138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um málshöfðun gegn fjórum fyrrverandi ráðherrum. Tillaga um ákæru á hendur ráðherrum vegna embættisfærslna þeirra hefur aldrei áður legið fyrir Alþingi enda þótt upphafleg lög um efnið séu nú orðin rúmlega aldargömul.

Virðulegi forseti. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þeirri tillögu sem hér liggur frammi og ég tel þess vegna að henni beri að hafna. Samandregið má segja að niðurstaða mín byggi á eftirfarandi meginsjónarmiðum:

1. Það ber ekki að saksækja menn nema meiri líkur en minni séu á sakfellingu Ekkert ákæruatriðanna uppfyllir þetta frumskilyrði þess að ákæra sé gefin út. Ég mun fara yfir saknæmisskilyrðin, orsakasamhengi og fleiri þætti sem horfa þarf til í þessu sambandi á eftir en hér ber einnig að líta til þess hve almennar verknaðarlýsingar eru og að erfitt er að heimfæra þær á tiltekin refsiverð brot en um þetta eru almennt gerðar mjög ríkar kröfur í framkvæmd.

2. Lög um landsdóm og ráðherraábyrgð eru neyðarúrræði þingsins. Þetta eru neyðarúrræði þingsins til að koma við ábyrgð hjá viðkomandi ráðherrum. Þessum úrræðum ber að beita af ýtrustu varkárni og það er engin tilviljun að í heila öld hefur tillaga um að kalla saman landsdóm aldrei komið fram. Verði þingsályktunartillaga þessi samþykkt er um leið ákveðið að taka upp ný viðmið sem ganga gegn aldargamalli venju um það með hvaða hætti ráðherrum er gert að sæta ábyrgð vegna embættisfærslna sinna. Það væri að mínu áliti mikið ógæfuspor fyrir þingið að feta sig inn á þær slóðir.

3. Þá verður að nefna að það er miklum vafa undirorpið hvort lögin standast nútímakröfur um refsiréttarfar og mannréttindi. Það er óumflýjanlegt að hafa þetta hugfast þegar við ræðum þessa tillögu. Ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega ofan í þessi atriði en leyfi mér að vísa til þess sem hér hefur áður komið fram í umræðunni um þetta efni.

Forseti. Hér er lagt til að mál sé höfðað á hendur fjórum ráðherrum fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð en til vara gegn almennum hegningarlögum. Þessum kæruatriðum má skipta upp í nokkra þætti. Það má glöggt sjá að kæruatriðin í skjalinu eru nær alfarið byggð á ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis um mistök eða vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008. Augljósa undantekningin á þessu er að sjálfsögðu í tilviki fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Hér er rétt að geta þess að í kafla 21.5.2 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þar sem fjallað er um hugtökin mistök og vanræksla, segir rannsóknarnefndin sérstaklega að ekki megi gera ráð fyrir að mælikvarðar um mistök og vanrækslu séu að öllu leyti hliðstæðir við mælikvarða samkvæmt öðrum lagareglum sem kunni að eiga við. Af umfjölluninni að öðru leyti er augljóst að viðmið rannsóknarnefndarinnar um mistök og vanrækslu eru lægri en beita skal við túlkun ráðherraábyrgðarlaganna, að ekki sé talað um hegningarlaganna. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga vegna þess að flutningsmenn þessarar tillögu hafa komist að þeirri niðurstöðu án sérstaks rökstuðnings að vanræksla sú sem lýst er af rannsóknarnefndinni hafi í öllum tilvikum verið jafngild ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi í skilningi ráðherraábyrgðarlaganna. Reyndar er gengið svo langt að embættisfærsla utanríkisráðherra fylgir með þrátt fyrir að hún hafi ekki einu sinni mætt hinum lægri viðmiðum rannsóknarnefndarinnar. Það sætir mikilli furðu. Það má segja að þingmennirnir sem standa að þessari tillögu séu sekir um að hafa látið undir höfuð leggjast að gera betur grein fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Ég ætla þá að snúa mér að einstökum kæruliðum tillögunnar.

