138. löggjafarþing — 163. fundur,  20. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á að við búum við þessa lagaumgjörð. Það var vitað, það kom fram í greinargerð með breytingartillögunum sem voru sett fram við lögin á sínum tíma, hvert verkefni nefndarinnar væri. Það kom fram í nefndarálitum allsherjarnefndar, allir flokkar stóðu að því og engum duldist hugur um að verkefni nefndarinnar væri m.a. að leggja mat á ráðherraábyrgðina í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra að öðru sem mér fannst mega túlka úr orðum hennar. Var forsætisráðherra að boða að málinu lyki ekki á yfirstandandi þingi eins og lögin gera ráð fyrir? Í þeim er gert ráð fyrir að nefndin skili af sér og málið klárist á yfirstandandi þingi. Mér fannst forsætisráðherra gefa undir fótinn með að ekki væri sjálfgefið að málið kláraðist á yfirstandandi þingi.