138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni var þetta það sem við vorum fyrst og fremst að fást við á fjölda funda áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom fram. Þá vorum við að skoða lögin um landsdóm, við vorum að skoða lögin um ráðherraábyrgð og lögin um okkur út frá því hvernig við mættum starfa. Það má segja að í þeirri umræðu enduðum við nánast í hring. Fyrst veltum við því einmitt fyrir okkur hvort við ættum að kalla þá ráðherra sem við vorum þá að íhuga, sem við vissum samt ekki þá hverjir hugsanlega kæmu þar til greina, fyrir nefndina og komumst að þeirri niðurstöðu að vegna þess að það væri svo mikilvægt að tryggja mannréttindi viðkomandi gætum við ekki séð að það væri hægt með því að kalla viðkomandi fyrir nefndina. Í öðru lagi að allt sem kæmi fram á þeim fundum væri eitthvað sem við gætum í raun og veru ekki notað til að taka afstöðu.

Síðan hef ég einmitt sérstaklega skoðað bæði þennan dóm, dóminn fyrir ríkisrétti sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði að taka fyrir, og svo hef ég líka lesið fjölda greina, þar á meðal eftir Róbert Spanó, Eirík Tómasson og Andra Árnason þar sem þeir fjalla um landsdómslögin og ráðherraábyrgðarlögin. Á grundvelli þess sannfærðist ég um að lögin sem við værum að vinna eftir uppfylltu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og að það væri mjög mikilvægt, ef það væri minnsti efi hvað það varðar, að við færum ekki að brjóta mannréttindi á fólki með því að breyta lögunum eftir á og jafnvel að stuðla að afturvirkni laga eða hanna lögin í kringum einhverja einstaklinga sem við ætluðum okkur að ákæra. Þetta eru lögin, þau voru í gildi þegar þessi væntanlegu brot voru framin og það eru þau sem við eigum að vinna eftir.