138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir hennar hlut að því að búa til þá skýrslu sem við ræddum í síðustu viku. Mér finnst það mjög gott mál. Hins vegar er ég ekki sáttur við þetta sem hún segir hér vegna þess að rannsóknarnefndin sem hún vitnar í aftur og aftur, og sérfræðingarnir gerðu líka, er ekki nothæf. Þann vitnisburð sem menn gáfu þar veittu þeir án þess að vera tilkynnt um að þeir hefðu stöðu grunaðs manns. Þar af leiðandi er allur sá vitnisburður ónýtur til þess að ákæra fólk.

Ég spyr hv. þingmann hvort hún hafi kannað sérstaklega hvers vegna ríkisstjórnarfundir voru ekki haldnir. Spurði hún hæstv. forsætisráðherra hvers vegna fundir voru ekki haldnir? Þá kannski hefði komið eitthvað í ljós — en ég hef reyndar grun um að það hafi verið vegna lausmælgi. Spurði hv. þingmaður hvort ráðherrar hefðu ekki gert neitt? Gerðu þeir akkúrat ekki neitt? Spurði hann hvað þeir gerðu yfirleitt á þessum tíma? Spurði hann sjálfa ráðherrana í nefndinni hvort þeir hefðu bara setið og farið upp í sumarbústað og ekki gert neitt?

Þá spyr ég enn fremur: Kannaði hv. þingmaður í nefndinni hvers vegna Icesave var ekki flutt? Spurði hann viðkomandi ráðherra að því eða aðstoðarmenn þeirra? Eða kannaði hann þetta eitthvað sjálfur? Rannsakaði hann málið ekki neitt til að ákæra?

Það er nefnilega þannig að einn af þessum fjórum af fimm sérfræðingum sem leggur til að verði ákært getur þess í byrjun bréfs síns — nú má ekki einu sinni nefna hver það er, frú forseti — að það þurfi að rannsaka málið. Hann byrjar á því. Svo segir hann: Við skulum ákæra. Alveg ótrúlegt.

Tamílamálið var nefnt, nei, ég kemst ekki í það.