1. Ráðherrunum er gefið að sök að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem ráðherrunum var eða mátti vera kunnugt um og þeir hefðu getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins. Svona er þetta orðað í tillögunni. Það er augljóst þeim sem kynna sér tillöguna að þessi ákæruliður er byggður á afar matskenndum atriðum.

Sú spurning sem stendur upp úr er: Hvað átti að gera? Hvernig hefði það dregið úr hættunni? Því er ekki svarað í tillögunni. Þegar um hættubrot er að ræða er það rétt sem fram kemur í tillögunni að ekki er krafist sannaðra afleiðinga. Það þarf ekki að sýna fram á að athafnaleysið hafi valdið tjóni, en þrátt fyrir það hvílir sú skylda á tillöguflytjendum að sýna fram á að hægt hafi verið að bregðast við og afstýra eða draga úr þessari tilteknu fyrirsjáanlegu hættu. Undir þessari umræðu hef ég í andsvari kallað eftir því hvaða aðgerðir, löggjöf, stjórnvaldsfyrirmæli eða ákvarðanir á þessum tíma hefðu afstýrt eða dregið úr hættunni og ég hef enn engin svör fengið. Þessi ákæruliður virðist fela í sér þá fullyrðingu að ekkert hafi verið gert en þegar menn lesa andmælabréfin, þótt ekki væri nema bara þau, að ekki sé talað um atburðalýsingu sem fram kemur í rannsóknarskýrslunni í tímaröð, sjá menn að sú fullyrðing sem liggur á milli línanna í tillögu þingmannanna stenst enga skoðun. Staðreynd málsins er sú að þessi ákæruliður er eftiráspeki eins og tillagan nær öll í heild sinni. Það er auðvelt að vera vitur eftir á þegar menn geta yfirvegað og í rólegheitum farið yfir málin lið fyrir lið, dag fyrir dag, viku frá viku og velt fyrir sér hvernig hefði mögulega mátt bregðast öðruvísi við. En enginn sanngjarn maður getur sagt að þeir ráðherrar sem hér áttu í hlut hafi ekki verið að vinna verk sín af fyllstu trúmennsku og heilindum. Þegar málið er skoðað út frá því sjónarhorni vantar einfaldlega svo mikið upp á að sýnt sé fram á refsinæmið að þessi ákæruliður fellur um sig sjálfan.

2. Lagt er til að ráðherrarnir séu sóttir til saka fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er með hreinum ólíkindum að það þyki eiga að varða refsingu sem hér er rætt um. Eigi að ræða af alvöru hvort tilefni sé til að ákæra menn að viðlagðri refsingu fyrir að hafa ekki látið vinna greiningu á áhættunni vil ég benda á nýlegt dæmi sem mjög auðvelt væri að heimfæra undir þessa brotalýsingu, þ.e. þegar núverandi ríkisstjórn lét undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því að unnin væri heildstæð og fagleg greining á þeirri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli í tengslum við dóm Hæstaréttar Íslands í gengistryggingamálinu frá því í sumar.

Öllum landsmönnum var ljóst að ríkisstjórnin var algerlega óundirbúin þegar sá dómur féll. Það var fyrst eftir dómsuppkvaðninguna sem hafist var handa og hin umdeildu leiðbeinandi tilmæli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins voru send út. Ég fylgdist sjálfur með því á fundum formanna flokkanna hvernig viðkomandi stofnanir voru í óðaönn við að afla sér upplýsinga til að leggja mat á stöðuna eftir að dómurinn var genginn. Ég tek fram að á þessum tíma var það mat manna að fjármálastöðugleika í landinu væri ógnað, hvorki meira né minna. Á að gera mönnum refsiábyrgð fyrir vanrækslu af þessum toga? Nei. Það á ekki að gera það. Hér eru menn komnir út í fullkomnar ógöngur. Það er einfaldlega fráleitt að kalla saman landsdóm og gera mönnum refsiábyrgð vegna vanrækslu á borð við þá sem hér er rætt um. Sú hugmynd að gera utanríkisráðherra ábyrgan fyrir því að ekki hafi verið unnin slík fagleg greining er jafnvel enn fráleitari en gagnvart hinum ráðherrunum og ég verð að segja að það afhjúpar það pólitíska eðli sem einkennir tillöguna í heild sinni að utanríkisráðherranum hafi verið bætt í hóp ráðherranna.

