138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör svo langt sem þau ná. Það er auðvitað rétt að rannsóknarskýrslan hefur legið fyrir frá því í vor. Þar er ekki að finna svör við þeirri spurningu hvort ákæra skuli í þessu máli, það er það ekki. Það er líka rétt að fram hafa komið og þingmenn hafa um helgina haft aðgang að ákveðnum gögnum sem þingmannanefndin hafði undir höndum, það er ágætt svo langt sem það nær. Ég vek hins vegar athygli á því að það er eins og að engin gögn hafi verið lögð fram um þetta efni í nefndinni frá 15. júní. Ég velti fyrir mér hvort öll samskipti hafi verið munnleg eftir það. Þá velti ég fyrir mér fyrst hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og aðrir þingmenn sem standa að ákærutillögunum leggja jafnmikið upp úr munnlegum álitum þeirra sérfræðinga sem vitnað er til — það hefur verið gert ítrekað í ræðum. Þunginn hefur verið á því að sérfræðingarnir hafa sagt hitt og þetta og að svo og svo margir sérfræðingar hafi sagt hitt og þetta: Er með einhverjum hætti (Forseti hringir.) hægt að leiða fram sjónarmið þessara sérfræðinga opinberlega? Eru til fundargerðir sem geta varpað ljósi á þetta? Eða er einfaldlega (Forseti hringir.) hægt að tryggja það að þessir sérfræðingar komi þá fyrir nefnd fyrir opnum tjöldum milli 1. (Forseti hringir.) og 2. umr. þessa máls til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum?