138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alla vega sagt það fyrir mig að ég mundi a.m.k. hugsa mig tvisvar um áður en ég tæki ákvörðun um að ákæra ef fram hefðu komið efasemdir frá málsmetandi fólki, fagfólki á sviði lögfræði, eins og formanni Lögmannafélags Íslands, formanni Lögfræðingafélags Íslands, sérfræðingum við háskóla og fleiri fræðimönnum á þessu sviði með yfirlýsingum í þá átt að þetta væri hugsanlega allt saman á mjög veikum grunni byggt. Ég mundi ekki sannfærast, ég get sagt það fyrir mig, ég mundi telja að það væri a.m.k. uppi málefnalegur vafi á því að þessi málatilbúnaður stæðist allur.

Hv. þingmaður verður auðvitað að hafa sína hentisemi með þessi atriði en það er annað atriði sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í. Það liggur fyrir að eitt af kæruatriðunum gegn fyrrverandi hæstv. ráðherrum er að hafa ekki fylgt eftir og fullvissað sig um að unnið væri eftir virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag. Nú er það svo að Íslendingar hafa í deilum sínum við Breta og Hollendinga staðfastlega haldið því fram að íslenska ríkið beri ekki skyldur að lögum gagnvart Icesave-reikningunum og þeim kröfum sem Bretar og Hollendingar gera á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Er ekki þversögn fólgin í því annars vegar að halda þessu fram og hins vegar að leggja til að ráðherrar í ríkisstjórn verði ákærðir fyrir að bregðast þessum (Forseti hringir.) „skyldum“ sem íslenska samninganefndin hefur þráfaldlega haldið fram (Forseti hringir.) að íslenska ríkið beri ekki?