3. Þriðji ákæruliðurinn er fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins. Hér verður að hafa í huga að við erum að tala um árið 2008, ekki 2006, ekki 2007, ákæran varðar árið 2008. Í samantekt á meginniðurstöðum rannsóknarskýrslunnar segir í 1. bindi hennar að Alþingi og ríkisstjórn hafi skort burði og þor til að setja fjármálakerfinu skynsamleg mörk. Fyrir því eru færð ítarleg rök í skýrslunni, bankakerfið hafi því orðið svo stórt að ekki hafi verið hægt að taka áhættuna af því að jafnvel aðeins hluti þess félli. Þegar svona er tekið til orða í rannsóknarskýrslunni er verið að tala um þann tíma sem hér er lagt til að verði ákært út af. Þrátt fyrir þessi orð er lagt til að menn séu ákærðir fyrir að hafa ekki á miðju árinu 2008 gengið í að minnka bankakerfið.

Í hverju liggur glæpurinn eiginlega samkvæmt þessum ákærum? Er glæpurinn í því fólginn að hafa ekki komið stærð bankakerfisins niður í — hvað? Áttfalda þjóðarframleiðslu úr nífaldri þjóðarframleiðslu? Eða var það sjöföld sem hefði ráðið úrslitum? Hvernig átti þetta að gerast? Hvaða áhrif átti það að hafa á þá hættu sem hagsmunum ríkisins stafaði af því? Fyrir þessu eru engin rök færð fram í tillögunni. Hvaða valdheimildir voru annars til staðar til að draga úr stærð bankakerfisins? Hvaða heimildir hafði t.d. fjármálaráðherra sérstaklega? Átti að yfirtaka og selja einstakar eignir bankanna? Hefði það ekki einmitt getað valdið falli þeirra að fara að hlutast til um rekstur með þeim hætti? Hver átti að kaupa viðkomandi eignir? Bara einhver? Gera menn sér enga grein fyrir því ástandi sem ríkti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á árinu 2008, á þessum tíma sem á að gera mönnum refsiábyrgð fyrir að hafa ekki brugðist við? Ekki einu sinni Seðlabanki Íslands átti greiðan aðgang að lánsfjármörkuðum á þessum tíma. Það var allt botnfrosið.

En gefum okkur að þessir fjórir ráðherrar hafi haft valdheimildir til að knýja á um þetta og þá komumst við ekki fram hjá þeirri staðreynd, jafnvel þótt slíkar heimildir hefðu verið til staðar, að hefðu menn farið með virkum hætti í að selja eignir eða flytja starfsemi til útlanda hefði það allt saman gerst á brunaútsölu og ekkert hefði verið unnið með því. Flutningur banka milli landa er ekki einhliða ákvörðun ráðherra í heimalandinu, það er ekki þannig. Að slíkum flutningi þurfa stjórnvöld í viðtökuríkinu einnig að koma. Þetta er líka ljóst af umfjöllun um þessi efni í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, bein aðkoma erlendra stjórnvalda.

Stutta svarið við þessum ákærulið er að það er ekki raunhæft að ætlast til þess af ráðherrum á árinu 2008 að draga úr stærð bankakerfisins. Það var orðið of seint. Þannig var það.

Ég leyfi mér að vitna í rannsóknarskýrsluna, í bindi 7 þar sem segir á bls. 308 að hér hafi menn haft tvo kosti, að þrýsta á um sölu eigna eða að bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Svo segir, með leyfi forseta:

„Hvorugur þessara kosta var út af fyrir sig góður og því síður auðveldur í framkvæmd.“

Þrátt fyrir þetta vilja þingmennirnir ákæra fyrir stórfellt hirðuleysi. Það er óskiljanlegt að öðrum en í mesta lagi viðskiptaráðherra sé gefið það að sök. Málið var svo rækilega á sviði viðskiptaráðherrans að það getur ekki orðið miklu skýrara hvar möguleg ábyrgð á umsvifum bankakerfisins liggur.

