138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[15:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega framsögu sem ég hef beðið með nokkurri óþreyju þar sem það liggja bara fyrir tvær þingsályktunartillögur þó svo að þingmannanefndin hafi klofnað í þrennt. Það þýðir með öðrum orðum að ég sem almennur þingmaður sem ekki hefur setið fundi þingmannanefndarinnar og hlustað á alla sérfræðinga sem hún hefur kallað til, á erfitt með að meta þær tvær þingsályktunartillögur sem gera tillögur um að Alþingi ákæri 3–4 ráðherra. Það setur mig í ákveðinn vanda þar sem ég hef á tilfinningunni að ég hafi aðeins fengið annað sjónarhornið. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvers vegna hún hafi ekki lagt fram þingsályktunartillögu þar sem öll rök hennar fyrir því að hún geti ekki verið með á þingsályktunartillögu meiri hlutans koma fram. Sem sagt, hvers vegna liggur ekki frammi þingsályktunartillaga frá hv. þingmanni þar sem fram koma rök gegn þingsályktunartillögu meiri hluta þingmannanefndarinnar?