138. löggjafarþing — 164. fundur,  21. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:00]
Horfa

Flm. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður Skúli Helgason gerði að umtalsefni að það hefði ekki á árunum 2006 eða 2007 verið unnt að afstýra hruni. Ég vildi spyrja hv. þingmann að því hvort hann sé þeirrar skoðunar að ekki hefði verið hægt að takmarka tjónið á árinu 2008 miðað við þau hættumerki sem voru á lofti. Var það unnt og voru slík hættumerki á lofti að hægt hefði verið að bregðast við með aðgerðum?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann, af því ég var ekki viðstaddur upphaf ræðunnar, hvort hann í málflutningi sínum leggist gegn ákæru gegn öllum þeim fjórum einstaklingum sem eiga í hlut.

Í þriðja lagi vildi ég spyrja hv. þingmann aftur og út af því gefna tilefni þegar hann víkur sögunni til áranna 2001–2006 og ef menn horfa fram hjá fyrningarreglunum, gefum okkur að fyrningin sé tíu ár, telur hann að refsiskilyrði séu uppfyllt gagnvart einhverjum þeirra ráðherra sem mynduðu ríkisstjórnir árin 2001–2006? Vísa ég kannski fyrst og fremst til oddvita þeirra flokka sem sátu í ríkisstjórn á þeim tíma.