4. Icesave-reikningarnir. Lagt er til að ákært sé fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélög og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins. Við þennan ákærulið má hafa fjölmargar athugasemdir.

Í fyrsta lagi má setja fyrirvara við að heill ríkisins hafi verið í fyrirsjáanlegri hættu. Hver er annars rökstuðningurinn fyrir því? Hér er einkabanki á ferð, innstæðurnar eru tryggðar af Tryggingarsjóði án ríkisábyrgðar. Hver er hin fyrirsjáanlega hætta fyrir ríkið? Hver er hún?

Í öðru lagi er lagt til að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki „fylgt eftir og fullvissað sig um“ — út í hvað eru menn komnir? — að hafa ekki fylgt einhverju eftir! Maður spyr sig: Er það hugsun þeirra sem leggja þetta til að glæpurinn sé í því fólginn að hafa ekki með einhverjum galdrabrögðum náð að velta áhættunni af þessum reikningum af íslenska innstæðutryggingarsjóðnum yfir á þann breska? Er glæpurinn í því fólginn? Ætla menn algerlega að horfa fram hjá þeim kröfum sem þarlend stjórnvöld settu fyrir því að slíkt kæmi til greina? Þetta kemur svo skýrt fram í skýrslunni. Ætla menn líka að horfa fram hjá því að Landsbankinn hafði ekki burði til að standa undir þeim kröfum? Hann átti ekki þá peninga, hann átti ekki þær eignir. Á nú með eftiráspeki að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi verið refsivert að setja ekki nokkra tugi milljarða af almannafé til að tryggja flutning reikninganna yfir í dótturfélög? Það stenst enga skoðun, það stendur ekki steinn yfir steini í þessum kærulið og ég hef ekki enn þá minnst á hversu fráleitt það er að heimfæra ábyrgð vegna þessa kæruliðar á fjóra ráðherra.

Sá ákæruliður sem eingöngu er gefinn fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde að sök og fjallar um að hann hafi vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri er sama marki brenndur og aðrir liðir hér að ofan. Það er einfaldlega glórulaust að fara fram á refsingu vegna þessa.

Hér er ekki tími til að fara með sama hætti yfir þann ákærulið sem snýr að 17. gr. stjórnarskrárinnar, um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Ráðherrunum er öllum gefið að sök að hafa hvorki átt frumkvæði að formlegum ráðherrafundum um ástandið né gefið ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið. Ég leyfi mér að vísa til þess sem fram kemur í andmælabréfum um að málefni bankanna hafi sannanlega verið rædd á fundum þrátt fyrir að slíkt væri ekki á formlegri dagskrá eða fært til bókar. Það er ekki dregið í efa í rannsóknarskýrslunni og það er útilokað að hægt sé að byggja refsimál á þessum grundvelli.

Virðulegi forseti. Ég vil í síðari hluta ræðu minnar víkja að öðrum hliðum þessa máls, nefnilega grundvelli laganna sem hér eru til umfjöllunar. Það hvernig ákæruvaldi og pólitísku valdi er hrært saman í löggjöfinni leiðir óneitanlega hugann að því hvort ekki væri heppilegra að byggja á öðru fyrirkomulagi. Við þekkjum þessa umræðu. Hún hefur farið fram í þingsal og úti í þjóðfélaginu. Því hafa verið gerð ágæt skil í umræðunni hvernig rætur þessa kerfis liggja aftur til 19. aldar, til þess tíma er ráðherrar sátu í umboði konungs, ekki þings. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu en ég vil vekja athygli þingmanna á einu. Frá öndverðu hafa menn talið afar ólíklegt að á ákvæði þessara laga mundi nokkurn tímann reyna. Horfum aðeins til þess sem rætt var um í þessum sal þegar lögin komu síðast til endurskoðunar, árið 1962. Flutningsmaður frumvarpsins sagði m.a. þetta í sinni ræðu, með leyfi forseta:

