138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þetta svar. Mig langar þá að vinda máli mínu að öðru. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir að eitt væri slæmt við form málsins, þ.e. fyrningarreglurnar. Þær drægju strik fyrir þremur árum hvað ábyrgðina snerti. Þess vegna væri ekki hægt að halda þeim ábyrgum sem voru hér við völd fyrir lok fyrningarfrestsins.

Hæstv. ráðherra hefur fært rök fyrir því að saknæmisskilyrðum laganna sé ekki mætt. Hún gerir athugasemdir við svo margt í réttarfarinu að maður hlýtur að spyrja: Gildir þá ekki hið sama um þá ráðherra sem hún horfir sérstaklega til fyrir árið 2006? Höfum við ekki í raun og veru gert upp tímann fyrir það tímabil sem hér er verið að ræða með rannsóknarskýrslunni sjálfri? Er hún ekki stóra uppgjörið við þann tíma sem hæstv. forsætisráðherra horfir sérstaklega til?