138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er búin að svara því afdráttarlaust viðvíkjandi fyrrverandi utanríkisráðherra og er sammála niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að því leyti að ekki sé tilefni til ákæru, aðeins sé hægt að stefna fyrir landsdóm á grundvelli embættisbrota eins og ég sagði áðan. Eins og lesa má kannski úr mínu máli hef ég líka miklar efasemdir varðandi aðra ráðherra. Ég hef vissulega miklar efasemdir um að rétt sé að ákæra þá ráðherra sem þingmaðurinn nefndi og þar hef ég borið við ákvæðum ráðherraábyrgðarlaganna um kærurnar, að þær eru byggðar á afar matskenndum heimildum. Sú staðreynd blasir við að umræddir ráðherrar gátu ekki á þeim tíma komið í veg fyrir hrun fjármálakerfisins.

Ég áskil mér rétt til að skoða málið til enda eins og aðrir en ég dreg ekki dul á að í mínum huga hef ég líka miklar efasemdir varðandi þessa þrjá ráðherra.