„Meiri hluti þings hefur talið það næga tryggingu í framkvæmd að geta svipt ráðherra störfum og ráðið því hverjir skipuðu ríkisstjórn þó að ekki fylgdi hitt með að höfðað væri mál á hendur ráðherra fyrir embættisafglöp hans. Það er einnig eftirtektarvert að allan þann tíma sem þingræði hefur staðið hér, nú í rúma hálfa öld, hefur aldrei mál verið höfðað fyrir landsdómi gegn ráðherra og meira að segja aldrei komið fram tillaga um það á Alþingi þrátt fyrir það þótt við vitum að að minnsta kosti í orði kveðnu hafa stjórnmáladeilur hér verið ærið harðar á alla bóga og öðru hvoru bornar fram mjög harðar ásakanir af hálfu stjórnarandstæðinga gegn þeim sem í ríkisstjórn hafa setið.“

Síðar segir flutningsmaður frumvarpsins í ræðu sinni að þótt hann teldi sjálfsagt að koma þessari löggjöf á þessum tíma í nútímaform, eins og það var orðað, gerði hann ekki ráð fyrir að hér væri um ýkja raunhæfa löggjöf að ræða, eins og sagt var.

Framsögumaður allsherjarnefndar taldi einnig að lítil breyting yrði á því að upp kæmu tilefni til að beita ákvæðum laganna. Þetta er algerlega nauðsynlegt að rifja hér upp og það á sérstaklega við vegna þeirrar umræðu sem farið hefur fram um ráðherraábyrgðarlögin og landsdóm og tilefni til að grípa til ákæru.

Menn ræða jafnvel um að best væri að koma ákæruvaldinu út fyrir þingsalinn. Það er framtíðarmúsík. Það er algerlega óraunhæft að koma með slíkar umræður inn í þingsalinn á grundvelli þessara laga. Slíkar vangaveltur byggja að mínu áliti að stórum hluta til á ranghugmyndum um eðli og inntak þeirrar löggjafar sem hér er um að ræða. Sagt er að málið sé svo erfitt fyrir þingið að það ráði jafnvel ekki við þetta hlutverk sitt. Án þess að ég vilji gera lítið úr þeirri umræðu að þingmenn séu settir í erfiða stöðu þegar fram kemur tillaga um að kalla fyrrum ráðherra, pólitíska andstæðinga eða flokksfélaga, til ábyrgðar er nauðsynlegt að hafa hugfast að lög um ráðherraábyrgð og landsdóm komu til endurskoðunar löngu eftir að þingræðisreglan var fest í sessi. Það þýðir að menn gerðu sér grein fyrir því að þetta gæti valdið mönnum þeim þungbæru áhyggjum sem fram hafa komið í umræðunni. Þetta hefur legið fyrir allan tímann. Í greinargerð með málinu þegar lögin voru endurskoðuð og í umræðum komu fram rök fyrir því að þrátt fyrir þingræðisregluna væri rétt að viðhalda ákvæðunum um landsdóm og ráðherraábyrgð. Því hefur ávallt legið fyrir sú erfiða staða sem hér hefur verið rætt um og er nú komin upp í umræðunni.

Hvernig stendur þá á því að þegar lögin voru endurskoðuð 1963 hafi menn ekki gert jafnmikið og gert er nú úr þeim miklu erfiðleikum, þeirri þröngu stöðu sem þingmenn væru settir í ef beita ætti lögunum? Það sem ég tel að skorti algerlega í umræðuna á Alþingi í þessu tilliti er að ráðherraábyrgðarlögin og lögin um landsdóm eru algert neyðarúrræði fyrir þingið. Það hefur stundum verið orðað þannig að lögin um landsdóm og ráðherraábyrgð væru neyðarhemill þingsins. Hér er sem sagt verið að grípa í neyðarhemilinn í fyrsta skipti í þingsögunni. Menn verða að gera sér grein fyrir þessu. Það er ekki hægt að tala um ráðherraábyrgðarlögin og lögin um landsdóm eins og að hér sé um hvert annað almennt sakamál að ræða.

