærur. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir.

En mig langar líka til þess að spyrja hv. þingmann einnar samviskuspurningar af því að hún hóf ræðu sína á því að tala um ábyrgð. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Verði þessar ákærur gefnar út en málinu vísað frá eða leiði málatilbúnaður til sýknu, (Forseti hringir.) hvernig ætlar hv. þingmaður að axla sína eigin ábyrgð á því að standa að þeim ákærum? (Forseti hringir.) Og hvernig telur hún að aðrir sem henni eru sammála eigi að axla ábyrgð á þeim gjörðum sínum?