138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þær væntingar sem Borgarahreyfingin, sem seinna hét Hreyfingin, olli mér var það að hún skipti líka um kennitölu, hún skipti um nafn. (BirgJ: Hvað …?) Nei, ég er bara að segja það hvernig þið valdið mér vonbrigðum aftur og aftur. (BirgJ: Æ, en gott.) Nei, það er ekki gott af því ég bar ákveðnar væntingar til ykkar.

En varðandi þessi gögn. Í síðustu viku sagði hv. þingmaður að nefndin hefði sett sér þær reglur að upplýsa ekki um gögnin og hún stóð við það. Nú er hún búin að lúta flokksaga og hefur ákveðið að birta þessi gögn. (Gripið fram í.) Ég vil því spyrja hvort hún standi ekki með okkur hinum um að fá upplýsingar um gögnin sem eru geymd þarna þannig að við getum raunverulega fundið út hvað þessir sérfræðingar sögðu. Ég er búin að lesa þessi gögn, velflest, í leyni en ég má ekki vitna í þau.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hún er svo manneskjuleg og er það raunverulega og hlý, hvort fyrrverandi ráðherrar séu ekki fólk.