Hér er sagt að þingmenn megi ekki bregðast skyldu sinni. Sumir tala um að þingmenn þurfi að hafa nægilega sterk bein til að styðja málið, kjark til að taka erfiða ákvörðun, styrk til að standast álagið sem fylgir því að fjalla um fyrrum andstæðinga sína eða samherja, jafnvel vini. Hvaða leiðbeiningu geta þingmenn sótt sér í lögskýringargögn um það hvernig nú sé rétt að bregðast við? Hvað var sagt þegar lögin voru sett? Ég hef aðeins að hluta til vísað í þá umræðu. Hvað var sagt um þá miklu flækju sem þingmenn gætu lent í ef beita ætti ákvæðum laganna? Samandregið má segja að skilaboð þeirra sem stóðu að lagasetningunni til þingmanna framtíðarinnar væru þessi: Það væri illa komið fyrir íslensku þingræði ef fara ætti að beita þessum ákvæðum. Mönnum kom ekki til hugar að teflt yrði fram tillögum um málshöfðun gegn ráðherrum í þinginu nema þá að tilefnið væri ærið, að brotið væri skýrt, að öllum væri ljóst hver glæpurinn væri og að þingræðisreglan ein og sér væri ófullnægjandi til að gera upp þær sakir sem bornar væru á viðkomandi ráðherra. Það segir að sjálfsögðu sína sögu að er lögin voru sett síðast, endurskoðuð, hafði slíkt tilefni ekki komið upp í hálfa öld og síðan er liðin önnur hálf öld án þess að tilefni hafi vaknað. Sjá menn þetta ekki hér í þingsal? Sjá menn ekki hvers konar neyðarbremsa ráðherraábyrgðarlögin og landsdómslögin eru?

Hv. þm. Atli Gíslason orðaði það svo í framsöguræðu sinni með þessari þingsályktunartillögu:

„Stjórnarskráin felur þannig Alþingi að taka afstöðu til þess hvort kalla eigi ráðherra til ábyrgðar fyrir embættisrekstur þeirra á grundvelli laga um ráðherraábyrgð, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta eru skyldustörf okkar, lögbundin skylda.“

Svona komst framsögumaður tillögunnar að orði.

Hér er býsna fast að orði kveðið. Það er von að margir þingmenn kikni í hnjánum yfir því að vera mögulega að bregðast lögbundinni skyldu sinni. Hvernig fara þessi orð saman við það þegar framsögumaður frumvarpsins til breytingar á lögunum sagði:

„Úr því að við höfum komist af undanfarna hálfa öld með þeim persónulegu illvígu stjórnmáladeilum sem oft hafa verið háðar á því tímabili þá mun það blessast ekki síður héðan í frá.“

Hvers vegna var ekki minnst á þessa skyldu þegar lögin voru endurskoðuð síðast, þessa þungu skyldu sem hvíldi á herðum þingmanna að grípa til ákæru ef grunur vaknaði um hirðuleysisbrot í embætti? Þegar lögskýringargögn eru skoðuð, þegar sú aldarlanga venja sem skapast hefur í þingstörfunum um meðferð þessa ákæruvalds Alþingis er jafnframt tekin með í reikninginn, er afar hæpið að tala um skyldu til saksóknar í ráðherraábyrgðarmálum nema þá ef til vill þegar um skýr afmörkuð brot er að ræða, brot þar sem þingið getur ekki vikist undan. Hins vegar eru vanrækslubrot, athafnaleysisbrot eins og þau sem ákærurnar fjalla um, svo matskennd í eðli sínu að það er ómögulegt að ræða um skyldu til saksóknar með sama hætti og á við um t.d. hegningarlagabrot almennt. Ég leyfi mér að vísa um þetta m.a. í greinargerð með 10. gr. ráðherraábyrgðarlaganna frá 1963. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Ákvæði 10. gr. eru óneitanlega nokkuð matskennd. Kemur þar einmitt fram séreðli ráðherraábyrgðarinnar. Það er Alþingi sem fyrst metur þessi atriði er það ákveður hvort ástæða sé til málshöfðunar.“

