138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína og töluverða furðu hversu mikla áherslu hv. þingmaður lagði á það að hún væri sannfærð um að lögin, þ.e. þær reglur sem gilda um réttarfar samkvæmt landsdómslögum, stæðust mannréttindareglur sem í gildi eru og meginreglur sakamálaréttarfarsins. Það kom mér á óvart hversu sannfærð hv. þingmaður var um þetta í ljósi þess að ekki minni menn en formaður Lögmannafélags Íslands, formaður Lögfræðingafélags Íslands, sérfræðingur í refsirétti við Háskólann í Reykjavík og tveir af þeim sérfræðingum sem nefndin kallaði til ráðgjafar við sig hafa lýst annarri skoðun. Annar þeirra lýsti því yfir í gögnum sem liggja fyrir að hann teldi að réttarfar landsdómslaganna uppfyllti ekki lágmarkskröfur gildandi laga og mannréttindasáttmála a.m.k. hvað varðar réttaröryggi sakborninga á rannsóknarstigi máls. Annar sérfræðingur sem nefndin leitaði einnig til lýsti þeirri skoðun sinni að hann hefði mjög miklar athugasemdir eða efasemdir um réttmæti þess að sækja ráðherrana til saka með þeim hætti sem lagt er til að hér verði gert.

Í ljósi þess og í ljósi allra þessara athugasemda frá málsmetandi mönnum á sviði réttarfars- og refsiréttar hlýt ég að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi aldrei velkst í vafa um það að sú málsmeðferð sem hér er lagt upp með brjóti að einhverju leyti í bága við þessar meginreglur sem við viljum starfa eftir (Forseti hringir.) og hvers vegna hún hafi ekki lagt til að það fólk sem hér um ræðir hafi verið (Forseti hringir.) kallað fyrir nefndina til skýrslugjafar áður en ákvörðun (Forseti hringir.) var tekin um að leggja til að þau yrðu ákærð.