138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að bera af mér sakir um það að við höfum verið með einhverja klækjapólitík varðandi nefndirnar. Við ákváðum að fara í samstarf við meiri hlutann upp á að geta valið um þær nefndir sem við vildum. (PHB: Pólitískir klækir.) Pólitískir klækir? Við vissum bara ekki að það væri einhver hefð, við vorum hreinlega algjörir græningjar og vorum ekki meðvituð um að það væri engin hefð fyrir því að fara í samstarf við meiri hluta. Við höfum alltaf viljað vinna út frá málefnum en ekki eftir minni eða meiri hluta svo því sé haldið til haga. Í því er uppreisnin að fylgja ekki hefðunum heldur breyta hlutunum til vonandi betri vegar.

Nú man ég ekki hvað hitt var sem hv. þingmaður … (PHB: Leynigögnin.) Já, leynigögnin, einmitt leynigögnin. Það vill svo til með þessi ágætu leynigögn, sem eru nú ekki mikið í leyni, að við lögðum fram og sendum bréf til formanns nefndar og allra nefndarmanna þar sem við lögðum til að almenningur fengi aðgengi að þessu ef sérfræðingarnir, sem var lofað trúnaði, mundu veita því leyfi.