Það er þetta séreðli ráðherraábyrgðarinnar sem þarna var vikið að sem veldur því að þegar hv. þm. Atli Gíslason fjallar um skyldu okkar þingmanna í tengslum við þessar ákærur tel ég hann vera kominn út á hálan ís. Ég leyfi mér að fullyrða að það er engin slík skylda til staðar til að ákæra í því máli sem hér er til umfjöllunar. Þetta er einfaldlega matsatriði hverju sinni og það mat hefur verið framkvæmt á þinginu í 100 ár án þess að menn hafi séð tilefni til að grípa til ákæru. Vafinn hefur í heila öld fallið ráðherrunum í vil og það er ekki að ástæðulausu. Menn verða að horfa á afleiðingar þess ef fara ætti út á þá braut að halda ráðherrum almennt ábyrgum fyrir embættisfærslur sínar.

Þessa dagana heyrist orðið lagahyggja óvenjuoft, síðast þegar hæstv. umhverfisráðherra taldi lagahyggju ráða för við túlkun laga um erlenda fjárfestingu, ekki væri fylgt anda laganna heldur bókstafnum. Hafi ég einhvern tímann séð lagahyggju án alls tillits til lögskýringargagna, án alls tillits til venju og heilbrigðrar skynsemi, er það hér í þessu máli. Ef til stendur á Alþingi ársins 2010 að draga menn til ábyrgðar fyrir jafnmatskennt atriði og um er að ræða í þessu þingskjali er ljóst að kaflaskil verða í þingstörfunum, framkvæmd þingræðis í landinu og að öðru leyti í samskiptum þings og framkvæmdarvalds. Þá verður horfið af þeirri braut sem mörkuð var í upphafi, að það sé einungis í hinum augljósustu tilvikum sem til greina komi að ákæra. Við færum okkur þá inn á nýjar lendur óræðs mats hverju sinni hvenær ráðherrar skulu dregnir til refsiábyrgðar fyrir landsdómi og hvenær ekki. Það verður þá hin nýja regla. Þetta mál er fordæmið sem horft verður til. Nái þessi tillaga fram að ganga á Alþingi eru öll grið rofin varðandi beitingu laganna um landsdóm og ráðherraábyrgð. Vafinn verður þá héðan í frá túlkaður ráðherranum í óhag og má gera ráð fyrir því að landsdómur verði þá reglulega kallaður saman.

Virðulegi forseti. Við skulum forða þinginu frá þeim ógöngum sem hér stefnir í. Við skulum sammælast um að vera einhuga um niðurstöður þingmannanefndarinnar þegar kemur að skýrslunni sjálfri, þegar kemur að tillögunum, þegar kemur að því að draga lærdóm af því sem hér gerðist. Það er það sem stendur upp úr, frumskylda okkar er að draga lærdóm af því sem gerðist og koma í veg fyrir að það geti endurtekið sig í framtíðinni. En að feta sig inn á slóðir ráðherraábyrgðar og kalla saman landsdóm með þeim afleiðingum sem ég hef hér rakið, þvert gegn þeirri aldargömlu venju sem hér hefur ávallt verið virt í framkvæmd, sama hverjir hafa átt í hlut, sama hverjir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu, væri eitt mesta ógæfuspor sem við gætum stigið við þessar aðstæður. Það má alls ekki gerast, virðulegi forseti. Ég treysti því að þingmenn sjái ljósið. Ég treysti því að við komumst sameiginlega að skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli, hversu lengi sem umræðan þarf að standa til þess, hvert sem málið fer til frekari umfjöllunar. Við skulum ljúka þessu uppgjöri með því að draga skynsamlegan lærdóm af því sem gerðist og koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Förum ekki þessa braut. Sá vegur sem hér er lagður leiðir okkur bara í frekari ógöngur.